Spaghettí pizza fyrir barnabörnin

Það vita það flestir afar og ömmur hvað það getur verið erfitt að finna mat sem barnabörnunum finnst góður. Eitt eiga þó flest börn sameiginlegt þeim finnst spaghettí og pizza afar gott. Við fengum þessa uppskrift að rétti frá ömmu sem á nokkur barnabörn. Hún segist hafa fundið uppskriftina á netinu og hún flaggi henni þegar allt um þrýtur og hún viti ekkert hvað hún eigi að gefa krakkaskaranum að borða. Hún segir að krakkarnir elski spaghettipizzuna. Hvaða hráefni sé notað sé í raun og veru frjálst það sé hægt að nota eingöngu grænmeti, svo megi nota skinku eða pylsur í staðinn fyrir pepperóní, í raun geti hver og einn valið það sem honum finnst gott. En grunnurinn er á þessa leið.

spaghettí

pizzasósa

mozzarella ostur rifin

parmesan ostur rifinn

(notið um það bil helmingi meira af mozzarella ostinum en parmsan ostinum)

pepperóní

græn paprika

svartar olífur

ítalskt krydd

salt og pipar

steinselja til að skreyta með

Hitið ofninn í 180 gráður. Sjóðið spaghettíið í stórum potti í miklu af vatni samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum, hellið vatninu af og setjið það aftur í pottinn. ( Ekki gleyma að salta vatnið) Hellið pizza sósunni saman við, helmingnum af ostinum, sneiðið pepperóníið, paprikuna í sneiðar og bætið út í pottinn, kryddið með ítalska kryddinu. Hrærið vel saman, saltið og piprið og setjið í eldfast mót. Setjið nokkra paprikubita, ólífur, pepperoni og afganginn af ostinum sem efsta lag. Bakið þangað til osturinn er orðinn gullinn eða í um það bil hálftíma. Áður en rétturinn er borinn fram má fín saxa steinselju og strá yfir spaghettí pitsuna.

Frá þessari sömu ömmu fengum við líka þessa ljómandi uppskrift að fiskifingrum. Hún segist oft grípa til hennar og flestum barnabörnunum finnist hún góð. Hún er sömuleiðis ættuð af netinu. Amman sagði raunar að það væri skemmtilegt að láta krakkana hjálpa til við þennan rétt. Einn gæti séð um að velta upp úr hveitinu, sá næsti tekur við og veltir upp úr egginu og sá þriðji upp úr brauðraspinum. Börnum þykir matur oft betri ef þau hafa hjálpað svolítið til í eldhúsinu, segir amman.

½ kg þorskur eða ýsa

2 msk. hveiti

1 egg

100 gr. brauðraspur

1 msk. söxuð steinselja

2 msk. rifinn parmesan ostur

1 msk. bráðið smjör

salt

Hitið ofninn í 200 gráður. Smyrjið eldfast fat eða ofnskúffu með örlítilli olíu. Skerið fiskflakið í 12, 2×8 cm langar ræmur. Setjið hveitið á disk, hrærið eggið og setjið á annan disk. Á þriðja diskinn blandið þið saman brauðraspi, steinselju, parmesan osti, smjörinu og saltinu. Svo er bara að hefjast handa, takið fiskbitana og veltið þeim upp úr hveitinu, hristið allt auka hveiti af áður en þeir fara í eggja baðið, látið drjúpa af þeim og því næst er þeim velt upp úr raspblöndunni. Leggið á fatið og bakið í 12 til 15 mínútur eða þangað til fiskifingurnir eru orðnir gullnir. Berið fram með kartöflum og tómatsósu.

Ritstjórn ágúst 17, 2018 09:19