Viltu ekki að Meta noti gögnin þín til að þjálfa gervigreind?

Ef þú vilt ekki að Meta noti gögnin þín til að þjálfa gervigreind þarftu að bregðast við. Það nægir ekki að afrita færslu einhvers annars og birta á eigin vegg. Skýrar og aðgengilegar leiðbeiningar um hvernig fara skuli að er hins vegar að finna inn á island.is. Þar eru eftirfarandi upplýsingar.

„Meta byrjar að þjálfa gervigreind með persónulegum gögnum Evrópubúa – notendur þurfa að bregðast skjótt við ef þeir vilja andmæla vinnslunniÍ lok maí 2025 mun Meta hefja þjálfun gervigreindar með því að nýta færslur, myndir og athugasemdir frá notendum Facebook og Instagram í Evrópu. Þetta nær til alls efnis sem hefur verið gert opinbert á þessum miðlum – bæði nýs efnis og þess sem þegar hefur verið birt. Notendur sem vilja koma í veg fyrir að þeirra gögn séu notuð þurfa að bregðast við sem allra fyrst.

Upphafsdegi frestað í fyrra vegna persónuverndar

Áætlað var að hefja þjálfunina árið 2024, en þeirri ákvörðun var frestað eftir að írska persónuverndarstofnunin (IDPC), sem hefur eftirlit með Meta í Evrópu, gerði athugasemdir við lagagrundvöll og skort á gagnsæi. Nú hefur Meta innleitt einfaldara ferli sem gerir notendum kleift að andmæla því að gögn þeirra séu notuð.

Andmæla þarf vinnslunni fyrir lok maí

Allir evrópskir notendur Facebook og Instagram sem náð hafa 18 ára aldri fá tilkynningu um þessa breytingu frá Meta og upplýsingar um hvernig hægt er að andmæla vinnslunni. Ef engin andmæli berast, telst vinnslan samþykkt. Þeir sem vilja koma í veg fyrir að gögn þeirra séu notuð í þjálfun gervigreindar verða að andmæla formlega fyrir lok maí 2025. Að öðrum kosti gæti efnið þeirra þegar verið orðið hluti af þjálfunargögnum sem ekki er hægt að fjarlægja aftur.“

Ef þú vilt andmæla breytingunni og fara fram á að Meta noti ekki gögnin þín í þessum tilgangi fylgdu þá þessum tengli og farðu eftir leiðbeiningunum sem þar er að finna: https://island.is/s/personuvernd/frett/meta-byrjar-ad-thjalfa-gervigreind-med-personulegum-goegnum-evropubua?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR6VN8uJCjw4IJw-BxkhMQzTAAvjyHrUCEiUk1Gwo3Kvtg4D2gxiM6bxugLAnQ_aem_YVVl8sV-vuMP7FBwsbKrtg

Þegar þú ert búinn að fara í gegnum ferlið færðu svar frá Meta á netfangið sem tengt er facebook og instagram-reikningum þínum.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn maí 1, 2025 07:00