Það varð skammt á milli fyrrum elskendanna Leonards Cohens og Marianne Ihlen þegar þau létust fyrir átta árum. Þeirra leiðir höfðu skilist mörgum árum fyrr en hún var innblástur að ótalmörgum fallegstu lögum hans, m.a. So Long Marianne. Nýlega voru frumsýndir norsk-kanadískir sjónvarpsþættir um samband þeirra sem bera einmitt sama titil.
Samband þeirra byrjaði á grísku eyjunni Hydra árið 1960. Uppreisnarandi var tekinn að myndast meðal ungs fólks um allan heim og það lagði sig fram um að hafna borgaralegum gildum foreldranna, yfirborðsmennsku og bælingu tilfinninga. Í þáttunum er reynt að kafa ofan í hvernig ástin getur elft sköpunarkraftinn en jafnframt skapað sársauka og vandamál, sérstaklega þegar fólk er enn ungt og ekki fullmótað.
Marianne flutti til Hydra frá Noregi árið 1958. Aðstæður voru frumstæðar á eyjunni en ódýrt að lifa þar. Hún kom þangað með norska rithöfundinum Axel Jensen. Þau áttu í stormasömu ástarsambandi aðallega vegna þess að Axel vildi að sambandið væri opið en Marianne ekki. Þau voru sundur og saman og eftir enn eina sáttatilraun varð Maranne ófrísk og þau eignuðust Alex yngri en faðir hans lét sig hverfa skömmu síðar með annarri konu. Eftir sat Marianne hálf vegalaus en hún gat ekki hugsað sér að snúa heim aftur við svo búið. Og einmitt þá birtist ungur, myndarlegur og einstaklega ljúfmannlegur Kanadamaður á eynni. Hann hafði lagt á flótta frá London, að sögn búinn að fá nóg af þoku, rigningu og almennum gráma. Þetta var Leonard Cohen. Sjálfur sagði hann seinna um fyrstu kynnin af listamannanýlendunni litlu sem hafði myndast á eynni: „Það var eins og allir þarna væru ungir, fallegir og hæfileikaríkir – eiginlega þaktir einhvers konar gulldufti. Allir höfðu einhverja sérstaka og einstaka kosti. Þetta er auðvitað sú sýn sem æskan hefur en í þessari dýrðlegu umgjörð sem Hydra gefur margfölduðust allir þessir eiginleikar.“
Með sólina í bakið og sixpensara á höfði
Marianne lýsti því síðar á dramatískan hátt hvernig þau hittust fyrst. Hún var stödd í lítilli matvörubúð að tína mjólk og aðrar nauðsynjar ofan í körfu. Henni leið illa og áður en hún vissi af var hún farin að gráta fyrir framan afgreiðslukonuna. Þá birtist Leonard í dyrunum með sólina í bakið. „Ég sá ekki hvernig hann leit út, aðeins útlínur andlitsins, svo heyri ég rödd hans sem segir: „Viltu slást í hópinn með okkur. Komdu út í sólina. Við sitjum úti.“ Hann var með fallegan sixpensara og þegar augu okkar mættust fann ég fyrir því um allan líkamann.“
Ekki leið á löngu þar til Leonard fór að draga sig eftir Marianne. Í fyrstu voru þau bara vinir en svo varð sambandið nánara. Þeim fannst þau vera í eigin heimi og ekkert utanaðkomandi truflaði þau. Á morgnana vann Leonard skilyrðislaust í þrjár klukkustundir. Hann lét aldrei neitt koma í veg fyrir það. Hann sat við ritvélina og skrifaði þar til hann varð ánægður með þrjár blaðsíður af efni. Á kvöldin spilaði hann á gítarinn og söng meðal annars vögguvísur fyrir Alex litla. Á þessum tíma ætlaði Leonard að verða rithöfundur og hafði ekki hugsað sér að verða tónlistarmaður eða semja lög.
Marianne var 25 ára þegar þetta var og Leonard ári eldri. Hún var yfir sig ástfangin og sendi son sinn til Noregs til að ömmu sinnar og hóf síðan sambúð með Leonard sem hafði þá keypt sér hús á Hydru. En smátt og smátt fóru þau að þreytast á skorti á nútímaþægindum. Ekkert rennandi vatn var í húsum á eynni og oft mikil fyrirhöfn að verða sér út um drykkjarhæft vatn. Marianne sinnti heimilisstörfunum og þurfti að sjá um allt slíkt einnig þrifin, matseldina og þvotta. Ekkert af þessu einfalt þegar bæði rafmagn og vatn er af skornum skammti.
Umhyggjusöm og góð manneskja
Allir sem þekktu parið á þessum tíma eru sammála um að Marianne hafi verið ákaflega umhyggjusöm manneskja og hún hafi kunnað að draga fram það besta í fólki. Leonard var örlátur í eðli sínu og hann lá aldrei á að lög á borð við Bird on the Wire, Hey, That’s No Way to Say Goodbye og So Long Marianne hefðu aldrei orðið til ef hún hefði ekki verið til staðar og sú sem hún var.
Eitt sinn var Marianne spurð að því hver hennar listgrein væri af einhverjum listamanni úr hópnum sem þau umgengust og hún svaraði: „Líf mitt er list.“ Kannski skorti hana orð til lýsa sér betur en bæði Axel og Leonard höfðu kallað hana músu og sagt að hún væri þeim innblástur í öllu sem þeir gerðu. Hún hafði hins vegar gaman af að nostra við heimilið og reyndi að skapa þægilegt og gott andrúmsloft í kringum sig. Það skipti Axel litlu en Leonard kunni að meta það.
Það að hafa ekki son sinn hjá sér fór fljótt að valda Marianne vanlíðan og hún hélt til Noregs að sækja hann en Leonard til Kanada til að vinna sér inn peninga. Ætlunin var að fara síðan aftur til Hydra og búa þar. Þau keyrðu saman til Noregs og Leonard flaug frá Osló til Montreal. Símtöl voru dýr á þessum árum og þau skrifuðust á. Ástin var heit og söknuðurinn mikill. Bréf þeirra beggja eru full af þrá, ljóðræn og falleg.
Óforbetranlegur kvennabósi
Hún hélt síðan út til Montreal með Axel yngra þá átján mánaða og þau bjuggu þar í ár. Þá héldu þau aftur til Hydru. Marianne skrapp til Noregs nokkrum sinnum á þessu tímabili og Leonard til Kanada. Hann skrifaði skáldsögurnar, The Favourite Game og Beautiful Losers, frekar dimmar sögur og fullar af mystík sem komu út 1963 og 1966. Leonard lagði hart að sér við skrifin og endaði í einhvers konar kulnun að þeim loknum. Það varð til þess að hann sneri sér að tónlistinni og árið 1966 söng Judy Collins lag eftir hann inn á plötu. Það var Suzanne, lag sem sló í gegn. Velgengni Suzanne varð til þess að Leonard ákvað að helga sig lagasmíðum og síðan að syngja eigin lög. Hann náði fljótt vinsældum og varð heimsþekktur á skömmum tíma. Allir sem þekkja tónlist hans eru sammála um að það sé eitthvað seiðandi við þessa sérstöku rödd og ljóðræna, oft torræða textana. Þeir bera það með sér að þessi maður vildi og ætlaði að verða skáld og rithöfundur.
Þau fluttu aftur til Montreal árið 1966 en sambandið var orðið erfitt. Leonard var ekki, frekar en Axel, einnar konu maður. Kannski engin tilviljun að platan sem hann gerði með upptökustjóranum alræmda, Phil Spector, fékk nafnið Death of a Ladies’ Man. Marianne átti einnig í sínum ævintýrum meðal annars elti hún Nick Broomfield, kvikmyndagerðarmann til Englands. Hann gerði seinna heimildamynd um samband Leonards og Marianne en samband hans við Marianne entist ekki nema ár. Bæði vegna þess að Marianne gat aldrei alveg slitið sig frá Leonard og þess að Nick var fimmtán árum yngri en hún.
Sambandið búið
Hún hélt New York árið 1969 til að reyna að endurnýja samband sitt við Leonard en þá bjó hann í hinu fræga Chelsea-hóteli á Manhattan og farinn að umgangast fólk á borð við Janis Joplin, Joni Mitchell og Nico, söngkonu the Velvet Underground. Marianne flutti inn í niðurnídda íbúð við Clinton-stræti ásamt syni sínum en Leonard hélt sig fjarri. Hann hélt þó áfram að styrkja hana peningalega, borgaði leiguna fyrir hana og fyrir skólavist Axels yngra. Dag nokkrun árið 1972 var ráðist á hana fyrir framan húsið sem hún bjó í og hún rænd. Hún leitaði þá til hans og bað hann að taka við þeim en hann sagðist ekki telja að hún passaði inn í hópinn á Chelsea-hótelinu. Hann eignaðist einnig soninn, Adam með Suzanne Elrod og það varð endirinn á ástarsambandi þeirra.
Hún bjó hins vegar í húsi Leonards á Hydru árið 1973 en flutti þaðan þegar Suzanne kom þangað með Adam og krafðist þess að hún færi út. Hún flutti aftur til Noregs og lifði upp frá því mjög hefðbundnu lífi. Hún vann í olíuiðnaðnum í Noregi og giftist verkfræðingnum Jan Kielland Stang árið 1979 en þau höfðu þekkst frá því þau voru börn. Hún og Leonard héldu sambandi meðan bæði lifðu. Töluðu saman af og til og ef hann hélt tónleika í Skandinavíu fór hún á þá og heimsótti hann baksviðs. Leonard sendi henni ákaflega fallegt bréf í email eftir að hún greindist með hvítblæði. Í því segist hann vera rétt fyrir aftan hana, nægilega nálægt til að geta tekið í hönd hennar. Hann sé orðinn hrumur og líkaminn illa farinn rétt eins og hennar. Hann segist ennfremur aldrei hafa gleymt ást þeirra og fegurð hennar. Marianne lést í 28. júlí árið 2016 en Leonard 7. nóvember sama ár.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.