Tölvurugl

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar.

Á langri ævi hef ég kynnst mörgum drykkfelldum karakterum sem misstu tökin á flöskunni og eigin hegðun. Sumir sofnuðu snemma brennivínsdauða, aðrir beittu ofbeldi eða hneyksluðu með einhverjum uppátækjum og enn aðrir hneigðust til næturlangra opinskárra trúnaðarsamtala. Allir áttu það sameiginlegt að áfengið réði för og menn höguðu sér í engu samræmi við eigin dómgreind og áætlanir.

Sumir áttu það til að sleppa fram af sér beislinu í fylleríispartíum og dönsuðu og dufluðu eins og þeir væru á endastöð tilverunnar. Menn treystu því venjulega að slíkar uppákomur gleymdust og hefðu engin eftirmál.

Ég átti vini sem hringdu fullir um miðja nótt. Þeir sátu með símann í annarri hendi og sígarettu og glas í hinni og ræddu lífsgátuna af mikilli innlifun. Daginn eftir báðust þeir stundum afsökunar og spurðu: „Hvað sagði ég eiginlega? Móðgaði ég einhvern?“ Þessi símtöl hurfu venjulega inn í algleymið með öðru  drykkjurausi.

Nú er öldin önnur. Allir eru undir eftirliti alltaf. Í hverri veislu leynist upptökumaður sem spilar inn allan dansinn, röflið og skemmtilegheitin og birtir síðan á netinu. Friðhelgi vímunnar og einkalífsins er löngu liðin undir lok.

Drukknir menn og konur setjast við tölvuna sína í næturhúminu og skrifa mislangar færslur um lífið og tilveruna. Vaðið er á súðum eins og áður í árdaga símans þegar allt var látið flakka. Gegnum gleraugu vímunnar eru þessi skrif svo gáfuleg og skemmtileg að menn ýta óhikað á „send“-takkann og fara svo að sofa. En því miður gleymir netið engu.

Þessar snjöllu hugleiðingar rata beint inn á netmiðlana. Þar sitja fjandmenn á fleti og leggja spekina út á versta veg. Því sem slegið er fram í hálfkæringi sem fyndni er túlkað sem rasismi eða fasismi eða eitthvað þaðan af verra.

Nýstárlegur dans og söngur er talinn sanna að viðkomandi hafi fengið sér eitthvað annað í nösina en neftóbak frá ÁTVR.  Símamyndavélin geymir allt eins og forsætisráðherra Finnlands er að sannreyna.

Menn vakna upp við risafyrirsagnir og stórkarlalegar ályktanir móðgaðra álitsgjafa. Netið leggst á hliðina. Ekkert tjóar að biðjast afsökunar eða segjast hafa meint eitthvað allt annað. Þegar hakkavél netsins er komin í gang er ekkert sem fær stöðva hana fremur en brunann að Bergþórshvoli forðum.

Hvað er til ráða? Væri hægt að setja sjálfvirkan áfengismæli á tölvur frammámanna svo að þær fari ekki í gang ef prómill-talan er yfir 0.02? Banna þarf alla síma þar sem áhrifafólk samfélagsins kemur saman að viðlögðum dagsektum. Þessar endurteknu uppákomur þar sem áhrifamenn haga sér eins og  þeim dettur í hug og standa síðan eftir eins og skömmustulegir búðarþjófar eru orðnar ansi vandræðalegar.

Óttar Guðmundsson ágúst 22, 2022 07:00