Tveggja og þriggja ára eiga allt

Það er mikil ös í verslunum og  verslunarmiðstöðvum landsins þessa dagana. Þar er fólk á spani að kaupa ýmislegt til jólanna og gjafir handa vinum og vandamönnum.  Sú spurning verður hins vegar æ áleitnari hvað á að gefa fólki í jólagjöf. Áður var það þannig að það þótti erfitt að gefa fimmmtugum og  sextugum gjafir. Þetta var fólk sem átti allt. En nú eiga allir allt, það er meira að segja erfitt að finna gjöf handa tveggja, þriggja  ára börnum, vegna þess að þau eiga allt.

Fólki finnst gaman að skoða landið úr lofti í Fly over Iceland

Þá koma upplifanir alls konar sterkar inn. Hvað með að gefa barnabörnunum fjallgöngu með afa og ömmu í vor? Eða gjafakort fyrir tvo í bíó? Gjafakort fyrir tvö börn á aldrinum 9-12 ára kostar 2500 krónur í Sambíóunum.  Og ef menn vilja gefa uppkomnu börnunum og fjölskyldum þeirra eitthvað nýstárlegt er hægt að kaupa Gjafabréf á Fly over Iceland fyrir alla fjölskylduna. Svo má líka stofna framtíðarreikning í bankanum og leggja allar afmælis og jólagjafir barnabarnanna inná hann þar til þau eru orðin 18 ára. En oft ráðfæra afar og ömmur sig við foreldra barnabarnanna og velja í gjafir handa þeim eitthvað sem þau vantar.

En hvað á að gefa afa og ömmu sem eiga sannarlega allt og vantar líklega ekki nokkurn skapaðan hlut. Gjafakort sem þau geta notað til að gera eitthvað skemmtilegt eða dekra við sig, er sennilega kærkomið, eða eitthvað sem hægt er að nota og endar ekki í hillu niður í geymslu. Hérna fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir að jólagjöfum.

Gjafakort í Þjóðleikhúsið eða Borgarleikhúsið eru vinsælar gjafir. Gjafakort sem gildir fyrir tvo kostar 12.400 í Þjóðleikhúsinu, en 13.500 í Borgarleikhúsinu. Kortið í Þjóðleikhúsinu gildir tæknilega að eilífu, en það er samt best að nota það sem fyrst, því það er ekki „verðtryggt“ ef svo má að orði komast.  Kortið í Borgarleikhúsinu gildir í 3 ár.

Gjafakort í Endurmenntun Háskólans, er þakklát gjöf hjá mörgum sem þykir spennandi að sækja námskeið um allt milli himins og jarðar. Íslendingasagnanámskeiðin eru í sérflokki og eftir áramótin verður námskeiðið Eiríkssaga, Grænlendinga saga og sögur af landafundunum. Það er hægt að kaupa gjafakort fyrir mismunandi upphæðir, námskeiðin kosta misjafnlega mikið, en 10 – 15.000 krónur uppí námskeið er fínt. En þeir sem vilja kaupa gjafabréf hjá Endurmenntun þurfa að sækja þau fyrir klukkan 17 á morgun, föstudag. Það er síðasti dagur fyrir jól sem skrifstofan er opin. Gjafakortin eru ekki tímabundin og falla ekki úr gildi.

Dekur kemur sér alltaf vel

Nudd fyrir þreytta vöðva og stirða líkama er einnig tilvalin gjöf fyrir þá sem eru farnir að eldast. Á Hilton Hótelinu, gömlu Esju, er frábær aðstaða til slökunar  í „SPA –inu“ þar og hægt að panta sér ýmiss konar nudd., svo sem klasískt nudd og klassíska fótsnyrtingu. Það er algengt að kaupa þar gjafabréf fyrir 10-20.000 krónur. Það er víðar hægt að komast í nudd og dekur í höfuðborginni og örugglega líka utan hennar.

Gjafabréf á veitingastaði, þar sem hægt er að velja sér góðan mat með tilheyrandi, er líka frábær gjöf. Hótel Holt er staður sem margir af eldri kynslóðinni sóttu mikið og finnst notalegt að sitja þar innan um sígild verk úr íslenskri myndlist.  Nýi staðurinn á Laugavegi 28, Sumac Grill, er afar vinsæll um þessar mundir og tilvalinn fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt.  Það er líka hægt að mæla með ítölskum mat á Primavera í Marshall húsinu úti á Granda. Hér er fátt eitt nefnt, en veitingastaðirnir í miðbænum og á öllu höfuðborgarsvæðinu eru hreint óteljandi. Gjafabréf fyrir máltíð handa tveimur, getur kostað á bilinu 10-20.000 krónur.  Geiri Smart er svo með hádegisbröns allar helgar. Gjafabréf í hann fyrir tvo, kostar 5.900 krónur.

Sumac er glæsilegur veitingastaður með óvenjulegan mat

Fly over Iceland er nýtt fyrirbæri úti á Granda í Reykjavík. Eins og heitið bendir til, er þetta nokkurs konar flugferð yfir landið með aðstoð flughermis. Miðinn fyrir fullorðna kostar 4.490 krónur. Miði fyrir börn yngri en 12 ára kostar 2.245 kr. Börn þurfa að vera að lágmarki 102 cm. á hæð til að taka þátt í þessu prógrammi pg vera í fylgd fullorðinna. Verð fyrir eldri borgara er 3.600 krónur.

Svo eru afar og ömmur sem vilja láta gott af sér leiða. Og rétt að taka fram að það getur líka átt við barnabörn sem eru komin svolítið á legg.  Þá er hægt að gefa þeim framlög í margvíslega sjóði og til Hjálparstarfs kirkjunnar.  Á vef Hjálparstarfsins segir.

Í gjafaverslun Hjálparstarfs kirkjunnar www.gjofsemgefur.is færðu vörur sem þú færð hvergi annars staðar. Þú færð gjafir sem móttakandinn hér heima gleðst yfir og sá sem fær andvirði hennar, einhvers staðar úti í heimi – nú eða hér heima, verður enn kátari. Því hvort sem það eru hænur, heilt hús fyrir munaðarlaus börn eða hjálp til að komast á sumarnámskeið, þá eru það gjafir sem geta umbreytt lífinu fyrir fátækt fólk.

 

 

 

Ritstjórn desember 19, 2019 07:16