Veitir einhver óháða ráðgjöf um hvenær best er að byrja að taka út lífeyri?

Ragnar Frímann Ragnarsson starfar í álverinu á Grundartanga en það styttist í að hann fari á eftirlaun. Nokkrir vinnufélagar hans eru í svipaðri stöðu og einn þeirra sem verður 67 ára í febrúar er byrjaður að taka út lífeyri, en veltir fyrir sér hvað best sé að gera við séreignasparnaðinn.

Sjálfur sagðist Ragnar vilja kynna sér, hvenær væri skynsamlegast fyrir sig að byrja að taka lífeyrinn út. Hann hringdi í Lifðu núna til að spyrjast fyrir um hvort ekki væri einhvers staðar hægt að fá óháða fjármálaráðgjöf um þessi mál. Það varð fátt um svör hjá blaðamanni Lifðu núna, sem hafði ekki heyrt af óháðri ráðgjöf um lífeyrismálin og hvernig best væri að haga málum þegar líður að starfslokum. Hér á vefnum var hins vegar viðtal við konu sem var að komast á eftirlaun og hafði greitt í fjóra lífeyrissjóði. Þar sagði meðal annars.

„Hún er enn að vinna 69 ára gömul, en ákvað samt að hefja töku lífeyris hjá þessum fjórum sjóðum þegar hún varð 65 ára, eins og hún hafði heimild til að gera.  Hún fær 110 þúsund krónur á mánuði frá sjóðunum, sem gerir um 60.000 krónur eftir skatt. Þessum fjármunum hefur hún safnað inná bók, nokkurs konar séreignasparnaði, sem í dag er orðinn yfir 2 milljónir króna.

Hefði hún ekki gert það, hefði hún orðið af þessum peningum, en lífeyrisjóðsgreiðslur hennar hefðu aftur hækkað og orðið nokkuð hærri en þær eru núna. En þá hefðu greiðslur TR til hennar lækkað á móti og hún verið jafnsett og áður“.

Þótt hér hafi þetta dæmi verið nefnt er ljóst að það er afar misjafnt hvernig lífeyrismálin koma út og hvenær best er að hefja töku lífeyris. Það er misjafnt hvernig lífeyrisréttur fólks er og hversu miklar greiðslur það fær frá Tryggingastofnun ríkisins, ef einhverjar.

„Er einhver staður þar sem veitt er óháð fjármálaráðgjöf um þessi mál?“, sagði Ragnar og átti þá við hvort einhverjir utan lífeyrissjóðakerfisins og almannatrygginga gætu lagt óháð mat á hvað best væri fyrir hvern og einn að gera. Hann var einnig að velta fyrir sér breytingum á séreignasparnaði sem boðaður er um áramótin. „Er það kannski enn ein skerðingin?“, spurði hann.

Lifðu núna lýsir hér eftir upplýsingum um hvort einhver veiti óháða ráðgjöf fyrir þá sem nálgast starfslok og velta fyrir sér hvernig best sé að standa að málum þegar kemur að töku lífeyris?

 

 

 

 

Ritstjórn október 26, 2022 07:00