Tröppur án handriðs lífshættulegar

Það eru til ýmsar leiðir til að varast slys í heimahúsum, en þau eru nokkuð algeng og aukast eftir því sem fólk eldist. Það eru yngstu og elstu aldurshóparnir sem eru þarna í mestri hættu.

Dagbjört H. Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur

Dagbjört H. Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur

Eitt af því sem eykur öryggi fólks á heimilum eru handrið við alla stiga og þá handrið báðum megin við stigann. Þetta segir Dagbjört H. Kristinsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Hún segir mikilvægt að það séu handrið við alla stiga og líka tröppur sem eru úti.   Ef stigi er þröngur þurfa handrið að vera báðum megin, en líka ef stiginn er breiður. „Það væri jafnvel enn meiri ástæða til að hafa handrið í stigagöngum í fjölbýlishúsum báðum megin. Þar þurfa menn að mætast í stigum og mikilvægt að geta haldið sér í“. Hún segir að það ættu hvergi að vera tröppur úti án handriðs, það sé lífshættulegt fyrir allra.

Komast ekki í bað

Hjá elsta aldurshópnum er mikilvægt að hafa góð handföng, sérstaklega á baðherbergjum. Dagbjört mælir með því að eldra fólk sé frekar með sturtu en baðker, því það þurfi að príla uppúr baðkerinu og þá geti menn rekið tærnar í og dottið. „Oft er það þannig að fólk getur ekki lengur farið í bað, vegna þess að það er með baðker“, segir hún.

Handföng á baðherbergið

Hér er handfang við salerni

Hér er handfang við salerni

Hún segir mikilvægt að hafa handföng í sturtu, við baðker og salerni. „Það er gott að hafa handföngin og þegar fæturnir eru farnir að svíkja, þá er það alveg nauðsynlegt“, segir hún. Eldra fólki sem fer í heita sturtu er jafnvel hætt við yfirliði, þar sem blóðið streymir til útlimanna við hitann. Sérstaklega ef það er blóðlítið. Stundum grípi menn til þess ráðs að setja stól við sturtuna til að styðja sig við. En þannig fái menn ekki góðan stuðning því stóllinn geti runnið til.

Vinklað handfang

Það er hægt að kaupa handföng hjá Eirbergi og þau eru með stömu gripi, sem gerir þau þægileg í notkun. Þau eru misjafnlega löng og Dagbjört segir að það sé gott að láta þau halla á veggnum. Þannig náist betra grip. Hún mælir sérstaklega með hangfangi sem er vinklað og sést hér á mynd, en það hefur tvo möguleika á gripi og það sé oft betra að vega sig upp ef handfangið er í vinkil.

Vinklað handfang frá Eirbergi

Vinklað handfang frá Eirbergi

 

 

 

 

 

Ritstjórn febrúar 12, 2015 15:04