Margir sem komnir eru yfir miðjan aldur eiga foreldra sem eru farnir að þurfa á aðstoð að halda. Þessi grein sem fjallar einmitt um það efni, birtist bandarísku vefsíðunni AARP. Hún er eftir Barry J. Jacobs sálfræðing og fjölskylduráðgjafa. Þótt hún taki mið af aðstæðum í Bandaríkjunum má ýmsilegt af henni læra þannig að hún birtist hér í íslenskri þýðingu.
Millý sem er orðin áttærð gerði alltaf ráð fyrir því að dóttir hennar Becky myndi sjá um hana þegar hún yrði gömul. En það tekur Becky 45 mínútur að keyra til hennar, auk þess sem hún er í fullu starfi og þarf að skutla börnum sínum á táningsaldri í íþróttir og aðra aukatíma. Þó tveir synir Millýar og tengdadætur búi rétt hjá henni og líti oft inn, vill hún helst hafa dóttur sína hjá sér. Becky kemur oft í heimsókn og sér að mamma hennar er sáróánægð með þetta. Hún finnur bæði til sektarkenndar og pirrings.
Á hún að flytja inn hjá mömmu?
„Hvers vegna getur mamma ekki bara sætt sig við það plan sem við höfum sett upp. Það er lang besta leiðin?“, spyr Becky bræður sína í öngum sínum. Þeir eiga engin svör önnur en þau að hún hafi alltaf verið í mestu uppáhaldi hjá henni. Þetta svar eykur enn á sektartilfinningu Becky, eins og það væri réttast að hún hætti bara að vinna, og flytti ásamt fjölskyldu sinni heim til mömmu í litlu íbúðina hennar, til að sjá um hana.
Umönnun oft í höndum dætranna
Þessi systkini eru ágætis dæmi um hversu flókið það getur verið að sjá um aldraða foreldra. Það er sjaldnast mikið jafnræði milli systkina þegar að þessu kemur. Í flestum fjölskyldum er það eitt systkinanna, yfirleitt dóttirin, sem mest mæðir á þegar kemur að umönnun foreldranna. Hvert barnanna tekur mesta ábyrgð í þessu efni, hefur mjög lítið að gera með það hvað er heppilegast. Þættir sem þarna spila inní, eru óskir foreldranna og samband þeirra við syni sína og dætur.
Það sem móðirin vill er mikilvægt
Þetta er meðal þess sem fram kemur í rannsóknum sem gerðar hafa verið í tveimur bandarískum háskólum. Niðurstöður þeirra sýna að það sem hefur áhrif á hvert systkinanna annast aldraðra móður, er búseta þeirra, en einnig kyn og tilfinningalegt samband við hana. Það sem móðirin vill, hefur mikil áhrif á hvernig flestar fjölskyldur skipta með sér verkum. Þegar ekki er unnt að koma til móts við óskir móðrinnar af ýmsum ástæðum, er hætt við að hún verði óánægð og það skapi vandamál í fjölskyldunni. Hvernig er hægt að koma í veg fyrir árekstra þegar ekki er hægt að uppfylla óskir foreldranna? Það eru engar töfralausnir á því, en hér eru nokkrar hugmyndir.
Ræðið opinskátt um hvernig hlutirnir verða
Fjölskylda er stundum skilgreind sem sá hópur fólks sem við búumst við að sýni okkur ástúð, tryggð og hjálpi okkur þegar á þarf að halda. En nánari útlistanir á því hver gerir hvað fyrir hvern og hvenær er nokkuð sem menn ræða kannski ekki um. Menn reikna bara með að fjölskyldan komi þeim til hjálpar. Þess vegna getur komið upp misskilningur og gremja í samskiptum fólks varðandi þetta. Þegar kemur að umönnun aldraðra foreldra, getur dætrum fundist að það sé verið að misnota góðvild þeirra, þegar móðirin er aldrei ánægð með það sem þær gera, og synirnir verða móðgaðir þegar systur þeirra kvarta stöðugt yfir því að þær þurfi að sjá um allt.
Ræðið málin löngu áður en þörf er á umönnun
Það er miklivægt að ræða það í tíma, hvernig fjölskyldan sér fyrir sér að umönnuninni verði háttað þegar þar að kemur. Hvern reiða foreldrarnir sig á? Hvernig sjá uppkomin börn fyrir sér hlutverk sitt í umönnuninni eða hlutverk systkina sinna? Samræður um þetta geta leitt í ljós að kröfurnar sem fjölskyldumeðlimir gera hver til annars varðandi þetta eru mismunandi og það getur líka verið mismunandi hversu viljugir menn eru til að taka þátt þessu verkefni.
Ekki forðast foreldrið
Uppkomnum börnum finnst stundum að væntingarnar sem foreldrarnir hafa til þeirra séu ósanngjarnar og óraunhæfar. Þau hafa þess vegna tilhneigingu til að draga sig í hlé þegar kemur að umönnuninni, til að forðast sektarkennd sem hlýst af því að geta ekki orðið við óskum foreldra sinna. Þannig geta þau lent í vítahring. Foreldrinu finnst það vanrækt og verður pirrað við sitt uppkomna barn. „Barnið“ fyllist enn meiri sektarkennd og forðast foreldrið jafnvel meira en áður. Foreldrinu finnst það yfirgefið og fyllist reiði. „Barninu“ finnst það komið í sjálfheldu og dregur sig enn meira tilbaka.
Sýnið skilning
Það er mun skynsamlegri nálgun fyrir uppkomin börn að sýna óskum foreldra sinna skilning en játa að þau eigi erfitt með að uppfylla þær. „ Ég veit að þú myndir vilja að ég sæi jafnvel um þig, og þú sást um móður þína á sínum tíma. En vegna þess að ég er í fullri vinnu, hef ég ekki tök á að verja eins miklum tíma með þér og þú myndir vilja að ég gerði“. Foreldrið er kannski ekki ánægt með þetta svar en metur einlægni barnsins. Þannig er foreldrið sáttara við það sem barnið getur lagt af mörkum.
Leggið áherslu á útkomuna
Það er ekki endilega á ábyrgð uppkomins barns að sjá um aldrað foreldri nákvæmlega á þann hátt sem það vill. Hlutverkið er að sjá til þess að tryggja því þá umhyggju sem það þarf, þann tíma sem það þarf á henni að halda. Það getur þýtt að eitthvert annað systkini sér mest um aðstoðina, en foreldrarnir hefðu óskað sér. Eða að systkini skiptist á við það, eftir því sem aðstæður þeirra sjálfra breytast. Væntingar eru ekki skipun, jafnvel ekki þótt þær séu settar fram af foreldri sem við elskum, foreldri sem hefur sterka stöðu og er erfitt að gera til hæfis. Umönnunarplanið þarf að vera sniðið að þörfum allra í fjölskyldunni, þannig að allir geti tekist á við þessar aðstæður og jafnframt haldið áfram að njóta lífsins.
Skoðaðu fyrirkomulag þjónustunnar við eldra fólk í Upplýsingabanka Lifðu núna. Smella hér.