Þíða fyrir frosinn fugl

Hvað gerist þegar sorgin sest að í hjartanu eins og frosinn fugl og barn fær ekki grátið hana burtu? Svar við því fæst í Borgarleikhúsinu sem og svar við því hvernig sundurleitur hópur fólks kemur saman og býr til töfrandi sýningu. Já, það er þess virði að leyfa sér að muna töfrana og þau áhrif sem þeir hafa á lífið.

Ragnar Ísleifur Bragason hefur kallað saman hóp til að setja upp verk eftir frænku sína Elísabetu Jökulsdóttur. Verkið skrifaði hún eftir að draugur föður hennar, Jökuls Jakobssonar birtist henni og það hefur verið þrjátíu ár í vinnslu. Margar útgáfur eru til af því og nánast öll leikhús á landinu hafa hafnað því en Leikhópurinn Kriðpleir ætlar sér að takast á við það þótt innan hópsins séu skiptar skoðanir á hvort og hvernig eigi að gera það.

Skemmst er frá því að segja að við fáum að fylgjast með vægast sagt bráðfyndnu ferli frá fyrstu æfingu að fæðingu sýningar og síðan fáum við að sjá verk Elísabetar sett upp í fyrsta sinn. Það einfalt í sniðum en þrungið táknrænni merkingu, um leit Ellu Stínu að barninu í Töfragarðinum, barni sem getur ekki grátið og verður að þíða tár sín svo bæði það og Ella Stína komist aftur til raunveruleikans, til lífsins. Við sögu koma líka Töfrakonan duglega sem er ávallt upptekin af því að þrífa, laga og taka til eftir aðra, Innkaupapokinn sem er hálfgert skrímsli og Tárið sem glitrar og titrar og Bróðirinn sem á að vera Ellu Stínu til stuðnings og hjálpar.

Þetta er bráðfyndin og áhugaverð sýning, vel unnin og gefur sannarlega færi á að kafa á dýptina. Þótt á yfirborðinu sé léttleikinn í fyrirrúmi má lesa svo ótalmargt í þær myndir og tákn sem brugðið er upp og Kriðpleir gefur okkur sannarlega færi á að túlka, skynja og skoða. Hver og einn getur farið heim með sína huggun vegna höfnunar, sefa í sorg og hluttekningu með þeim sem eru frosnir í sínum harmi. Verkið er í raun tvískipt, kómískur raunveruleiki Kriðpleirs og draumkenndur hugarheimur Elísabetar. Áhrifaríkast var þegar þessir tveir heimar skarast og skilaboð úr raunveruleika Elísabetar kljúfa ævintýrið með skilaboðum á póstkorti sem nísta inn að beini.

Leikmyndin er ákaflega hugvitssamleg og skemmtileg. Tjöld eru notuð til að skapa töfraheiminn og þau opnast hér og þar og opna þá sýn inn í annars konar töfra eða kaldan raunveruleikann. Búningarnir eru frábærlega vel unnir, ekki hvað síst Tárið og Innkaupapokinn og öll umgjörðin er bráðskemmtileg. Og það er líka rúm fyrir að láta hitt og þetta koma á óvart, spretta upp þar sem áhorfendur eiga síst von á því.

Leikhópurinn Kriðpleir var stofnaður árið 2012 og hefur sett upp fimm sviðsverk og fjögur útvarpsverk. Hann samanstendur af þeim Bjarna Jónssyni leikskáldi, Ragnari Ísleifi Bragasyni sviðslistamanni, Árna Vilhjálmssyni sviðslistamanni og Friðgeiri Einarssyni sviðslistamanni og rithöfundi. Að þessu sinni koma einnig við sögu Ragnheiður Maísól Sturludóttir leikkona, Sigrún Hlín Sigurðardóttir myndlistarmaður, Saga Garðarsdóttir leikkona og Benni HemmHemm tónlistarmaður.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn mars 1, 2025 07:00