68 kynslóðin þyrpist í Búseta í Þverholtinu

Húsin í Þverholtinu eru virkilega skemmtileg

Hin uppreisnargjarna 68-kynlóð nálgast nú eftirlaunaaldurinn og margir eru farnir að huga að því að minnka við sig húsnæði. Byggingafélagið Búseti fellur vel að hugmyndum hópsins, sem var ekki endilega þeirrar skoðunar að menn ættu að eignast sitt eigið húsnæði, þó flestir hér á landi hafi endað með því að kaupa sér íbúðir, þar sem aðrir möguleikar voru ekki fyrir hendi. Margt af þessu fólki gekk í skóla á Norðurlöndunum og kynntist þar annars konar fyrirkomulagi í húsnæðismálum. Nú getur þetta fólk keypt sig inn í Búseta og hugsanlega losað fé, þar sem eingöngu er borgað fyrir búseturétt í íbúðinni.  En fólk þarf að greiða nokkuð háa mánaðarleigu. Það vex ýmsum í augum, en ekki Þresti Haraldssyni blaðamanni og Steinunni Hjartardóttur verkefnisstjóra á skóla- og frístundasviði borgarinnar, sem fluttu inní nýja glæsilega Búsetaíbúð í Þverholtinu fyrir um það bil þremur mánuðum.

Kominn aftur í gamla blaðburðarhverfið

„Ég er núna kominn í mitt gamla blaðburðarhverfi“, segir Þröstur þegar blaðamaður Lifðu núna heimsækir hann í Þverholtið og leiðréttir þar með þann misskilning að hann sé vesturbæingur. Við setjumst inn í bjarta og skemmtilega stofuna. Steinunn er enn í vinnunni en er væntanleg heim.  Þröstur fæddist á Snorrabraut og afskipti hans af fjölmiðlum og hugmyndum um útbreiðslu jarnaðarstefnunnar hófust þegar hann var 10 ára og byrjaði að bera út Alþýðublaðið.  Síðast bjuggu þau hjónin í eigin íbúð á Öldugötu.  Hann segir hverfið í Þverholtinu skemmtilega blandað. Það sé töluvert atvinnulíf í Þverholtinu ennþá. Listaháskólinn sé þar, utanríkisráðuneytið, hótel við Hlemm, stúdentagarðar í Brautarholtinu og nýtt fjölbýlishús hafi risið á reitnum þar sem Hampiðjan var áður.

Stofan er björt og skemmtileg

Vel heppnuð uppbygging

Hinum megin við götuna frá þeim séu glæsileg gömul hús á Flókagötu og Háteigsvegi, en fyrir ofan húsið sé gamla verkamannabústaðahverfið í Meðalholti og götunum þar í kring. „Við erum álíka langt frá miðbænum og við vorum á Öldugötunni, bara í hina áttina. Það er mjög gaman að ganga niður Laugaveginn og Þingholtin. Þetta er að verða mjög skemmtilegt og mathús eða matarmarkaður að koma á Hlemmi“. Þröstur segir að þegar Búseti hafi keypt lóðina í Þverholtinu, hafi verið þar stór gryfja, þar sem til stóð að byggja 10 hæða steinsteypublokkir. Marga í nágrenninu hafi hryllt við tilhugsuninni. „Uppbyggingin hér er mjög vel heppnuð, arkitektúrinn góður og allt mjög vandað“, segir hann. Hverfið er enn í uppbyggingu og frágangi garðsins sem húsin standa í kringum er ekki lokið.  Allar íbúðir í fyrsta og öðrum áfanga bygginganna eru seldar að sögn Þrastar, og í þriðja áfanga verða reistar minni íbúðir.

Hreinsuðu upp allar skuldir

„Það sem við raunverulega gerðum þegar við keyptum hér, er að við seldum íbúðina okkar sem við skulduðum töluvert í og hreinsuðum upp allar skuldir. Við eigum 30% í þessari íbúð og borgum svo leigu. Við gátum hjálpað dóttur okkar og tengdasyni að eignast íbúð og getum horft framan í heimabankann með reisn, þar eru engar rauðar tölur lengur“, segir Þröstur.  Hann segir að kunningjafólk þeirra hafi skoðað þarna íbúðir, en þau hafi verið búin að borga það mikið í sinni íbúð að þeim hafi ekki fundist þetta henta sér.  „Mörgum finnst leigan há“, segir hann „og það hentar ekki öllum, en hentaði okkur ágætlega. Það stóðu miklar viðgerðir fyrir dyrum á Öldugötunni þar sem við seldum. Hér þarf ekki að hafa áhyggjur af viðhaldi, það eina sem við borgum fyrir utan leiguna, er rafmagnið í íbúðinni.“

Eldhúsið er opið eins og víðast hvar í nýjum íbúðum

Hvað er fólk að borga í eigin íbúð?

Þröstur segir að íbúðinni fylgi stæði í bílakjallara og geymslur. Síðan hafi íbúarnir aðgang að sal og stóru þvottahúsi, en lítið þvottahús er í íbúðinni. Leigan dekkar allt viðhald, hita, þrif á sameign, umhirðu garðsins auk þess sem fasteignagjöld og tryggingar eru inni í leigunni. „Miðað við það sem við vorum að borga áður, er þetta ekki svo mikið meira. Hvað er fólk að borga í eigin húsnæði? Allt í einu kemur viðhald uppá 2 milljónir, eða þakið fer að leka. Hér erum við í glænýrri íbúð og allt í tipp  topp standi“. Steinunn kemur heim og sest hjá okkur inní stofu. „Það eru margir sem skilja ekki að þetta geti verið góður kostur“, segir hún. „Maður er náttúrulega ekki að safna fé eða auka við sína fjárfestingu. Það gæti líka orðið erfitt að standa undir leigunni þegar við verðum bæði komin á eftirlaun, en þá er líka hægt að flytja sig til innan kerfisins og kaupa minni íbúð – eða jafnvel flytja til Berlínar!“ Þröstur er nefnilega með áform um að flytja til Berlínar í haust. Þangað eru sonur þeirra og kærastan hans að flytja og hann langar að breyta til og segir að það sé ódýrt að lifa í Berlín.  Steinunn er enn að vinna og getur ekki skellt sér með honum. „Við ætlum að fljúgast á“ segir Þröstur, enda kostar álíka mikið að fljúga til Berlínar og til Akureyrar.

Þröstur og Steinunn í garðinum sem er ekki enn fullbúinn

Verða nýársböllin endurvakin?

Systir Steinunnar býr í næsta húsi og dóttir hennar sem er nýbúin að eignast litla dóttur, býr í sömu götu. Það er því allt við hendina þarna í Þverholtinu. Ýmsir úr þeirra kunningjahópi eru líka ýmist fluttir í hverfið eða væntanlegir. „Það er slangur af fólki af þessari kynslóð að koma hingað og það hefur verið rætt um að endurvekja nýársböll 68-kynslóðarinnar hér í garðinum“, segir Þröstur og brosir.

 

 

Ritstjórn maí 25, 2017 12:00