Olíufélagið N1, hefur áhuga á að bjóða þeim sem eru komnir á eftirlaun hlutastörf við afgreiðslu og þjónustu. Kolbeinn Finnsson framkvæmdastjóri rekstrarsviðs N1, segir að fyrirtækið hafi verið að fylgjast með umræðunni hjá Félagi eldri borgara og Gráa hernum og þá hafi sú hugmynd kviknað hvort ekki væri hægt að bjóða eldra fólki hlutastörf hjá félaginu. Félag eldri borgara og Grái herinn hafa haldið fundi um atvinnumál eldra fólks, en margir sem vilja og geta unnið lengur en tíðkast hefur, eiga erfitt með að fá störf á vinnumarkaði.
Margir hafa áhuga á að vinna lengur
Fólki sem er 67 ára og eldra, mun fjölga um 65% fram til ársins 2030. Á sama tíma hækkar lífaldur þjóðarinnar. Þeir sem eru við góða heilsu hafa margir áhuga á að vinna áfram þó þeir séu orðnir 67 ára, að minnsta kosti hluta úr degi. Kolbeinn segir að N1 hafi áhuga á að gera samning við Félag eldri borgara, um að bjóða hlutastörf fyrir eldra fólk og störfin sem um ræði, séu afgreiðslustörf, þjónusta og jafnvel störf bifvélavirkja eða störf á dekkjaverkstæðum ef það geti hentað fólki.
Vilja nýta krafta þeirra sem vilja og geta
Mikið af ungu fólki vinnur hjá N1, á 8 eða 12 tíma vöktum. Það standi sig vel, en sé oft í biðstöðu, sé búið með framhaldsskóla og vilji vinna á meðan það er að hugsa málið varðandi framhaldið. „Við viljum sjá fjölbreyttari hóp“, segir Kolbeinn og bætir við að eldra fólkið sem hafi verið lengi á vinnumarkaðinum hafi oft annað viðhorf til starfsins. „Við viljum gjarnan hafa blandaðan hóp eldri og yngri starfsmanna og finnst það skemmtileg nálgun. Það er ekki auðvelt að fá starfsfólk og full ástæða til að nýta starfskrafta þeirra sem vilja og geta verið lengur á vinnumarkaðinum en nú er“.
Formaður FEB fagnar áformum N1
Þórunn Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni fagnar því að N1 skuli vilja ráða fólk á besta aldri í vinnu, fólk sem hafi mikla reynslu af vinnumarkaðinum. Félagið sé fylgjandi sveigjanlegum starfslokum og að fólk hafi jöfn tækifæri til starfa. „Það er því gleðilegt að æ fleiri geti unnið hlutastörf eftir að langri starfsævi lýkur“, segir hún. Hún segir störfin fjölbreytt hjá N1 og því sé vel mögulegt að hafa alla aldurshópa í vinnu þar.