Fyrir hálfri öld hætti listamaðurinn Erró að nota nafnið Ferró og var það að tilskipan fransks dómstóls. Í ritinu Öldinni okkar, 1961 til 1975 segir að málari af gamla skólanum, Ferraud að nafni, hafi kært ungan starfsbróður sinn Ferró frá Íslandi, sem sé súrrealískur popplistamaður og hinum eldri lítt að skapi.
Djarftækur til nafns
„Í Frakklandi eru bæði þessi nöfn borin eins fram, þótt rithátturinn sé mismunandi og þar stendur hnífurinn í kúnni. Ferraud gamli hafði rekist á nafn Guðmundssonar Ferró í sýningarskrá og þótt íslenski málarinn djarftækur til nafns. Hann gerði honum orð og krafðist þess að hann felldi niður listamannsnafn sitt. Ferró var ekki á því og benti á að nafnið væri ekki einu sinni eins skrifað, enda sótt til spænsks þorps en ekki til Frakklands, og ekkert væri fjær honum en að vilja láta bendla sig við Ferraud hinn franska og list hans.“
Á bandi Erró
Sá franski hafði betur og nú muna fáir eftir því Erró, hafi viljað ganga undir listamannsnafninu Ferró. Íslenskir fjölmiðlar voru greinilega á bandi Erró í nafnadeilunni því í Öldinni okkar er klykkt út með því að segja að málareksturinn hafi vakið mikla athygli í Frakklandi og verði vafalaust til að vekja enn frekari athygli á Erró.