Tvær ömmur fjarverandi

Jónas Haraldsson

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar

 

Hennar hátign Aþena prinsessa varð 10 ára á dögunum. Það sá ég í tilkynningu frá „Det danske kongehus”, sem svo heitir og segir tíðindi af dönsku konungsfjölskyldunni. Einhverra hluta vegna berast fréttir af hátignunum á Facebook-síðu konu minnar – en á þeirri síðu er ég aukameðlimur og get því skoðað það sem þangað rekur á fjörur. Sérkennilegt er það að Danirnir kenni síðuna við kóng þar sem Margrét Þórhildur hefur drottnað yfir þegnum sínum áratugum saman – en látum það vera.

Það eru kannski ekki stórtíðindi að dönsk stelpa fagni tíu ára afmæli sínu en þessi tilkynning vakti þó athygli mína, enda Aþena ekki hver sem er. Hún er sem sagt dóttir Jóakims prins, yngri sonar Margrétar Þórhildar drottningar, og Maríu prinsessu, eiginkonu hans. Það er því nokkuð langt í ríkiserfðir hjá Aþenu þar sem Friðrik, bróðir Jóakims, er krónprins og erfingjar hans því framar í röðinni í fyllingu tímans – en dönsk prinsessa er hún samt.

Þessi tignartitill Aþenu fór ekki framhjá eiginkonu minni þegar hún margoft sótti Viggó, sonarson okkar, á leikskóla í úthverfi Kaupmannahafnar, Gentofte, þar sem hann býr með foreldrum sínum. Hún sá þá, oftar en ekki, glæsibifreið Jóakims prins sem þarna var kominn í sömu erindagjörðum, að sækja Aþenu litlu í leikskólann, en Jóakim og María bjuggu þar í grenndinni. Ekkert vesen fylgdi komu prinsins á leikskólann, hvorki öryggisverðir né annað tilstand. Sama gilti um Aþenu sem lék sér sæl og glöð við hin börnin, án þess að gera sér grein fyrir hátign sinni.

Sá var siður í leikskólanum að börn heimsóttu hvert annað á afmælum. Viggó okkar heimsótti því Aþenu, vinkonu sína, heim til þeirra Jóakims og Maríu. Vel fór á með þeim og þau léku sér fallega. Við sáum myndir af börnunum í afmælinu þar sem vel var veitt án þess þó að brothætt konungleg postulínsstell væru fram borin. Börnin gerðu ekki athugasemd við það, enda höfðu þau ekki frekar hugmynd um tign afmælisbarnsins en Aþena sjálf.

Í þessum ágæta leikskóla voru haldin, eins og almennt tíðkast, boð fyrir ömmur og afa leikskólabarnanna. Af þeim boðum misstum við vegna dvalar hérlendis. Það kom þó ekki að sök þar sem ekki fréttist af því að Margrét Þórhildur drottning hefði mætt – og Hinrik prins fór lítt af bæ. Ég var sjaldnar í Danmörku á þessum árum en kona mín, fór minna af bæ eins og hinn afinn, Hinrik. Það ku því aðeins hafa vantað tvær ömmur á þessar fallegu leikskólasamkomur, Halldóru ömmu af Íslandi og hennar hátign, Margréti Þórhildi, ömmu af Danmörku.

Aþena prinsessa var og er falleg stúlka, það sést af myndum sem birtust af henni á síðu „Det danske kongehus” í tilefni tíu ára afmælisins. Í athugasemdum við myndirnar er fegurð hennar dásömuð og hún sögð líkjast Maríu móður sinni. Undirliggjandi í þeim athugasemdum virðist vera feginleiki og má af því ráða að Jóakim þyki ekki jafn fallegur og eiginkonan.

Ekki er Viggó, sonarsonur okkar, síður fríður en Aþena leikskólasystir hans. Því nefndi ég það við konu mína hvort þarna væri ekki komið fyrirmyndarpar framtíðar – sem jafnframt opnaði okkur leið í höllu drottningar á tyllidögum þar sem við sætum, ömmur og afar þessara glæsilegu ungmenna, með þjón á hverjum fingri. Ég sá fyrir mér að þær ömmurnar gætu lagt á ráðin um framtíð unga fólksins á meðan við Hinrik, hinn afinn, kíktum í koníaksstofuna og létum færa okkur léttsteikta fashana og meðlæti.

Mín góða kona sussaði á mig, bað mig vinsamlega um að vera ekki með þessa vitleysu – og eflaust hafði hún rétt fyrir sér eins og jafnan. Hinrik afi var enda orðinn nokkuð ellimóður og lést fyrir fáum árum – og amman, Margrét Þórhildur, er nú að potast á níræðisaldur, umtalsvert eldri en Halldóra amma.

Drengurinn Viggó hafði enga hugmynd um þessi framtíðarplön afa síns, um aðgöngumiða að Amalienborg og spássertúra í hallargarðinum, enda skildu leiðir þeirra Aþenu Jóakimsdóttur þegar leikskólavistinni lauk. Hann er raunar ári eldri en prinsessan, orðinn 11 ára, og eflaust skotinn í allt annarri stelpu en Aþenu. Það er því ólíklegt að ég nái fundum Margrétar Þórhildar með mægðum, úr því sem komið er. Fleira kemur til því foreldrar prinsessunnar fluttu úr hverfinu – og ekki nóg með það – fóru alla leið til Parísar þar sem Aþena dvelur með fjölskyldu sinni. Jóakim leitar þar til lands föður síns, því Hinrik prins var franskur greifi og dvaldi tíðum í föðurlandi sínu, auk þess sem María er af frönsku bergi brotin. Þau Jóakim og María geta eflaust, þegar hugurinn girnist, haldið sunnar á franskar slóðir þar sem Hinrik átti búgarð og vínekrur, sem væntanlega hafa gengið sem arfur til sonanna tveggja. Þann fallega stað heimsóttum við hjónin fyrir nokkrum árum, án þess þó að hitta Hinrik, en vínið hans var gott.

Það verður að duga, nær dönsku konungsfjölskyldunni komumst við varla. Yngispiltinum Viggó er slétt sama – og sennilega yngisstúlkunni Aþenu líka.

 

 

Jónas Haraldsson febrúar 7, 2022 07:00