Steinunn Matthíasdóttir kennari og ljósmyndari sýnir 65 myndir af eldri Íslendingum á ljósmyndasýningu sem nú stendur yfir í Búðardal, en þetta eru stórar andlitsmyndir sem eru límdar upp á húsveggi í bænum. Þær voru settar upp í vikunni fyrir bæjarhátíðina Heim í Búðardal og verða uppi um óákveðinn tíma eða eins lengi og íslensk veðrátta leyfir. 14 myndir úr seríunni voru einnig settar upp sem hluti af Listasumri á Akureyri og eru festar þar við ljósastaura meðfram tröppunum upp að Akureyrarkirkju. Sá hluti sýningarinnar er einnig liður í samstarfi Steinunnar og Helgu Möller söngkonu en sýningin var sett upp 19. júní þegar Helga flutti japanska lagið sitt Tegami-bréfið í Akureyrarkirkju og stendur sýningin enn sem hluti af Listasumri 2016. Sýningarnar snúast um virðingu og lífsgæði eldra fólks.
Vilja vekja athygli á ákveðnum málsstað
Myndirnar eru teknar á fjórum hjúkrunarheimilum, Hrafnistu í Reykjavík, Lögmannshlíð á Akureyri, Barmahlíð á Reykhólum og Silfurtúni í Búðardal. Steinunn segir verkefnið hafa verið mjög skemmtilegt, en það er hluti af alþjóðlegu verkefni sem heitir Inside Out Project. Sjá hér. Upphafsmaður þess er franski listamaðurinn JR, en markmið verkefnisins er að vekja athygli á ákveðnum málstað með portrett ljósmyndum. Verkefnið hófst árið 2011 og síðan hafa yfir 200.000 manns í 129 löndum tekið þátt í því. Myndirnar eru prentaðar á pappír og límdar upp á húsveggi, á torgum, meðfram hraðbrautum og víðar. Inside Out hefur höfuðstöðvar í New York. Þar voru myndirnar á sýningu Steinunnar í Búðardal prentaðar að hætti Inside Out.
Myndirnar á Akureyri voru prentaðar á varanlegra efni eða álplötur, enda þurfti að vera tryggt að sú útfærsla entist út sumarið sem liður í Listasumri.
Sýningin á Akureyri ber titilinn „Gleðin sem gjöf“ en Inside Out útfærslan í Búðardal ber enskan titil þar sem þeim hluta er miðlað á alþjóðlegri síðu Inside Out og fær þar titilinn „Respect elderly“. Hvort tveggja er vísun í markmið sýningarinnar að sögn Steinunnar, en unnið er með virðingu og athygli vakin á lífsgæðum eldra fólks, mikilvægi þess að finna gleðina sama hvernig lífið leikur okkur og vekja fólk til umhugsunar um hvernig við getum öll átt þátt í að veita gleði.
Ákvað að gera eldra fólk að viðfangsefni
Tildrög þess að Steinunn tók þátt í verkefninu er að Inside Out teymið var farið að horfa til Íslands með verkefnið og leitað var til franskrar kvikmyndagerðarkonu sem var búin að vera á Íslandi að vinna að heimildamynd vestur á Barðaströnd og athugað hvort hún vissi um einhvern sem gæti hugsanlega tekið verkefni að sér. Kvikmyndagerðarkonan hafði samband við Steinunni og þar með var teningnum kastað. Steinunn ákvað að taka þátt og byrjaði í vetur að undirbúa verkefni sem reyndist heldur viðkvæmt og erfitt í framkvæmd. Þegar hún hitti svo Helgu Möller, sem kom í Dalina síðast liðið vor til að frumflytja japanska lagið um eldri borgara, var ákveðið að fara í samstarf með verkefnin og eldra fólk gert að viðfangsefni ljósmyndasýningarinnar.
Sjúkraþjálfun öllu eldra fólki nauðsynleg
Steinunn segist hafa haft mjög gaman af þessu verkefni sem hefur verið gefandi og jafnframt vakið hana til umhugsunar um ýmsa þætti sem mætti huga betur að.
Hún er sannfærð um að einstaklingsmiðuð þjálfun líkt og sjúkraþjálfun, eigi heima innan starfsemi dvalarheimilanna. Þangað er fólk komið af ástæðu og mikilvægt að vinna að því að viðhalda heilsu og byggja upp eins og kostur er. “Eftir veturinn í vetur er þetta eiginlega orðið mér hjartans mál en þá fékk ég að upplifa í gegnum föður minn sem glímir við krabbamein hversu mikilvæg góð og regluleg sjúkraþjálfun er fyrir fólk sem er farið að tapa einhverjum lífsgæðum. Pabbi er líka algjör jaxl og kann að meta þá þjálfun sem hann hefur fengið frá starfsemi Karitas. Og hann er alveg með það á hreinu að án sjúkraþjálfunar hefði aldrei náðst sami árangur og raunin varð.”
Mikið að gera
Steinunn er kennari að mennt og sjálflærð í ljósmyndun. Hún byrjaði að læra, en varð að setja námið í bið, vegna mikilla anna í fjölskyldufyrirtækinu KM þjónustunni í Búðardal, þar sem hún vinnur í búvöruversluninni. En hún segist vinna talsvert að ljósmyndun og heldur úti Flickr síðu á netinu, auk þess að vera á Facebook. Sjá hér:
www.facebook.com/steinamattphotography
www.flickr.com/photos/steinamatt