Spútnik V

Óttar Guðmundsson geðlæknir.

 

Faðir minn heitinn, Guðmundur Sigurðsson, var hjartasjúklingur í lengri tíma áður en hann dó árið 1972. Hann átti því rétt á bílastyrk frá TR vegna mæði og brjóstverkja. Á þessum árum stunduðu Íslendingar vöruskiptaverslun við þjóðir Austur-Evrópu. Þær keyptu fisk en við keyptum vonda bíla sem illa gekk að selja. Stjórnvöld gripu til þess ráðs að skilyrða bílastyrkinn til öryrkja við rússneska og tékkneska bíla til að koma bílunum út. Pabbi keypti sér Moskóvits og síðan Skoda fyrir tilstyrk Tryggingastofnunar. Þetta voru afspyrnu erfiðir bílar sem bæði ryðguðu og biluðu oft. Hann lét sér þó fátt um finnast enda gamall sósíalisti. Einu sinni gaf hann mér líka töff rússneskt úr sem gekk reyndar aldrei rétt.

Á liðinni öld trúðu margir hérlendis á yfirburði Rússa í tækni og vísindum enda stóðu þeir framarlega í geimferðum. Gagarín fór fyrstur manna útí geiminn við mikinn fögnuð vinstri manna. Flokksbundnir íslenskir kommúnistar fóru reglulega á heilsuhæli við Svarta hafið og sögðu sögur af stórfengleika rússneska heilbrigðiskerfisins. Opinberar tölur sögðu reyndar allt annað. Lífslíkur Rússa voru mun verri en annarra þjóða, ungbarnadauði meiri og spítalakerfið úr sér gengið. Slíkar fullyrðingar voru þó afgreiddar sem Moggalygi eða auðvaldsáróður.

Það mundi gleðja föður minn að heyra um þá ofurtrú sem nú er ríkjandi á rússnesku bóluefni við kóvíð 19. Mogginn hrópar eftir Spútnik V ásamt stórum hluta þjóðarinnar. Nafnið leiðir hugann að afrekum Rússa í geimnum, hundinum Laiku og Tereskóvu geimfara sem svifu hringinn í kringum hnöttinn í rússneskum geimskipum.

Ég vildi óska að þetta væri upphafið að nýjum blómatíma rússnesks iðnaðar á Íslandi. Menn hætta vonandi að monta sig á þýskum og japönskum bílum og kaupa aftur Moskóvits og Lada Samara og Lada sport. Icelandair ætti að athuga með kaup á Iljútsín flugvélum. Kannski verður fljótlega hægt að fá sér rússneska mjöðm eða hné við Svarta hafið og stytta þannig endalausa biðlista Landspítalans. Ég ætla að draga fram gamla rússneska úrið á nýjan leik. Það gerir bara ekkert til þótt það sýni aldrei réttan tíma.

 

 

Óttar Guðmundsson apríl 19, 2021 07:28