Vildi að starfslokin yrðu mjúk lending

 „Það er svolítið snúið mál að hætta vinna fannst mér. Þegar ég varð sjötugur fyrir um fimm árum fannst mér ekki koma til greina að hætta að vinna. Það var algjörlega útilokað og sem betur fer fékk ég tækifæri til að halda því áfram,“ segir Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og fyrrum landlæknir, við Læknavarpið, hlaðvarp Læknablaðsins.  

Sigurður gerir upp ferilinn og fer yfir sviðið nú þegar hann hættir flestum störfum en þó ekki öllum. Hann ætlar að halda áfram að kenna og situr í ýmsum nefndum og ráðum. „Hugmyndin var að starfslokin yrðu lending, helst mjúk og fín en ekki hrap. Það er eiginlega að ganga eftir.“ Sigurður segir miklar breytingar verða þegar maður hætti að vinna. 

„Mér fannst erfitt að hverfa frá þessu en ég hef lært á þessum árum, síðan ferlið hófst, að þetta er í lagi. Það er ægilega gaman að vera ekki í vinnunni og gera það sem ég er að gera núna.“ En þarf markmið? „Já,“ segir Sigurður og að þau séu önnur en áður.  „Ég þarf ekki að bæta við CV-ið. Það er algjör óþarfi. Það les það enginn lengur,“ segir hann kíminn. „Markmiðið er að njóta lífsins.“ 

 Sigurður er persónulegur í hlaðvarpinu, sem finna má á Spotify, þegar hann ræðir við Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur þáttastjórnanda. Hann segir frá því hvernig þau Sigríður Snæbjörnsdóttir kona hans hafi stutt hvort annað í annasömum störfum og við nám. Hann fer yfir námsvalið á sínum tíma og hvernig hann hefði líklegast ekki komist upp með að verða leikari á sínu æskuheimili. Hann metur einnig stöðu heilbrigðiskerfisins.

 „Við komum ekki nógu vel fram við aldraða. Um hundrað manns liggja inni á Landspítala á hverjum tíma og komast hvorki lönd né strönd en eiga að vera einhvers staðar annars staðar og liggja á bráðadeildum eins og á miðri járnbrautarstöð,“ segir fyrrum landlæknir um svokallaðan fráflæðisvanda. Virðingu við þessa kynslóð skorti. 

 „Þetta er ekki virðing við þá kynslóð sem bjó okkur til. Það er ekki flóknara en það.“ Risavandamál blasi við heilbrigðiskerfinu og yfirvöld taki málaflokkinn ekki nægilega föstum tökum. „Við reynum og ég ætla ekki að gera lítið úr því að stjórnmálamenn segjast vilja taka á þessu. En það gerist seint og illa.“ 

Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á allt viðtalið í Læknahlaðvarpinu.

 

Ritstjórn september 7, 2023 13:38