Ekki er mjög langt síðan að fegrunaraðgerðir voru eingöngu á færi ríkra og þeir sem gengust undir þær fóru leynt með. Hollywood-stjörnur þverneituðu aðspurðar að hafa stækkað brjóst, minnkað nef eða fyllt upp í varir. Nú hikar hins vegar enginn við að breyta útliti sínu sýnist honum svo og sumir hreykja sér beinlínis af þeim fegrunaraðgerðum sem þeir hafa gengist undir. Á þessari öld sjálfsmynda og útlitsdýrkunar er enginn kona meðal kvenna, maður meðal manna eða kvár meðal kvára nema geta sett stút á þrýstnar varir, haldið stinnleika brjóstanna fram á tíræðisaldur og státað af hrukkulausu andliti. En sumum finnst þeir sem nýta sér færni lýtalækna smám saman verða allir eins og andlitin karakterlaus og ljót.
Í raun er ekkert athugavert við að fólk leiti leiða til að halda útliti sínu fram eftir aldri og jafnvel bæti það. Spurningin er fremur hvenær á að byrja og hversu miklu á að breyta. Líklega geta allir verið sammála um að eftir ákveðinn fjölda fegrunaraðgerða hættir fólk að líta vel út. Það verðu óeðlilegt og afskræmt og um leið eru öll einkenni þurrkuð út og fólk verður merkilega einsleitt. Sumir verða háðir aðgerðunum og vilja stöðugt meira.
Líklega kannast allir við að hafa á einhverjum tímapunkti verið ósáttir við eitthvað í útliti sínu og þráð ekkert heitara en að geta breytt því. Þegar líður á ævina breytist þetta hins vegar og stundum verður það sem truflaði mest á unglingsárum helsta stolt manneskjunnar. Kónganefið hans pabba eða augun frá ömmu. Nú og svo breytist tískan. Hverjum hefði dottið í hug fyrir um það bil þrjátíu árum að rassar þeirra Kardashian-systra þættu það alflottustu bakhlutar sögunnar. Þá voru litlir harðir kúlurassar aðalmálið og það þótti sannarlega enginn kostur að vera rassstór. Nú eða hjólbeinóttur og með bil milli læranna. Það var öruggt merki um vannæringu og kallað á vorkunn fremur en aðdáun. Nú svelta unglingsstúlkur sig til að ná þessu eftirsóknarverða bili milli læranna.

Jane Fonda hefur ekki farið leynt með að hún hefur gengist undir fegrunaraðgerðir.
Með lítinn rósamunn
Svo eru það varirnar. Nú eru þykkar varir og stórar það eftirsóknarverðasta af öllu. Í bókum Barböru Cartland og annarra höfunda rómantískra skáldsagna á síðustu öld voru allar söguhetjur með risastór augu og lítinn rósamunn. Nákvæmlega hvernig konur sem passa við þá lýsingu líta út er lesandanum auðvitað látið eftir að ímynda sér en enginn myndi sennilega lýsa vörum Kim Kardashian á þann hátt. Varafyllingar eru algengustu fegrunaraðgerðir nútímans og ótal slíkar aðgerðir gerðar á hverjum einasta degi, sumar á snyrtistofum, aðrar á af heilbrigðisstarfsmönnum og enn aðrar því miður af fólki sem hefur ekki neina sérstaka menntun og vafasama hæfni.
Þótt undanfarin ár hafi orðið mikil þróun í fylliefnum og þau orðin lífræn og að mestu án aukaverkana eru engin þeirra varanleg. Ákveðin hætta er á að líkaminn bregðist við fylliefninu og reyni að losa sig við það. Þá geta orðið til hnúðar í kringum efnið, einkum þegar skiptunum fjölgar. Ef sá sem gerir aðgerðina er ekki reyndur og lærður heilbrigðisstarfsmaður er einnig möguleiki að fylliefninu sé sprautað beint í æð en því fylgir hætta á bólgum og minnkuðu súrefnisflæði inn í vefinn en það getur valdið varanlegum skemmdum.
Annar galli við varafyllingar er að því oftar sem einhverju er sprautað í varirnar því meira fylliefni þarf til. Húðin teygist og gengur ekki algeræega til baka þegar efnið eyðist. Þess vegna verður munnurinn smátt og smátt meira framteygður og þá myndast það sem menn kalla í daglegu tali andagogg. Engum leynist þá lengur að viðkomandi hefur látið setja fylliefni í varirnar en það truflar fæsta núorðið. Sumir virðast einfaldlega hreyknir og ánægðir með að það sjáist að þeir hafi kosið að fara í fegrunaraðgerðir. Þeir telja það sýna sjálfsvirðingu að leitast við að bæta sig á allan mögulegan máta. Þetta verður hluti af lífstíl rétt eins og líkamsrækt og hollt mataræði.
Nútímalifnaðarháttum fylgja líka farsímar og samfélagsmiðlar. Þar er öllu haldið til skila frá fyrstu máltíð dagsins til síðasta andartaks fyrir svefninn. Hver sjálfsmyndin rekur aðra allan daginn, „selfies“, til að lýsa, sýna, segja frá og kannski hreykja sér svolítið hátt. Þá er stúturinn á vörunum ómissandi og þunnar varir óásættanlegar. Stúlkur innan við tvítugt eru þess vegna byrjaðar að láta sprauta fyllingum í varirnar leitast við að taka næstu „selfie“ þannig að varirnar verði áberandi á myndinni. Þá er gott að vera meðvitaður um að öllu fylgja gallar og enginn ætti nokkurn tíma að gangast undir fegrunaraðgerð af neinu tagi án þess að ráðgast við fagmann fyrst. Öllum er frjálst að fara með líkama sinn eins honum sjálfum líkar best en öllu má ofgera og spurning hvort það sé endilega mannkyninu til hagsbóta að allir líti eins út.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.