Þýtt, stytt og endursagt úr Time
Viðskiptajöfur í Texas í Bandaríkjunum að nafni Mike Sisk, hefur sett á laggirnar nær fimmtíu Lág testósterón miðstöðvar í 11 fylkjum í Bandaríkjunum. Þar fá um 45.000 karlar með lágt testosterón magn í blóði, sérstaka hormómameðferð, svipaða og konur á breytingaskeiði hafa fengið, nema konurnar fá östrógen. Þetta kemur fram í ágúst hefti Time tímaritisins bandaríska. Umfjöllunin ber yfirskriftina Manopause?! eða breytingarskeið karla, en breytingaskeið kvenna er kallað menopause. Fyrirsögn greinarinnar hljómar þannig: Finnst þér vera farið að minnka í þér loftið? Testesterón hormónaiðnaðurinn vill pumpa þig upp aftur.
Skiptar skoðanir um hormónameðferðina
Milljónir karla sem eru að eldast, verða varir við að þeir eru orðnir slappir þar sem þeir myndu vilja vera stífir og daufir í dálkinn þegar þeir þyrftu að vera skarpir . Vaxandi fjöldi þeirra er farinn að trúa því að hormómameðferð sé svarið, jafnvel þótt bandaríska Lyfja- og matvæla eftirlitið (FDA) hafi ekki lagt blessun sína yfir hana. Grunsemdir eru um að hormónameðferðin geti aukið hættu á hjartaáfalli og heilablóðfalli hjá karlmönnum. Tilraunir hafa verið gerðar sem sýna það, en skoðanir eru skiptar um það meðal lækna hvort það sé rétt, og í greininni í Time segir að frekari rannsókna sé þörf til að unnt sé að skera úr um það.
Hormónið testosterón í karlmönnum nær hámarki í líkamanum á þrítugsaldri, en fer svo minnkandi með aldrinum. Stundum minnkar kyngetan einnig með aldrinum, menn bæta á sig, finna fyrir depurð þreytu og framtaksleysi. Menn deila um hvort hægt sé að kenna testesteron magninu í líkamanum um, enda eru margir aðrir þættir sem hafa áhrif á hvernig menn eldast. Og hvað telst vera lítið magn af testosteroni? Það eru mjög skiptar skoðanir meðal lækna á því, hvort það sé rétt að gefa körlum sem eru farnir að eldast, testosterón.
Viðvörum frá heilbrigðisyfirvöldum í Kanada
Heilbrigðisyfirvöld í Kanada sendu út viðvörun í sumar um að gætt skyldi varúðar við ávísun testosteróns til eldri karla, vegna hættu á alvarlegum jafnvel lífshættulegum aukaverkunum svo sem hjartaáfalli, heilablóðfalli, blóðtappa og hjartaóreglu. Bandarísk samanburðarrannsókn við Háskólann í Texas sýnir aftur á móti ekki aukna áhættu á hjartaáfalli hjá eldri körlum sem hafa fengið testósterón.
Það er líka vísað til þess í greininni að konum á breyingaskeiði hafi lengi verið gefið östrógen. Fyrst eftir að meðferðin byrjaði var hún mjög útbreidd, en mjög dró úr hormónagjöfinni þegar rannsóknir fóru að sýna að hún jók hættu á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli.
Milljarða velta í testosterón hormónum
Á meðan deilt er um þetta og Lyfja- og matvælaeftirlitið í Bandaríkjunum hefur ákveðið að boða til sérstaks fundar um testosterón meðferðina, halda menn áfram að gefa testosterón hormóna til að vinna gegn ýmsum kvillum sem þjá karla á breytingaskeiði, í þeirri von að þeir verði hressari, stæltari og upplagðari en áður. Á síðasta ári nam sala testosterón hormóna í Bandaríkjunum 2.4 milljörðum dala, en því er spáð að hún verði komin í 3.8 milljarða dala árið 2018, að því er segir í greininni. Mike Sisk í Texas virðist ekki setja það fyrir sig þótt FDA samþykki ekki meðferðina sem veitt er í miðstöðvum hans, enda segist hann hafa góða reynslu af henni sjálfur.