„Við erum sannkallaðir ástríðuferðalangar“

Hvenær á að svara þegar tækifærin banka upp á? Hver og einn hefur áreiðanlega sitt svar við því en hjónin Trausti Hafsteinsson og Rún Kormáksdóttir ákváðu hins vegar að bíða ekki eftir að barið væri á dyrnar heldur taka einfaldlega stökkið. Þau stofnuðu ferðaskrifstofuna Tíu þúsund fet og sérhæfa sig í ferðum til framandi og heillandi staða og skipuleggja ferðir þannig að ferðamaðurinn þurfi engu að kvíða, bara njóta.

Trausti og Rún ásamt dætrum sínum, Matthildi og Tönju Líf. Fjölskyldan reynir helst að að fara einu sinni á sumri út í Flatey á Breiðafirði og þá getur verið gott að grípa til íslensku ullarinnar, þó sólin skíni glatt!

Þið hafið sjálf ferðast mikið og víða og oftast valið áfangastaði sem fáir aðrir kjósa. Mynduð þið segja að þið væruð ástríðuferðalangar?

„Já við erum sannkallaðir ástríðuferðalangar og þetta er það skemmtilegasta sem við gerum,“ segir Trausti. „Við bara elskum að ferðast og elskum að kynnast nýjum þjóðum, nýrri menningu og sjá eitthvað nýtt og framandi. Að fá að vinna við það eru bara forréttindi og algjör draumur. Við byrjuðum í fararstjórninni árið 1999 og um leið og við kynntumst þessu líferni urðum við algjörlega heilluð og smituð. Höfum aldrei náð bakteríunni úr okkur. Við höfum vissulega reynt, gert tilraunir til að flytja heim og gera eitthvað annað en þetta togar alltaf í okkur aftur og aftur.“

Þau eru búsett á Íslandi um þessar mundir en hafa til margra ára verið með annan fótinn eða báða fætur erlendis.

„Við bjuggum á Tenerife í tólf ár,“ segir Rún, „vorum þar með dætur okkar. Yngri dóttirin var fjögurra ára þegar við fluttum en sú eldri tíu ára. Í upphafi stóð til að búa þar í ár en að lokum urðu þau tólf. Við ákváðum á árs fresti að skoða stöðuna og ef dætur okkar næðu ekki að aðlagast skólakerfinu færum við heim. Þær duttu hins vegar fljótt inn í þetta allt saman og náðu tungumálinu fljótt. Við vorum líka afar ánægð með lífstílinn sem við náðum að skapa okkur í þessu góða loftslagi og líkaði vel í vinnunni okkar. „

Rún á göngu inn eftir hinu mikilfenglega gljúfri, The Narrows í þjóðgarði Zion í Bandaríkjunum. Hér þurfti að vera í vaðskóm og notast við staf til að átta sig á dýpt vatnsins.

Á heimavelli í Suður-Evrópu

„Mig grunar að í einhverju af mínum fyrri lífum hafi ég búið á suðrænum slóðum,“ heldur Trausti áfram. „Mér finnst bara að um leið og ég er kominn í þá menningu og innan um þetta opna fólk, þá er ég kominn á minn heimavöll. Ég finn það strax og reyndar á það við um okkur bæði. Þegar við eignuðumst yngri dóttur okkar vorum við að vinna á Ítalíu og fæddist hún þar. Þaðan flytjum við svo fljótlega til Tenerife þannig að það var ekki fyrr en heimsfaraldurinn skall á, að hún fer í menntaskóla á Íslandi.“

„Á meðan við bjuggum á Tenerife fannst okkur mjög mikilvægt að nýta sumarfríin ekki bara til heimsókna til Íslands þótt það sé auðvitað nauðsynlegt til að hitta ættingja og vini,“ segir Rún. „Okkur fannst að við yrðum líka að skoða heiminn af því að við höfum ástríðu fyrir því.“

„Við fórum yfirleitt í eitt stórt ferðalag einu sinni á ári. Við tókum stelpurnar iðulega með þannig að þær fengju líka að kynnast öðrum menningarheimum. Ég held að það séu bara tvö stór ferðalög sem þær hafa ekki farið með okkur í, það fyrra þegar við vorum á leið í Amazon-skógana, við treystum þeim einfaldlega ekki í það og hið síðara þegar við fórum til Machu Picchu í Perú og saltsléttunnar í Bólivíu. Þá vorum við að fara í 5000 m hæð yfir sjávarmáli og vissum ekki hvernig þær myndu bregðast við svo mikilli hæð,“ segir Trausti.

„Maður veit aldrei hvaða áhrif þunna loftið eða loftleysið réttara sagt hefur á fólk,“ bætir Rún við. „Við vorum ekki alveg tilbúin að taka neina áhættu með það.“

Trausti og Rún hafa tekið að sér margar sérferðir til hinna ýmsu landa. Hér eru þau stödd við eitt af sjö undrum veraldar, pýramídana í Egyptalandi.

Pössuðu að halda við íslenskunni

Þótt dæturnar hafi ekki verið með þeim í þessum ferðum hafa þær engu að síður fengið forsmekkinn af flestum heimsálfunum en meðal áfangastaða má nefna, Indland, Kúbu, Jamaíka, Dóminíska lýðveldið, Alaska, Mexíkó, Marokkó, Tyrkland og Pólland. Stelpurnar þeirra eru altalandi á spænsku og ensku en hvað með íslenskuna?

„Við erum bæði kennaramenntuð og pössuðum mjög vel upp á það allan tímann að halda við íslenskunni að stelpunum okkar. Þegar þær koma heim í menntaskóla og byrja að búa til sitt tengslanet háði tungumálið þeim ekki neitt. Okkur og þeim fannst það mjög mikilvægt og önnur þeirra fékk meira að segja verðlaun í íslensku þegar hún kláraði menntaskóla,“ segir Rún.

Þau hjónin hafa unnið í aldarfjórðung við fararstjórn og lengi átt þann draum að stofna eigin ferðaskrifstofu og nú er ferðaskrifstofan Tíu þúsund fet farin af stað. Að hvaða leyti er hún öðruvísi en aðrar ferðaskrifstofur?

„Það er góð spurning,“ segir Trausti og brosir. „Við skerum okkur úr hvað það varðar að við einbeitum okkur frekar að framandi slóðum en hefðbundnum leiðum og við veitum persónulega þjónustu, erum alltaf með fólkinu okkar. Við erum alltaf til staðar og það er alltaf hægt að ná í okkur. Leggjum mikið upp úr því að vanda okkur og hafa allt upp á tíu.“

Rún og Trausti eru miklar fjallageitur og létu gamlan draum rætast, þegar þau gengu fimm daga gönguleið, þar sem hæst var farið upp í 4.600 m hæð yfir sjávarmáli og endað í hinni mögnuðu Inka-borg, Machu Picchu í Perú.

Markmiðið að heimsækja flestar heimsálfur

„Við leggjum einnig mikið upp úr því að fólk þurfi ekki að hafa mikið fyrir ferðalaginu sínu,“ bætir Rún við. „Við leggjum áherslu á sérferðir sem eru skipulagðar frá A-Ö og að fólk þurfi aldrei að velta fyrir sér; Hvað á ég að gera í dag eða hvaða ferðaaðila á ég að leita til ef mig langar á tiltekinn stað? Inni á heimsíðunni okkar er að finna allar upplýsingar um ferðirnar og áfangastaðina og það eru ákveðin þægindi fólgin í því. Við reynum að hafa sem mest innifalið, svo ferðalangurinn þurfi sem minnst að taka upp veskið á ferðalaginu. Þetta er oft kostnaður sem fólk áttar sig ekki á, þegar verð ferða eru auglýst. Við bjóðum einnig upp á aðrar ferðir þar sem er meira frjálsræði inn á milli en þetta eru okkar megináherslur. Við einblínum líka á að fara til sem flestra heimsálfa.“

Trausti tekur við og segir:„Og þetta eru í langflestum tilfellum slóðir sem við þekkjum mjög vel sjálf, höfum farið þangað og ferðast þar um. Það er ótvíræður kostur, því þannig tryggir maður að fólkið okkar missi ekki af skemmtilegustu upplifununum og fái góðar gistingar, sem eru vel staðsettar. Af því að við höfum prófað þetta sjálf og upplifað. Við skipuleggjum líka ferðir sem við höfum ekki farið í og höfum tekið margoft að okkur að leiðsegja á slóðum sem við erum að koma á í fyrsta sinn en þá skiptir höfuðmáli að undirbúa sig rosalega vel og við hjónin leggjum alltaf mikla vinnu á okkur í vandaðan undirbúning til að veita góða íslenska fararstjórn.“

,,Við erum lítið fjölskyldufyrirtæki, með enga fjárfesta á bakvið okkur og viðskiptavinir okkar eru alltaf í beinu sambandi við Rún og Trausta, við teljum okkur vera þægileg í samskiptum,þó við segjum sjálf frá og tökum okkur ekki of alvarlega og leggjum upp úr því að veita persónulega þjónustu og að hafa skemmtun í fyrirrúmi í ferðum okkar. Við fylgjum farþegum okkar nánast heim í hlað, því það er í flestum tilfellum þannig að við hönnum ferðina, auglýsum ferðina, seljum ferðina og sjáum um hana. Kannski þurfum við að fara að bæta við þeirri þjónustu að pakka líka fyrir fólkið og sjá um að vökva blóm og passa hundana,“ segir Trausti og hlær.

Hér eru Rún og dæturnar í Chervolet 52 árgerðinni eðalvagni sem þau keyrðu á um sveitir Kúbu.

Tungumálin hjálpa

„Þegar við vorum í Karíbahafinu flökkuðum við á milli eyja og heimsóttum, Jamaíka, Kúbu, Dóminíska lýðveldið og Púerto Ríkó,“ segir Rún. „Við vorum með stelpurnar með okkur og við einsettum okkur að gera eitthvað alveg einstakt í hverju landi, ekki dvelja einungis á hóteli þótt vissulega sé mikilvægt að hvílast og njóta sólar og hita, heldur líka að kynnast menningunni, hitta heimamenn og þar kom spænskan okkur að góðum notum. Við lögðum mikið upp úr því þegar við fluttum til Tenerife að öll fjölskyldan lærði spænskuna vel. Þegar við ferðumst um lönd Suður- og Mið-Ameríku hefur það gefið okkur algjörlega annan vinkil að geta spjallað við heimamenn og komist að hvað hann hugsar og metur mest. Þar höfum við náð þessari tengingu sem við hefðum ekki haft ef við hefðum verið algjörlega mállaus því þar tala ekki endilega allir ensku.

Þá má nefna að við leggjum okkur fram við að heimafólk fái sinn skerf af heimsókn okkar t.d. í gönguferðinni sem við munum bjóða upp á í febrúar á Tenerife, þar lögðum við okkur fram við að velja veitingastaði sem eru m.a. reknir af heimafólki. Við þekkjum eyjuna út og inn og höfum gengið hana þvera og endilanga og hlökkum mikið til að sýna göngugörpum stórbrotna náttúru á eyjunni fögru.“

Kjúklingaréttur mallar yfir opnum eldi í Amazon-skógunum í Brasilíu. Ævintýralegt ferðalag, sem mun aldrei gleymast!

Í samskiptum við einn aðila

„Í okkar ferðum eru auk þess oftast tveir þaulreyndir íslenskumælandi fararstjórar og ég tel að það sé mikill ávinningur í því fyrir okkar farþega. Það er líka ákveðinn sjarmi yfir því að við leggjum áherslu á minni hópa því þá verður upplifunin sterkari fyrir hvern og einn,“ segir Trausti.

Allir vita að því fylgir áhætta að stofna fyrirtæki og ferðabransinn er duttlungafullur. Þið eruð bæði komin á þann aldur þegar margir eru farnir að horfa til eftirlaunaáranna. Hvernig var að hoppa fram af brúninni og láta vaða með hyldýpið fyrir neðan með ekkert öryggisnet annað en kreditkortin ykkar?

„Við höfum lengi spáð í þessa hugmynd,“ segir Trausti með áherslu. „Það krefst vissulega hugrekkis að taka þetta stökk og þetta er fjárhagsleg áhætta. Við vildum bara ekki sjá eftir því seinna að hafa ekki gert þetta og sitja einhvern tíma í framtíðinni og naga okkur í handarbökin yfir að hafa aldrei reynt þetta sjálf. Það var fyrst og fremst tilhugsunin um eftirsjána sem fékk mig til að láta vaða. Ég er í eðli mínu framkvæmdamaður og ef ég hef trú á verkefninu, framkvæmi ég það.“

„Við erum bæði opin fyrir því að prófa eitthvað nýtt,“ segir Rún. „Ferðalögin okkar eru gott dæmi um það. Við erum opin fyrir því að skoða heiminn í víðara samhengi en bara innan Evrópu og ferðast með börnin okkar í umhverfi sem okkur þykir nýstárlegt. Við erum óhrædd við það og það á við um þetta líka. Þegar heimsfaraldurinn skall á og öllu var skellt í lás á Tenerife fannst okkur þetta í raun góður tímapunktur til að prófa eitthvað nýtt. Yngri stelpan okkar var að byrja í menntaskóla og við höfðum alltaf haft þennan draum á bakvið eyrað og við gáfum okkur góðan tíma til undirbúnings. Við stofnum svo ferðaskrifstofuna 2023 og fannst við ekki hafa neinu að tapa í raun og veru og ef við veldum öruggu leiðina kæmi eftirsjáin seinna meir. Ef þetta gengur ekki upp verður bara svo að vera. Við getum þá alla vega sagt við hvort annað, við reyndum!“

Rún og Trausti líta á það sem forréttindi að geta ferðast með dætrum sínum til framandi landa. Hér er fjölskyldan fyrir framan Taj Mahal í ógleymanlegu ferðalagi um Indland.

Tvö í kotinu og því lag að róa

Trausti grípur orð hennar á lofti og bætir við: „Við vitum þó, að minnsta kosti, að við gerðum okkar besta og svo er þetta ágætis tímapunktur. Stelpurnar okkar báðar fluttar að heiman og við allt í einu orðin tvö í kotinu. Það var bara eitthvað sem sagði okkur að núna ættum við að reyna.“

Er kannski reynsla ykkar af ferðalögum og því að leysa úr óvæntum uppákomum og vandræðum þegar þau koma upp til þess að styrkja ykkur í trúnni á að þið getið þetta?

„Já, ég gæti alveg trúað að það hafi hjálpað okkur,“ segir Rún. „Við höfum nefnilega lent í ótrúlegum ævintýrum og skrýtnum aðstæðum á ferðum okkar.“

„Og í fararstjórastarfinu,“ bætir Trausti við. „Við höfum þurft að leysa úr margvíslegum vanda því vandamál fólks ferðast með þeim til útlanda þótt mönnum hætti stundum til að halda annað. Við erum vön því að bregða okkur í alls konar hlutverk, verið sálusorgarar, hjúkrunarfólk og ýmislegt fleira.“

„Þá sjáum við hvað það skiptir miklu að vera tvö saman í fararstjórn,“ segir Rún. „Það er tvöfalt öryggi fyrir farþegana okkar. Ef veikindi koma t.d. upp á sama degi og skoðunarferð, þá getur annað okkar orðið eftir á sjúkrahúsinu meðan hitt sér um hópinn.“

Rún og Trausti sprella á saltsléttunum í Bólivíu.

„Við erum líka í ágætis aðstöðu núna til að gefa þessu svolítinn tíma. Við vitum að það tekur tíma að koma nýju vörumerki á markað og vinna upp orðspor. Leyfa fólki að átta sig á hver við erum og fyrir hvað við stöndum. Á meðan yngri stelpan okkar er í fjögurra ára háskólanámi í Bandaríkjunum gefst góður tími til að láta á þetta reyna,“ segir Trausti.

„Þetta hefur líka verið óskaplega gaman,“ segir Rún með glampa í augum. „Að búa til vefinn, sníða ferðir og ákveða hvert við viljum fara hefur verið afskaplega skemmtilegt. Líka að viða að sér fróðleik og útbúa fræðslupakka fyrir ferðirnar.“

„Já, það er rétt,“ tekur maður hennar undir. „Maður ferðast í huganum til þessara staða og fetar sig eftir gamalkunnum leiðum því við leggjum mikið upp úr vandaðri upplýsingagjöf um hverja ferð.“

„Æ já, ég man t.d. eftir því, þegar ég var að skipuleggja ferðina til Brasilíu, þá var ég mjög djúpt sokkin í vinnu, þegar hringt var í mig. Ég sat við gluggann minn og úti var súld og það tók huga minn hreinlega smá tíma að átta sig á að ég var ekki stödd í hinu sólríka umhverfi Brasilíu með ískalt kókosvatn í hönd, heldur í suddanum í Reykjavík,“ segir Rún og hlær. En það er komin tími til að kveðja og leyfa þeim að fara í huganum hvert sem þau vilja. Þeir sem vilja skoða ferðirnar þeirra er bent á: https://www.10000.is/

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar. 

Ritstjórn september 8, 2024 07:00