Eftir 39 ára starf á skrifstofu forseta Íslands ákvað Vigdís Bjarnadóttir að
þetta væri orðið gott og kannski tími kominn til að gera eitthvað annað. Hún hafði starfað með þremur forsetum, byrjaði í tíð Kristjáns Eldjárns haustið 1968 og var síðan með Vigdísi Finnbogadóttur öll sextán árin hennar á forsetastóli. Síðan vann hún í 11 ár með Ólafi Ragnari en hætti 2007. Hún var þá orðin sextug og gat hætt á 95 ára reglunni og er í dag 73 ára gömul. Þegar hún hóf störf á skrifstofu forseta var hún eini starfsmaðurinn í fullu starfi en forsetaritari var hálfu starf í þá daga, allt þar til Vigdís Finnbogadóttir tók við af Kristjáni Eldjárn 1980. “Það varð alger sprenging þegar Vigdís var kosin því hún vakti svo mikla athygli um allan heim sem fyrsta konan sem þjóðkjörinn forseti þjóðar sinnar. Það voru stanslaus viðtöl og blaðamenn og sjónvarpsfólk hvaðanæva að voru í sambandi við okkur. Þar með varð mjög mikið að gera hjá mér því það var að sjálfsögðu líka mikil eftirspurn eftir Vigdísi forseta innanlands í alls kyns viðburði og heimsóknir. Skömmu síðar var svo ráðinn inn annar starfsmaður og forsetaritari var svo ráðinn í heilt starf 1983. Það hafði enginn gert ráð fyrir þessu.
Hélt hún hefði gert eitthvað af sér
Vigdís lauk námi frá Samvinnuskólanum á Bifröst í maí 1968. Hún fékk strax vinnu í starfsmannahaldinu á Hótel Loftleiðum. “Ég byrjaði að vinna 1. október og var ekki
búin að vinna nema í mánuð þegar ég fékk símtal frá forsætisráðuneytinu og ég beðin um að koma í viðtal niður í stjórnarráð og tala við Birgi Thorlacius ráðuneytisstjóra. Ég vissi ekki hvað ég hefði eiginlega gert af
mér og vissi ekki hvað var í gangi. Það var þá verið að bjóða mér vinnu á skrifstofu forseta sem kom algerlega flatt upp á mig. Þetta var auðvitað óþægilegt af því ég var svo nýbyrjuð í nýrri vinnu. Ég fór þá til yfirmanns míns hjá Loftleiðum, Jóns Júlíssonar, og sagði honum að mér hefði verið boðin vinna hjá forsetanum og vissi ekkert hvað ég ætti eiginlega að gera. Hann tók þessu afskaplega vel og sagði að það væri nú ekki á hverjum degi sem fólki væri boðin vinna hjá forsetanum svo ég skyldi bara fara. Ef mér litist ekki á þá vinnu mætti ég bara koma aftur og svo liðu 39 skemmtileg ár, fyrst sem einkaritari forsetans og svo sem deildarstjóri á forsetaskrifstofunni,” segir Vigdís brosandi. Þetta var einstaklega skemmtilegt og erilsamt starf, sem tók auðvitað miklum breytingum í takt við tímann, ég vann aðallega í fjármálum og skipulagningu á móttökum og veislum á Bessastöðum og víða annars staðar, og erlendis í opinberum heimsóknum forsetanna. Ég fékk auðvitað tækifæri til að hitta mikið af skemmtilegu fólki og ferðast um allan heim með forsetunum,” segir Vigdís og nýtur þess að rifja þennan skemmtilega tíma upp.
Fór í háskólanám
Vigdísi fannst samt spennandi að hætta að vinna 2007 og var ákveðin í að láta drauma sína rætast og nýta tímann vel. Hún hafði greinst með brjóstakrabbamein skömmu áður og segir að það hafi orðið til þess að hún forgangsraði í lífinu. “Maður fer að hugsa svolítið öðruvísi þegar maður horfist í augu við þennan sjúkdóm,” segir Vigdís. “Ég hugsaði um það hvernig ég vildi verja tímanum sem ég ætti eftir og fór að endurmeta. Mig hafði alltaf langað til að mennta mig meira og á þessum tímapunkti var tækifærið til þess.”
Landslagsarkitektúr heillaði
Vigdís sá sjálfa sig í “freelance” vinnu við að teikna og skipuleggja lóðir og garða og þá var landslagsarkitektúr fagið sem heillaði. Hún hafði ekki tekið stúdentspróf á
sínum tíma en þarna höfðu lögin breyst þannig að tekið var tillit til þess náms sem fólk hafði og starfa sem það hafði sinnt þegar meta átti hæfi til náms í háskóla. Vigdís hafði verið í Samvinnuskólanum á Bifröst, auk þess sem hún hafði verið í tungumálaskólum erlendis, tekið kúrsa í öldungadeild í MH í fögum sem vöktu áhuga hennar eins og sögu, jarðfræði, listasögu og tungumálum en ekki með það að markmiði að taka stúdentspróf þá. Þessi grunnur dugði Vigdísi til að hún gat sótt um í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri þar sem hún tók BS próf í umhverfisskipulagi 2010 sem var fyrri hlutinn í landslagsarkitektanáminu. Seinni hlutinn af náminu var ekki í boði hér svo hún hefði þurft að fara til útlanda, t.d. Norðurlandanna í tvö ár, til að klára masterinn. “Ég var orðin 63 ára 2010 og þá var kreppa á Íslandi. Ég hefði verið orðin 65 ára þegar ég lyki námi og hugsaði með mér að kannski væri ég orðin of gömul þá til að leggja í þetta ævintýri og steypa mér í námslán. Það leit heldur ekki vel út á vinnumarkaðnum. Ég hafði óskaplega gaman af náminu á Hvanneyri og að kynnast samnemendum mínum en ég hefði getað verið amma sumra þeirra en þau tóku mér afskaplega vel,” segir Vigdís og hlær og sér ekki eftir að hafa gert þetta.
Í leiðsögunám fyrir tilviljun
Skömmu síðar hitti Vigdís vinkonu úr saumaklúbbnum en sú starfar sem leiðsögumaður. Hún spurði Vigdísi hvað hún væri að gera. “Ég sagðist nú eiginlega vera verkefnalaus í bili og þá spurði hún af hverju ég færi ekki í Leiðsöguskólann. Ég sagðist nú ekki hafa neitt í það og fann
margar ástæður fyrir því af hverju það væri ómögulegt. Hún sagði þá að ég hefði það nú bara víst og sagði mér að ég hefði nokkra daga til að hugsa mig um því umsóknarfresturinn væri ekki liðinn. Þá hugsaði ég með mér að ég hefði nú kannski ekki miklu að tapa en sá mig samt ekki í fljótheitum sem leiðsögumann. En þegar betur var að gáð hafði ég nokkurn grunn því ég hafði ferðast mikið sjálf um ævina innanlands og utan, tekið þátt í að skipuleggja opinberar heimsóknir forsetanna í alla hreppa landsins og til útlanda. Fór t.d. í opinberar heimsóknir með Ólafi Ragnari til 16 landa svo allt var þetta auðvitað í reynslubankanum. Það varð því úr að ég fór í leiðsögunámið og sé ekki eftir því. Námið var ótrúlega gefandi og skemmtilegt og ég eignaðist þar skemmtilega vini. Vigdís starfaði síðan sem leiðsögumaður í tæp átta ár og segist hafa haft ógurlega gaman af því, sérstaklega hringferðunum. “Maður verður ekki ríkur af leiðsögumannastarfinu. Frekar er það að ánægjan við starfið er svo mikil að leiðsögumenn hafa látið sig hafa léleg laun allt of lengi. Það er skammarlegt hve okkur hefur verið haldið lengi niðri í launum, og ekki fengist formleg viðurkenning á starfinu, þrátt fyrir að strangar kröfur séu gerðar til okkar. Leiðsögustarfið getur verið gífurlega erfitt og lýjandi og mikið hark. Leiðsögumenn leggja mikið á sig til að senda ferðamenn ánægða frá landinu, og þetta starf okkar skiptir oft meginmáli í móttöku ferðamanna,” segir Vigdís sem er enn í sambandi við marga alsæla ferðamenn sem hún leiðsagði um landið okkar.
Málverkið átti hug hennar
Á þessum tíma var Vigdís farin að hafa meira upp úr því að mála en að leiðsegja. Og þegar eiginmaður hennar, Einar S. Sigurjónsson, sem starfaði sem forsetabílstjóri í 16 ár, þurfti að hætta að vinna vegna veikinda var valið auðvelt og þá tók málverkið yfir. Vigdís segist alltaf hafa haft gaman af að teikna og mála. “Ég hef sótt fjölda námskeiða í gegnum árin og málað í yfir 20 ár. Ég hef haldið 14 einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Eftir að ég flutti í Garðabæinn hef ég starfað með öflugu myndlistafélagi hér í bæ sem heitir Gróska sem telur um 80 meðlimi. Hér eru haldin námskeið með ýmsum íslenskum og erlendum listamönnum og kennurum m.a. úr Listaháskólanum, og sýningar haldnar reglulega.
Vigdís leigir vinnustofu á Garðatorgi 1 og þar málar hún daglega. Hún selur myndir sínar í Art67 galleríinu á Laugavegi 61, en einnig á netinu www.art67.is sérstaklega þetta síðasta covid-ár. 14 listakonur reka Galleríið Art67 saman og er það mjög skemmtilegt og gefandi samstarf að sögn Vigdísar. Hún er líka með myndirnar sínar á Instagram, og er sú síða Vigdis_bjarnadottir, þar sem hægt er að skoða myndir hennar.
Vigdís málar og Einar smíðar
Vigdís og Einar kynntust á forsetaskrifstofunni laust eftir síðustu aldamót. Eftir að hann lét af starfi sínu 2018 festi hann
kaup á rennibekk og hefur nú komið sér vel fyrir í bílskúrnum, innréttað þar lítið trésmíðaverkstæði. Vigdís fer út
á vinnstofu sína á morgnana að mála og Einar í bílskúrinn að smíða. Þar smíðar hann ýmsa trémuni eins og osta- og kjötbretti, prjónaskálar og ýmsa muni. “Við erum afskaplega heppin að geta verið að gera það sem við höfum gaman af,”segir Vigdís. “Einar selur sína muni af og til og ég myndirnar mínar. Það eru ágætis aukatekjur til viðbótar við eftirlaunin. Við lifum góðu lífi og líður vel. Við höfum í mörg ár farið til Kanaríeyja á veturna, yfir dimmasta tímann og stundum yfir jólin. Þessi vetur hefur auðvitað verið frekar leiðinlegur,” segir Vigdís hlæjandi en þrátt fyrir erfiðan vetur nýtur hún lífsins við að sækja námskeið og mála myndir á hverjum degi.
Vigdís á tvö börn af fyrra hjónabandi og tvo stjúpsyni og Einar á þrjá syni af fyrra hjónabandi. Vigdís segir að alltaf sé að bætast við svo hópurinn þeirra sé því orðinn býsna stór.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar