Eldra fólk í kvikmyndum er ekki endilega mjög algengt og þó – nýlega var til dæmis frumsýnd á Netflix kvikmyndin Our Souls at Night með Jane Fonda og Robert Redford, sem nú eru komin um áttrætt. Ásgrímur Sverrisson kvikmyndagerðarmaður segist ekki geta fullyrt að kvikmyndir með eldra fólki séu algengari í dag en áður. Hann nefnir strax myndir sem snúast um eldra fólk, svo sem Börn náttúrunnar, Eldfjall, Amour og Fear Eats the Soul eftir Fassbinder, en segir að um miðja síðustu öld, hafi að einhverju leyti verið algengara að sjá eldra fólk í lykilhlutverki í kvikmyndum
Unga fólkið skilar sér frekar í bíó
Hann segir líka að undanfarin 30-40 ár, hafi kvikmyndaframleiðendur horft meira til unga fólksins. Þeir hafi viljað fá mikla aðsókn á myndirnar strax og unga fólkið hafi verið duglegra að skila sér í bíó um leið og nýjar myndir voru frumsýndar, en eldra fólkið, sem hafi verið lengur að koma sér af stað. „Um miðjan áttunda áratuginn var farið að frumsýna myndir í mörgum bíóhúsum samtímis og sú stefna er enn ríkjandi. Þá er gert ráð fyrir að lunginn af áhorfendum skili sér í bíó á fyrstu tveimur til þremur vikunum“, segir hann.
Hafa meiri frítíma og meiri peninga en áður
Ásgrímur segir að þetta hafi áfrif á hvernig myndir séu gerðar. Meginstraumsmyndum Hollywood sé fyrst og fremst beint að yngri aldurshópum. Eldri súperstjörnur af karlkyni haldi oft áfram að leika í kvikmyndum lengur en sambærilegar kvenstjörnur, sem séu mun færri og eigi erfiðara uppdráttar. Þær kvarti yfir því að fá ekki hlutverk þegar aldurinn færist yfir. Og það sé mikið til í því. Kvikmyndaframleiðendur hafi hins vegar tekið eftir því að fólk sem er komið yfir miðjan aldur, hafi meiri frítíma og meiri peninga en áður og þannig hafi þeir farið að gera myndir fyrir þennan aldurshóp sérstaklega. Þetta sé hluti af þeim breytingum sem orðið hafa í kvikmyndaheiminum á undanförnum áratug eða svo. Markaðurinn hafi stækkað en um leið orðið brotakenndari. Þetta sé marglaga þróun og margt sem hafi áhrif.
Vilja sjá sínar myndir heima
Hann segir ástæðu fyrir því að nýja myndin með Jane Fonda og Robert Redford sé eingöngu sýnd á Netflix. Dreifing mynda sé í auknum mæli að flytjast yfir á stafrænar efnisveitur. Það sé ákveðinn markhópur sem sé mikið heima, eigi góð sjónvarpstæki og vilji sjá sínar kvikmyndir þar. Aðsókn að kvikmyndahúsum sé að dragast saman og þar verði líklega helst sýndar ýmiskonar viðburðamyndir í framtíðinni. Allt hafi þetta áhrif á hvernig myndir séu gerðar og hvar þær séu sýndar.
Þegar súperstjörnur leika í myndum
Ásgrímur segir að það sé enn viðburður þegar súperstjörnur eins og Meryl Streep, Jack Nicholson og Diane Keaton leiki í kvikmyndum. Þær höfði til eldri áhorfendahóps, sem þekki þær og hafi gaman af að sjá myndir með þeim. Þessi hópur vilji líka sjá myndina með Fonda og Redford. Þau séu þeirra fólk. Súperstjörnunum fari hins vegar fækkandi og þær skipi ekki sama sess og áður í hugum fólks. Unga fólkið sé frekar að leita að einhverju nýju; nú séu goðsögur með ofurhetjum í tísku, þær byggi mikið á brellum og effektum og bjóði uppá breiðan sagnaheim. En um leið sé mikið breytingaferli í gangi, skilin milli kvikmynda og sjónvarps séu smám saman að mást út og það muni hafa mikil áhrif á bæði það sem gert er og það sem horft er á, enda sterk tenging þar á milli.
Þegar Ásgrímur var beðinn um að velja tíu áhugaverðar myndir frá síðustu árum þar sem þekktir leikarar komnir vel yfir miðjan aldur eru í aðalhlutverkum sendi hann Lifðu núna þennan lista og tekur fram að myndirnar séu í engri sérstakri röð og listinn sé langt í frá tæmandi.
Youth (2013): Michael Caine, Harvey Keitel, Rachel Weisz
The King‘s Speech (2010): Colin Firth, Geoffrey Rush
Flight (2012): Denzel Washington
Blood Father (2016): Mel Gibson
Sully (2016): Tom Hanks
Saving Mr. Banks (2013): Emma Thompson, Tom Hanks
Philomena (2013): Judi Dench
Behind the Candelebra (2013): Michael Douglas
45 Years (2015): Charlotte Rampling, Tom Courtenay
Amour (2012): Jean-Louis Trintignant, Emmanuelle Riva, Isabelle Huppert
Svo er rétt að benda á að á næsta ári kemur kvikmyndin Alma eftir Kristínu Jóhannesdóttur, þar sem Emmanuelle Riva og Kristbjörg Kjeld fara með helstu hlutverk ásamt Snæfríði Ingvarsdóttur, en þetta reyndist vera síðasta hlutverk Riva.