Þegar sól hækkar á lofti – þökk fyrir góða heimaþjónustu

Daginn tekur að lengja… það er tímabært með smá ljóstýru í því alheimsmyrkri sem nú ríkir hvort sem litið er til austur, vesturs eða norðurs …. En sleppum þeim ógnvænlegu heimsmálum í þessu spjalli, þó að þau hafi leitað á hugann smástund; núna er mér annað ofar í huga. Mig langar að þakka heimaþjónustu á velferðarsviði Reykjavíkurborgar fyrir frábæra aðstoð á liðnum mánuðum. Undanfarið hef ég notið slíkrar þjónustu vegna veikinda. Starfsmenn; ungt fólk undir dugmikilli verkstjórn kvenna í einu hverfanna nánar í Norðurmiðstöð borgarinnar, hefur í veikindum sótt mig heim, hjálpað til við þrif, innkaup og þannig aukið öryggi mitt og lífsgæði umtalsvert. Þetta unga eða yngra fólk vinnur í teymi og skiptist því á að banka upp á og er hvert öðru elskulegra. Þau segjast að vísu heimsækja marga staði daglega og hafi því takmarkaðan tíma í hverri heimsókn og lúti af öryggisástæðum ýmsum reglum um afmörkun verkefna. Vissulega er ekki allt hnökralaust og hver óskar sér ekki meira af hinu góða?

Guðrún Kristinsdóttir

Guðrún Kristinsdóttir
Mynd: Kristinn Ingvarsson

Það kostaði í fyrstu talsvert umstang að sækja um aðstoðina með tilheyrandi endurteknum símtölum, upplýsingagjöf áður en erindi mín rötuðu á rétta staði. Heildina hefur mér hefur því komið til hugar við að kalla allt umstang í umræddum veikindum; m.a. sem snertir læknis – og heilbrigðisþjónustu fjórðu vaktina með vísan í hin margumtöluðu þriðju vakt kvenna í fjölskyldum. En ég orðlengi það ekki hér; eftir að mál komust í skorður virkar þau að mestu sem skyldi. Mér er því sönn ánægja að þakka fyrir veitta heimilisaðstoð á velferðarsviði Reykjavíkurborgar, ekki síst af því að ég heyri dæmi um hið gagnstæða; um ónóga og ótrausta heimaþjónustu. Þar til kemur vil ég nefna að ég vann um árabil á svipuðu sviði og sé nú glöggt hve miklu fjölbreyttari aðstoð í er boði en fyrr! Breyttir tímar kalla vissulega á þetta, til dæmi með fjölgun aldraðra sem búa einir og því er bæði gott og brýnt að sjá slíka aðlögun eiga sér stað. Svo að eitt dæmi sé nefnt er til dæmis hægt að óska eftir að starfsmaður fari með fólk í göngutúra; nokkuð sem ég hef ekki reyndar ekki þarfnast.

Eftir jólin sem mörgum reynist erfiður tími, ekki síst þeim mörgu sem glíma við missi ástvina og eða einmanaleika er mér sönn gleði að skrifa þessar línur í þakkarskyni – nú þegar sól hækkar á lofti og von er um betri tíð með blóm í haga.

Aðfarakvöld þrettánda 2026.

Guðrún Kristinsdóttir  prófessor á eftirlaunum við Hí,

(fv. yfirmaður fjölskyldudeildar Reykjavíkurborga á 8. áratug sl. aldar!)