„Það er oft haft á orði að fólk verði trúaðara með aldrinum. Kannski er það hluti af lífsþroskanum og viskunni sem fólk öðlast þegar það eldist. Það fer að sjá hlutina í öðru samhengi og skynjar hinar dýpri víddir tilverunnar“,sagði Karl Sigurbjörnsson biskup í samtali við Lifðu núna. Hann sagði að prestar yrðu varir við trú manna á ýmsum skeiðum lífsins, þar á meðal eldra fólks, þegar það væri að upplifa þá sorg sem fylgir því að missa heilsuna, ástvini og tökin á tilverunni eins og fylgir gjarnan ellinni. „Þegar fólk er að missa sjón, heyrn og færnina sem það hefur reitt sig á í lífinu og sá tími er kominn að það þarf að fara að skila af sér, snýr það sér gjarna að trúnni sem það tileinkaði sér í bernsku“. Karl segir að sú kynslóð sem nú er að verða öldruð hafi alist miklu meira upp við guðsorð og bænir en síðar hafi orðið.
Hugsa öðruvísi um lífið
„Fólk fer að hugsa öðruvísi um lífið með aldrinum“ segir séra Pálmi Mattíasson sóknarprestur í Bústaðakirkju. „Á vissum aldri finnst mönnum eins og allir séu að kveðja í kringum þá. Þá fara þeir að hugsa um lífið útfrá eigin tilfinningum og út frá börnum og barnabörnum. Þeir velta fyrir sér hvaða lífsviðhorf afkomendurnir hafi tileinkað sér og vilja þeim allt það besta. Með árunum er eins og menn verði ófeimnari við að segja að þeir biðji bænir og muni eftir að þakka gæfu og gleði lífsins. Guð var ef til vill aldrei fjarlægur í erli lífsins heldur við sjálf. Allt í einu verður samtalið við Guð eðlilegur hluti hins daglega lífs og þá er eins og viskan og sáttin við lífið aukist“. Pálmi segir að þetta sé líka spurning um heilsufar. „Frísk og spræk eigum við þúsund bænir, en þeir sem eru veikir eiga aðeins eina“.
Það kemur jafnvægi á hugann
Karl sagði að það væri oft vitnað í danska skáldið og prestinn Kaj Munk, sem Nasistar myrtu árið 1944, en hann sagði „Börn og gamalmenni geta kennt okkur mest um himininn. Börnin af því þau eru nýkomin þaðan, en gamalmennin af því þau eru rétt ófarin þangað“. Karl sagði að þroskasálfræðin sýndi að þegar lífshringnum væri að ljúka, kæmi jafnvægi á hugann. Því fylgdi oft meiri víðsýni og næmni á umhverfið, en menn hefðu á meðan þeir væru mest uppteknir af lífsbaráttunni.
Hafði Nýja testamentið alltaf með sér
Pálmi segir að þegar menn séu yngri sjái þeir lífið oft meira í svart hvítu, en þeir geri með aldrinum. Þá fari fólk að meta lífið útfrá öðrum gildum. Hann sagðist hafa rætt við sjómann, sem hefði fengið Nýja testamentið að gjöf frá Gideon félaginu. „Hann sagðist alltaf haft það með sér í öllum ferðum og fundist það tengja sig við góðar tilfinningar og æðri mátt. Hann hefði hins vegar aldrei opnað það. Honum fannst alltaf mikilvægt að handleika það, þegar hann var lengi fjarri ástvinum sínum.“ Trúlega hefði mátt líta á það sem bæn eða eintal sálarinnar“, sagði hann. Með aldrinum hefði hann farið að sjá það meira sem bæn að halda á bókinni góðu“, segir Pálmi.