Aðstandendur gegna veigamiklu hlutverki í að styðja aldraða við að búa heima sem lengst. Þetta segir Dr. Sigurveig H. Sigurðardóttir félagsráðgjafi og dósent við Háskóla Íslands, og byggir það álit sitt á könnun sem hún gerði fyrir níu árum, en þar var könnuð þörf aldraðra sem búa í heimahúsum fyrir þjónustu og einnig hverjir það eru sem veita þeim þjónustu. Þó könnunin sé komin til ára sinna, segir Sigurveig að markmið hennar hafi fyrst og fremst verið að vekja athygli á því að það séu fleiri en opinberir aðilar sem séu að veita öldruðum þjónustu. Það kom fram í könnuninni sem náði til rúmlega 1100 einstaklinga á aldrinum 65-90 ára, að 60% þeirra sem svöruðu þörfnuðust aðstoðar við einn eða fleiri þætti daglegs lífs. Meirihlutinn þurfti eingöngu aðstoð við almenn heimilisstörf, þrif, þvotta, matseld og innkaup, en aðrir þurftu meiri persónulega aðstoð svo sem við að fara á salerni, eða komast í og út úr rúmi.
Yfir helmingur fékk aðstoð fjölskyldu, vina og nágranna
Sigurveig segir að fjölskyldan aðstoði einkum við þær athafnir daglegs lífs sem útheimti ekki faglega þekkingu. Svo sem við þrif, innkaup og slíkt. Og það sé ekki bara fjölskyldan sem aðstoði, heldur líka vinir og nágrannar. Niðurstöður könnunarinnar sýndu að meðal þeirra sem þörfnuðust aðstoðar, fengu 58% eingöngu aðstoð frá fjölskyldu sinni, vinum og nágrönnum, 8% fengu einungis aðstoð frá opinberum aðilum, en 34% fengu aðstoð bæði frá fjölskyldu og því opinbera. Það skal ítrekað að þetta eru ekki nýjar tölur og Sigurveig segist hafa áhuga á að skoða hvort þetta hafi eitthvað breyst. En það vekur athygli að það eru fyrst og fremst makar aldraðra sem aðstoða þá, en síðan koma dæturnar inn.
Á aðstoð fjölskyldunnar að vera viðbót?
Sigurveig segir að í sumum löndum sé það lögbundið að börn sjái um aldraða foreldra sína. Í gömlum íslenskum lögum frá 1947 hafi verið ákvæði um að börn skyldu ala önn fyrir öldruðum foreldrum sínum. Það ákvæði hafi fallið úr gildi þegar ný lög um félagsþjónustu tóku gildi árið 1991. En það sé algengt í umræðunni meðal fræðimanna, hvort ríkinu beri alfarið að sjá um þessa þjónustu, eða hvort fjölskyldan eigi að gera það. Líka hvort aðstoð fjölskyldunnar eigi þá að vera viðbót við þá þjónustu sem opinberir aðilar veiti, eða ekki. „Fjölskyldan er mjög mikilvæg til að hjálpa fólki að vera heima sem lengst, en það eru ekki allir sem treysta sér til þess að aðstoða eldra fólkið sitt. Meginmálið í þessu er, hvað getum við gert til að styðja þá sem vilja og geta hjálpað öldruðum í fjölskyldunni sinni?“, segir hún.
Vantar þig að vita meira um umönnun aldraðra? Smelltu hér á Upplýsingabanka Lifðu núna.