Guðrún Guðlaugsdóttir rithöfundur sendir frá sér bókina Dauðinn í opna salnum fyrir þessi jól. Hann fjallar um blaðamanninn Ölmu Jónsdóttur eins og síðasta bók hennar gerði. Hún er á ólympíumóti í bridge á Rhodos, þegar rafmagnið fer af í opna salnum. Hér kemur stuttur kafli úr bókinni.
Kliðurinn í salnum magnaðist í myrkrinu. Alma þreifaði eftir hönd Tóta og greip í hana, hann dró hana að sér og klappaði henni á bakið. Hún hallaði sér að honum, andaði að sér lyktinni af honum og fann huggun í því. Mikið gekk á í salnum. Sumir blótuðu og kölluðu og aðrir hvöttu samspilara sína til að halda þétt um spilin. Skyndilega heyrði Alma stunur og sog rétt hjá sér. Það var eins og einhver berðist við að ná andanum. Hún færð sig hrædd til.
„Hvað er að gerast?“ hvíslaði hún að Tóta.
„Ég veit það ekki, maður sér ekki neitt. Eitthvað er að. Ég hef aldrei nokkurn tíma verið í öðru eins myrkri. Hefði þetta verið hér áður fyrr þá hefði maður verið með eldspýtur á sér eða kveikjara. En það er löngu búið að banna fólki að reykja á mótum og maður má heldur ekki vera með síma. Vertu ekki hrædd, ljósin hljóta að fara að koma.“
Í sama bili kveiknaði á ljósunum í salnum eins og fyrir kraftaverk. Alma leit í kringum sig og sá að Adrian Miguel lá helblár á vangann fram á borðið og það fóru kippir um hann. Hún rak upp hátt óp.
Lena og Greta stóðu báðar við hlið Adrians, Sæmi og Ingi voru staðnir upp úr sætunum og stóðu þar líka.
Svo slokknuðu ljósin aftur og niðamyrkrið tók völdin á ný. „Maðurinn er fráveikur, það þarf að kalla á lækni,“ sagði Alma við Tóta. Siggi sjúkraþjálfari hafði flýtt sér til Adrians þegar hann sá hvernig hann leit úr en gat lítið aðhafst vegna myrkursins. Dollý hafði elt hann.
„Læknir, okkur vantar lækni,“ kallaði Sigurður hátt og snjallt á ensku.
„Okkur vantar nú mest ljós,“ svaraði einhver og hló stórkarlalega. Það tók að tíra á stöku stað á kveikjurum sem einhverjir úr hópi reykingamanna höfðu haft í vasa sínum. Einn slíkur ljósberi nálgaðist borðið.
„Ég er læknir, hvað er að?“ sagði maðurinn með kveikjarann.
„Það liggur maður fram á borðið hérna, hann er greinilega mikið veikur,“ sagði Sigurður.
Í bjarma kveikjaraljóssins mátti sjá Adrian Miguel liggja hreyfingarlausan eins og slytti fram á spilaborðið. Skermurinn skyggði á hann öðrumegin en Alma sá hann samt í ljósglætunni, handlegg hans og hluta af bolnum sem hann var í. Jakkann sinn hafði hann hengt á stólbakið. Ölmu heyrðist eitthvað rúlla eftir hálu parketgólfinu. Henni sýndist eins og Gréta hefði verið að beygja sig eftir einhverju en rétt sig snöggt upp þegar læknirinn með kveikjarann nálgaðist. Lena slóð við hlið hennar.
Svo kom ljósið aftur. Læknirinn stóð hjá Adrian og hafði tekið um úlnlið hans með tveimur fingrum. Síðan lyfti hann höfði Adrians og þreifaði um háls konum.
„Hjálpið þið mér að leggja hann niður. Ég ætla að reyna að hnoða hann í gang. Kallið líka á sjúkrabíl,“ sagði læknirinn.
Allir voru sem lamaðir í hópnum sem staðið hafði við spilaborðið. Svo áttaði Tóti sig og hljóp fram að dyrum og fram í anddyrið til að kalla á hjálp. Alma stóð eftir og fylgdist með lífgunartilraunum læknisins.
Hræðilegt var að horfa á þær aðfarir. Læknirinn hamaðist eins og óður en litarháttur Adrians breyttist ekki. Lena var byrjuð að kveina og Gréta tók utan um hana og þrýsti henni að sér. Sæmundur og Ingi voru komnir að lækninum eins og þeir vildu hjálpa honum og blása lífi í Adrian. En hann bandaði þeim frá sér og hélt áfram að hamast við að hnoða, hratt og ákveðið.
Alma horfði eins og í leiðslu á lífgunartilraunirnar og velti um leið fyrir sér hvað hefði rúllað eftir gólfinu. Hún leit í kringum sig en sá ekkert. Samt hlaut það að hafa verið einhver harður og sívalur hlutur. Sennilega úr gleri. Hún reyndi að framkalla hljóðið í huganum. Ábyggilega gler. Kannski hafði Adrian verið að leita að lyfjaglasi en misst það úr höndunum þegar hann féll fram á borðið. Kannski hafði hann verið með sprengitöflur á sér.