Er fullhefnt!

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar

Á söguöld var ekkert framkvæmdavald í landinu. Í glæpamálum þurftu fjölskyldurnar sjálfar að kæra gerandann og sjá til þess að refsingu væri fullnægt. Hefndarskyldan var rík og venjulega réði ættarhöfðinginn því hvenær var fullhefnt fyrir brotið. Grettir Ásmundsson var útlægur í tæpa tvo áratugi. Helsti fjandmaður hans vildi aldrei gefa honum grið enda taldi hann aldrei fullrefsað. Kári Sólmundarson ákvað einn og sjálfur hvenær væri fullhefnt fyrir Njálsbrennu. Sama gerði Gissur Þorvaldsson jarl eftir Flugumýrarbrennu. Hann rauf alla gerða samninga og hélt áfram að drepa menn eins lengi og honum lysti.

Með tímanum ákváðu menn að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Með þrískiptingu ríkisvaldsins í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald var dómum og fullnustu refsinga komið í lagalegan farveg. Samfélagið sjálft kærir og refsar í flestöllum sakamálum án þátttöku ættingja eða annarra málsaðila. Ríkissaksóknari sér um málareksturinn og fangelsismálastofnun um refsiþáttinn. Á Íslandi eins og víðar á Norðurlöndum er dauðarefsing bönnuð og menn eiga að geta aðlagast samfélaginu á nýjan leik að aflokinni refsingu. Dæmdir fangar gátu fengið svokallaða uppreisn æru sem auðveldaði þeim að aðlagast samfélaginu á nýjan leik.

Dæmi eru um að dæmdir menn hafi fengið að hverfa aftur til fyrri starfa eftir fangelsisvist eins og alþingismaður af Suðurlandi.

Á seinni tímum hafa margir gagnrýnt þessa tilhögun mála. Menn hafa bent á að glæpamenn sleppi með allt of væga refsingu. Þetta á sérstaklega við um brotamenn í fíkniefnamálum eða kynferðisbrotum. Með tilkomu netheima þar sem þjóðarsálin bergmálar hefur fólk átt mun auðveldar en áður með að koma skoðunum sínum á framfæri. Algengt er að krafan um harðari refsingar einstakra brotamanna endurómi í netheimum. Margir vilja ævilanga útskúfun brotamanna úr mannlegu samfélagi og leggja sig alla fram til að spilla atvinnumöguleikum dæmdra.

Þessi þróun virðist vera í þá átt að aftur skuli tekið upp réttarfar sögualdar. Ættingjar og vinir þolenda í brotamálum og almenningur vilja ráða því hvenær sé fullhefnt. Kommentakerfi netsins og face-book er að verða ráðgefandi við ákvörðun refsinga í sakamálum.

Í nýrri skipan sakamála yrðu þessir aðilar spurðir hvenær væri fullhefnt fyrir ákveðna glæpi. Þeir þyrftu að svara hvort viðkomandi hafi sýnt nægilega iðran til að fá að hverfa aftur til fyrra lífs. Netið yrði síðan notað til að halda á lofti brotaferli viðkomandi svo að hann gleymdist aldrei. Hætt er við að margir myndu daga uppi og einangrast á sjálfskapaðri Drangey í mannhafinu miðju þar sem internetið sæi til þess aldrei yrðu nein grið gefin.

Slíkt afturhvarf til réttarfars sögualdar mundi vekja verðskuldaða athygli á Íslendingasögum og öllum Íslendingasagnasérfræðingunum landsins sem reyndar eru í útrýmingarhættu. Þeir fengju nýjan vettvang til að láta ljós sitt skína skært sem álitsgjafar í refsiheimi þar sem horft yrði um öxl en aldrei fram á veginn.

Óttar Guðmundsson mars 21, 2022 08:10