Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara segir að þarfir fólks í húsnæðismálum breytist eftir miðjan aldur. Þá fari margir að velta fyrir sér að minnka við sig. Helstu ástæður þess séu að húsnæðið sem það sé í, sé orðið óhentugt eða of stórt. Stórar lóðir og miklir stigar skipti máli. „Það geta ekki allir búið í húsinu sínu til æviloka,“ segir hún. Sjálf þurfi hún að fara tvo stiga í þvottahúsið. Þórunn telur að vilji menn skipta um húsnæði þurfi að huga að því með a.m.k. fimm ára fyrirvara.
Hvernig vill fólk búa?
Þórunn segir mikilvægt að hugsa um, hvernig fólk vilji búa þegar aldurinn færist yfir. Vill fólk búa í stórum blokkum fyrir eldra fólk, eða í minni kjörnum? Vilja menn búa í blönduðu hverfi þar sem allir aldurshópar búa saman, eða sérstöku húsnæði fyrir eldra fólk? Þessu þurfi menn að velta vel fyrir sér og það sé stórmál að fara í gegnum allt sitt dót. Hvað á til dæmis að gera við allar bækurnar? Hún segir að flestir sem huga að því að minnka við sig, vilji búa í grennd við þjónustu og verslanir og einnig nálægt fjölskyldu sinni, börnum og barnabörnum.
Vilja kaupa ef það verður byggt
Hvað kostar svo að skipta um húsnæði spyr Þórunn. Þar komi menn inn í mikla flóru. Félag eldri borgara hefur staðið fyrir byggingu 400 íbúða frá því það var stofnað árið 1986. Á Skúlagötu, Grandavegi, í Eiðismýri, Árskógum, Hraunbæ og Hólabergi. Allt vel heppnaðar byggingar. Félagið hafi í síðasta félagsblaði verið með litla klausu um hugsanlega byggingu húsnæðis í Mjóddinni og símtölunum hafi bókstaflega rignt inn hjá FEB en fólk spyr um tímasetnngar og vill vera á lista ef það verður byggt. Það væri hins vegar spurning hvort félagið ætti að standa fyrir húsbyggingum.