Norðvesturkjördæmið

Óttar Guðmundsson geðlæknir skrifar.

Vinsælasta starf landsins er þingmennska. Í öllum kosningum gefur mikill fjöldi fólks kost á sér til þingstarfa. Menn leggja hart að sér og eru tilbúnir að veðsetja bæði sál sína og veraldlegar eigur til að komast á þing. Þeir sem falla af þingi í prófkjöri eða kosningum þurfa venjulega margra ára áfallahjálp og aðlögun að venjulegu borgaralegu lífi. Í síðustu Alþingiskosningum voru margir kallaðir en fáir útvaldir. Umræðan hefur þó að mestu snúist um örlagasögu nokkurra frambjóðenda sem töldu sig kosna á þing en það var síðan dregið til baka.

Það er engin tilviljun að þeir frændur mínir Egill Skallagrímsson, Snorri Sturluson og Sturla Sighvatsson eru allir kjósendur í þessu dularfulla Norðvesturkjördæmi. Þeir sögðust allir hafa gaman að talningarklúðrinu. Snorri rifjaði upp viðskipti nokkurra pörupilta frá Eyri við Arnarfjörð við Þorvald Vatnsfirðing tengdason sinn. Þorvaldur óttaðist ekki þessa drengi en forvitrir menn sögðu að oft velti lítil þúfa þungu hlassi. Það stóð heima. Hann uggði ekki að sér og piltarnir drápu hann á grimmilegan hátt

Smávægilegt klúður í talningunni hefur sett af stað örlagaríka atburðarás. Fimm uppbótarþingmenn sem komnir voru inn á þing urðu að víkja fyrir öðrum fimm. Þetta hefur leyst úr læðingi gömlu höfuðsyndirnar öfund, græðgi og hroka. Samherjar og flokkssystkin berjast um sömu þingsætin af mikilli grimmd. Menn eru tilbúnir í hvað sem er til að ná og viðhalda völdum. Þeir sem töpuðu kosningunum heimta endurkjör í nafni réttlætis þó að það mundi sennilega ýta félaga og vopnabróður út af þingi. Þessir einstaklingar ætla að kæra þessar kosningarnar til allra dómstiga á jörðu og himni.

Sturla Sighvats hafði sérlega gaman að þessum bræðravígum. Þetta minnti hann á eigin samtíð þegar nánir ættingjar og vinir bárust á banaspjótum. „Kolbeinn ungi vílaði ekki fyrir sér að drepa barnunga bræður mína á Örlygsstöðum þótt þetta væru náfrændur hans og uppeldisbræður. En hvað gera menn ekki til að þjóna lund sinni og sjúklegum metnaði?“

Sr Hallgrímur segir reyndar um slíka baráttu fyrrum samherja:

„Drambsöm öfundin áður bar

óvinskap þeirra á milli.“

Egill sagði að viðbrögð frambjóðenda sýndu vel ágirndina. „Þetta fólk sér ofsjónum yfir þessari þægilegu innivinnu sem þingmennskan er. Þingmaðurinn hefur aðgang að alls konar bitlingum og fríðindum sem venjulegum kjósendum er lokaður. Mig  langaði alltaf til að fara á þing og kasta yfir þingheim gullpeningum til að afhjúpa lágkúruna og græðgina sem þar er ríkjandi. Ég fékk það ekki.“

„Menn eru tilbúnir að selja skrattanum sál sína eins og Sæmundur í Odda til að fá að sitja á þingi,“ hélt Egill afi minn áfram og fór með þetta vers eftir sr. Hallgrím sem hann hafði breytt lítillega:

Undirrót allra lasta

ágirndin kölluð er.

Frómleika frá sér kasta

„framboðsmenn“ ágjarner.

Óttar Guðmundsson október 11, 2021 07:00