Til varnar ellinni

Viltu verða gamall? Klisjan segir að allir vilji verða gamlir en enginn vilji vera það. En hvenær er maður orðinn gamall? Er það þegar maður finnur að líkamleg geta þverr eða þegar maður hættir að vera forvitinn? Sumir vilja miða við áttræðisaldur því þá er oft sagt að fjórða æviskeiðið hefjist, æviskeið ósjálfstæðis og hrörnunar. Líklega er einfaldasta skýringin að maður sé eins gamall og manni líður.

Og hvað er svo skelfilegt við að vera gamall að enginn vill vera það? Er það bara vísun á erfið ár eða geta árin verið góð ef heilsan er sæmileg og fjárhagurinn í lagi? Kominn á þennan aldur hefur maður trúlega öðlast ró í sinni, skoðanir annarra skipta ekki lengur máli og eru ekki að vefjast fyrir. Ekki af því að maður viti endilega betur, heldur að það er ekki tími til þess að gera neitt með þær. Maður vill  ekki eyða þeim tíma sem er eftir í eftirsjá og biturð, heldur nýta hann til þess að gera sjálfan sig og aðra glaða og jafnvel halda áfram að læra eitthvað nýtt. Maður horfir yfir heiminn og veit að það er svo margt sem maður getur ekki stjórnað, breytt eða haft áhrif á. Á þessum aldri er tíminn dýrmætur.

Það er hægt að  áorka ýmsu þó svo að aldurinn hafi færst yfir og þrátt fyrir að líkamleg geta sé minni, hreyfingar hægari og að það taki lengri tíma að vinna verkin. Maður er kannski líka bara latari og vill forgangsraða betur en áður í hvað tíminn nýtist og með hverjum.  Vænst þykir mér um að hafa mína nánustu mér við hlið og vera hluti af lífi þeirra. Að vera gamall þýðir heldur ekki sjálfkrafa að maður hætti að halda sér til,  enda er það ekki gert fyrir aðra heldur fyrir mann sjálfan og sjálfsvirðinguna. Helst á að geisla aðeins frá manni.

Aldraðir fá stundum athugasemdir eins og að þeir séu unglegir eftir aldri sem er eflaust meint sem hrós. Athugasemdunum má taka sem viðurkenningu á að maður hafi lifað lífinu vel en svo er hin hliðin. Vill maður ekki líka að andlitið með sínum hrukkum gefi til kynna reynslu sem hefur safnast á langri ævi? Svo er athugasemdin „þú hefur ekkert breyst“, frá fólki sem þú hefur ekki hitt í áraraðir, jafnvel áratugi, sem ber aðtúlka sem jákvæða. Hún gefur til kynna að þú, þrátt fyrir háan aldur, búir ennþá yfir sama neistanum, sömu lyndiseinkunninni og þú gerðir fyrir langalöngu.

Vís maður sagði að maður ætti að láta eins og maður yrði 104 ára gamall og haga sér eftir því. Metnaður til stórverka hefur kannski minnkað en það er aldrei að vita. Það er aldrei of seint að breyta til, varðveita forvitnina og fitja upp á nýjum verkefnum. Maður vill alla vega ekki sitja aðgerðarlaus og bíða eftir endalokunum.

Ingibjörg Rannveig Guðlaugsdóttir

Höfundur er kominn vel á aldur og meira en það

Greinin var áður birt í Fréttabréfi U3A.