Tyggjó, óætt æti og einræðið í Brasilíu

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir

Dr. Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar.

 

Árið 1997 kom út bókin Við og Hinir á vegum Mannfræðistofnunar Íslands.

Ritstjórar bókarinnar voru þau Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Haraldur Ólafsson og Gísli Pálsson. Í bókinni var að finna safn greina eftir mannfræðinga og átti ég grein í þessari bók, sem bar titilinn „Teygt og hnoðað” og fjallaði um tyggigúmmí frá mannfræðilegu og sögulegu sjónarhorni.

Í greiningu minni á fyrirbærinu tyggigúmmíi nýtti ég mér kenningar breska mannfræðingsins Mary Douglas, sem hún varpaði fram í bók sinni Purity and Danger, sem kom út árið 1966.  Í bókinni færði Mary Douglas rök fyrir því að skilgreiningar okkar á óhreinindum og á óæskilegum hlutum og bannhelgum verum, mætti rekja til þess, að þessi fyrirbæri væru staðsett á röngum stað eða væru samsett úr þáttum, sem í okkar huga eru ósamræmanlegir.

Sem dæmi um þetta má nefna skó. Skópar sem er vel raðað fram í gangi verða að drasli, ef það er sett upp á eldhúsborð. Mold úti í garði er góð, en verður að skít, þegar hún berst inn í hús.

Mary taldi að bann Gyðinga á skeldýraáti, eins og á rækju, og humri, mætti rekja til þess að þessar dýrategundir eru sjávardýr með fætur, sem spígspora um á sjávarbotni.

Í huga Gyðinga er gangur aðeins eðlilegur ofansjávardýrum og mönnum. Sönn sjávardýr synda. Bann á svínakjötsáti meðal Gyðinga var, að mati Mary Douglas, af sama toga: svín eru klaufdýr, sem jórtra ekki, eins og sönnum klaufdýrum ber.

Út frá þessum hugmyndum Mary Douglas greindi ég tyggigúmmí, sem óætt æti, sem er fyrir vikið utangátta í flokki sælgætis. Við setjum það upp í okkur, sjúgum það og tyggjum, en andstætt öðru sælgæti, eigum við ekki né megum, kyngja því, þar sem það er ómeltanlegt og getur valdið garnaflækju, eða svo var okkur sagt!

Tyggigúmmí á sér langa sögu og fornar þjóðir nýttu sér alls kyns gerðir af trjákvoðu til að hreinsa tennur sínar og munn. Framleiðsla á tyggigúmi eins og við þekkjum það í dag, hófst í Nýja Englandi um 1850 og var, fram á miðja tuttugustu öld, unnið úr chichle, sem er trjákvoða úr mexíkóska trénu chicozapote. Framleiðsla á tyggigúmmíi fór þó fyrst á verulegt skrið í heimsstyrjöldinni síðari og varð upp úr því að heimsmarkaðsvöru.

Sagan á bak við þá þróun er sú, að bandarískir hermenn þjáðust gjarnan af vatnsskorti á vígvöllunum og oft var erfitt að koma vatnsbirgðum til þeirra. Eigandi Wrigley tyggjófyrirtækisins í Chicago sá sér leik á borði og tókst að sannfæra bandarísk hernaðaryfirvöld um að tyggjó mundi draga úr þorsta hermanna. Svo fór að bandaríski herinn keypti af honum mörg þúsund tonn af tyggjóplötum, sem síðan var dreift meðal bandarískra hermanna í Evrópu og í Asíu.

Tyggjóið gerði bandaríska hermenn afar vinsæla á vígstöðvunum, einkum og sér í lagi meðal barna og unglinga, og bandarískur hermaður með tyggjó í vasa eða munni, varð eitt af minnum stríðsáranna.

Tyggjóvinsældir bandarískra hermanna fór mjög fyrir brjóstið á Rússum og varð í þeirra huga að tákni um hið dýrslega eðli Bandaríkjamanna. Fyrir vikið var tyggjó bannvara í Sovíetríkjunum allt til loka Kalda stríðsins. Tyggjó varð að vonum mjög eftirsótt á svartamarkaði Austantjaldslandanna og vestrænum ferðamönnum, sem þangað fóru, var gjarnan ráðlagt að taka með sér tyggjópakka til að gleðja börnin bak við járntjaldið.

Þessi 26 ára gamla tyggjógrein mín rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég sótti Brasilíu nýlega heim og fór að kynna mér brasilískar bókmenntir.

Portúgalska, þjóðtunga Brasilíu, er níunda mest talaða tungumál í heimi. Auk Portúgals og Brasilíu er portúgalska opinbert mál í átta löndum, sex í Afríku og í tveim í Asíu. Þrátt fyrir að um 260 milljónir manna mæli og riti á þessu máli hefur aðeins einn rithöfundur, sem átti portúgölsku að móðurmáli, hlotið bókmenntaverðlaun Nóbels, en það er Portúgalinn Jose Saramago, sem hreppti hnossið árið 1998.

En þrátt fyrir að enginn brasilskur höfundur hafi hlotið Nóbelsverðlaunin, þá eiga Brasilíumenn, sína góðu rithöfunda og skáld. Einn þeirra er rithöfundurinn og blaðakonan Clarice Lispector. Hún var af úkraínskum ættum, fædd árið 1920 og ólst upp í bænum Recife á norðausturströnd Brasilíu, en lést í Ríó de Janeiro árið 1977.

Clarice Lispector gaf út bæði skáldsögur og smásögur, en varð þjóðþekkt fyrir pistla sína, sem birtust reglulega í einu stærsta dagblaði í Ríó, Jornal do Brasil.

Á þessum tíma var einræði í Brasilíu, en árið 1964 komst herinn til valda og hélt um valdatauma allt til ársins 1985, með dyggum stuðningi kaþólsku kirkjunnar og Bandaríkjamanna.

Clarice Lispector

Clarice Lispector skipaði flokk rithöfunda og blaðamanna, sem var andsnúinn  herforingjastjórninni. Tjáningarfrelsi var mjög takmarkað og ritskoðun mikil, og til að komast undan því að lenda í klóm yfirvalda, nýttu brasilískir blaðamenn sér rótgróið brasilískt tjáningarform, hið svo kallað cronîca, eða kroniku form, til að tjá gagnrýni sína á yfirvöldum.

Einkenni þessa stíls var sá, að hinir svo kölluðu crônistas skrifuðu kronikur um almenna hluti og hversdagslegar uppákomur, sem virtust við fyrstu sýn vera hlutlausar, en voru við nánari grennslan, dulin gagnrýni eða ádeila á yfirvöld.

Gott dæmi um kroniku af þessum toga væri frásögn af kakkalökkum og þann ósóma sem þeim fylgir, en stórir og pattaralegir kakkalakkar eru algeng sjón á gangstéttum í brasilskum borgum, eins og Ríó. Vökulir lesendur kroniku af þessu tagi var ljóst að hún fjallaði í raun ekki um kakkalakkana á götum úti, heldur um kakkalakkana, sem sátu á valdastólum landsins og eitruðu þaðan út frá sér.

Í einum af pistlum sínum notaði Clarice Lispector söguna af fyrstu kynnum sínum af tyggjói, sem leið til að deila á herforingjastjórnina. Á æskuárum Clarice var tyggjó ekki algengt í Brasilíu, en um leið var það, eins og svo víða, mjög eftirsótt sælgæti meðal barna. Eldri systir hennar hafði sagt henni frá þessu eilífðar sælgæti, sælgæti sem aldrei mundi bráðna né hverfa eins og annað gotterí.

Þegar systir Clarice gaf henni tyggjó í fyrsta sinn var hún alsæl með að vera, að henni fannst, komin í snertingu við eilífðina. En sælan með tyggjóið snérist brátt upp í martröð.

Eftir smá tíma varð það orðið seigt, grátt og bragðlaust, og hún óttaðist að hún gæti aldrei losnað undan þessum eilífðar óskapnaði. Hún skyrpti því loks út úr sér, í óþökk systur sinnar, og gróf það í sandinn.  En þó það hyrfi í sandinn, vissi hún að tyggjóið eyddist aldrei, og gæti hvenær sem er skotið upp kollinum á ný, rétt eins og þó einræðisstjórninni, sem hún bjó við, yrði kollvarpað, gæti hún alltaf komist til valda  á ný.

Inga Dóra Björnsdóttir október 16, 2024 07:00