„Ég sat hjá henni, það dró hægt og rólega niður í andardrættinum. Þetta er það fallegasta sem ég hef upplifað á ævinni. Mér fannst ég sjá hana fara. Hún var svo sátt, við vorum bæði sátt og það síðasta sem fór okkar á milli var bros sem við sendum hvort öðru. Ég hef samúð með fólki sem missir makann sinn skyndilega og fær engan tíma. Það var mikil guðsgjöf að fá að vera hjá henni og þegar hún var farin kom hjúkrunarfræðingur og við ræddum um lífið og tilveruna. Ég hringdi í stákana mína og þegar þeir voru komnir var farið inn í sjúkrastofuna þar sem hún lá. Það var svo fallegt þar inni, búið að ganga svo vel frá. Kertaljós, kross og lítil stytta. Ég er svo þakklátur fyrir hana Báru og fyrir þann stuðning sem ég fékk í gegnum þetta allt og þessa lífsreynslu“, segir Guðni Adolfsson sem missti maka sinn til 40 ára, Báru Kjartansdóttur, í júní árið 2014.
Ljúft að vera með henni allt til enda
Þau Bára hittust ung á Hljómaballi í Stapa. Hann sveitastrákur undan Eyjafjöllum en hún frá Norðfirði. „Eftir það sváfum við saman í 40 ár“, segir Guðni og hlær. Þau bjuggu sínu búi, meðal annars um tíma á Önundarhorni undir Ejafjöllum, eftir að Guðni tók við búi foreldra sinna þar. Þau eignuðust þrjá drengi. Síðast bjuggu þau í Hafnarfirði, þar sem Bára vann á Sólvangi, en Guðni hjá fyrirtæki sem heitir Micro ryðfrí smíði. „Við gerðum allt saman. Keyptum aldrei neitt nema við værum sammála. Þess vegna var mér svo ljúft að geta verið með henni allt til enda“, segir Guðni.
Var slöpp og fékk verki í fæturna
„Það var í febrúar árið 2014 sem Bára segir við mig að henni finnist hún vera að veikjast, hún sé svo slöpp. Þrátt fyrir það ákváðum við að fara austur í sumarbústað, en þá versnar henni og hún fær verki í fæturna“. Þannig lýsir Guðni upphafinu að sjúkrasögu Báru. Eftir þetta rak hver læknisheimsóknin aðra án þess að menn áttuðu sig á hvað var að og fljótlega var Bára orðin fárveik. Þá fara þau á bráðavaktina. Þar er tekin sneiðmynd og það kemur í ljós að lifrin er mjög illa farin. „Ég fór í vinnuna og bjó mig undir vondar fréttir“, segir hann. „Ég skal standa mig sagði ég við sjálfan mig og lét vinnuveitendur mína vita að Bára væri komin á spítala. Ég var ekki mjög brattur“, rifjar hann upp.
Vont krabbamein á versta stað
Skömmu síðar hringir Bára í hann. „Hún segist vera að koma frá lækninum. Hann segir að ég sé með krabbamein, sagði hún við mig og virtist hissa“, segir Guðni. Hann segir að þetta hafi verið gríðarlegt áfall, en vinnuveitendur hans hafi stutt hann, annar þeirra hafi farið með honum heim eftir þessi ótíðindi og þangað komu svo synir hans. Guðni segist lítið muna frá þessum degi, en hann fór uppá spítala og það kom í ljós að þetta var vond tegund krabbmeins og á versta stað. Hann man að hann grét og grét „Það var ekki hún sem grét. Hún með alla sína rósemi. Það var hún sem róaði mig niður“, segir hann. Á leiðinni heim sóttu þau lyf fyrir 70 þúsund krónur, en greiddu einungis 250 krónur af því sjálf. Langar leiðbeiningar fylgdu og Guðni segir að sér hafi næstum fallist hendur að lesa þær, og að hann ætti að sjá um þetta.
Vertu hjá henni
Viðbrögðin í umhverfinu voru afar hjálpleg, segir Guðni. Í vinnunni sögðu yfirmennirnir. „Það biður enginn um þessa stöðu. Vertu hjá henni og við skulum sjá um launin þín“. Hann var síðan settur í samband við Heimahlynningu LSH. „ Þessar perlur“, segir Guðni. „Við höfðum alltaf um svo mikið að tala efir að þær fóru. Það er ótrúlegt að við skulum eiga svona fólk. Mér var svo vísað á „staurinn minn“ eins og ég kallaði Sigríði Lillie hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Þaðan kom ég ævinlega betri maður. Þessi starfsemi er ótrúleg. Það er tekið þannig á móti manni og talað við mann, að það vekur öryggistilfinningu“.
Þarft að hugsa vel um sjálfan þig
Það var sagt við mig „Ef þú ætlar að standa þig með henni Báru, þarftu að hugsa rosalega vel um sjálfan þig, borða vel, hreyfa þig og sofa vel. Þetta settist að í kollinum á mér. Ég eldaði alltaf kvöldmat, þó Bára hætti fljótlega að borða. Síðan var það svefninn. Mér fannst ég aldrei sofa. Ég hafði alltaf höndina nærri henni í rúminu. Ef ég fann breytingu, hita eða kulda, eða ef hún andaði ekki eðlilega, þá reis ég upp. Ég fór fljótlega að keyra á vara batteríinu. Ef ég fann breytingu hafði ég samband við Heimahlynninguna og fékk ráðleggingar í gegnum síma, eða fólk frá þeim kom á vettvang. Ef það komu gestir notaði ég tækifærið og fór út til að róa hugann.
Hver ætti að vera hjá henni ef ekki ég?
„Við fórum sex sinnum í sjúkrabíl uppá spítala. Þremur vikum eftir að Bára greindist fór hún í lyfjameðferð. Hún var svo hress fyrst á eftir, en svo fékk hún 40 stiga hita og það rann af henni svitinn. Í fyrsta sinn í þessu ferli, vissi ég ekki hvorum megin hún ætlaði að vera“, segir Guðni. „Hjúkrunarfólkið veitti mér mikinn stuðning, ég vildi standa mig. Hver ætti að vera hjá henni á þessum erfiðu tímum, ef ekki ég“, segir hann í spurnartóni. Þetta var erfiður tími. Guðni segir að eitt sinn þegar hann hafi ekið Fossvogsdalinn á leiðinni niður í Krabbameinsfélag, hafi hann heyrt rödd sem sagði. „Guðni, sjáðu hvað þú ert heppinn.Grasið er að grænka,sólin skín og fuglar fljúga um allt. Þú hefur átt þessa konu í 40 ár. Þig eignuðust saman þrjá yndislega syni, tengdadætur og barnabörn. Hvað getur þú beðið um meira?“ Guðni segist á þessari stundu hafa fyllst þakklæti yfir lífinu sem er ekki sjálfsagt, og heilsunni, sem er heldur ekki sjálfsögð.
Þáði boð um að fara á líknardeild
Tíminn leið og að því kom að það var ákveðið að prófa aftur lyfjameðferð fyrir Báru. Það fór á sama veg og fyrri lyfjameðferðin. „Það var farið aftur uppá spítala. Það var ljóst að hún þoldi ekki meðferðina. Okkur var sagt að njóta lífsins og líknandi meðferð tók við. „Bára vildi deyja heima, en þegar ljóst var að umönnunin var orðin mikil, var henni boðið að fara á líknardeild. Hún lá í sófanum í stofunni heima og ég spurði hvort hún vildi þiggja það. Hún sagði, já ég held að það sé best, þetta er orðið of erfitt fyrir þig“. Guðni segir að þessu hafi fylgt áfall, því hann hafi áttað sig á að hún væri að fara og kæmi aldrei aftur heim og orðið aldrei sé stórt orð. Þá var það enn og aftur Bára sem huggaði hann. „Auðvitað fer ég“, sagði hún „ en ég mun koma aftur“.
Hvernig ætla ég að halda áfram?
Á líknardeildinni var Guðna boðið að sofa í aukarúmi inná stofu Báru. Fjölskyldan kom mikið í heimsókn. Þar kom að Bára missti málið og nokkrum dögum síðar kvaddi hún þessa jarðvist. Jarðarförin var gerð frá Víðistaðakirkju í byrjun júlí og örlögin höguðu því þannig að þetta sama ár, létust einnig mágur Guðna og bróðir hans. Sjálfur sat hann uppi með þá erfiðu ákvörðun, að ákveða hvernig hann ætlaði að halda lífinu áfram. „Ég hugsaði um allt líf okkar Báru og kvöld eitt settist ég niður í fjörunni við Hrafnistu. Þar áttaði ég mig á því að ég vildi halda áfram góða og bjarta leið. Ég vildi ekki horfa afturábak, heldur frammá við. Ég leit á þetta sem bratta brekku og ætlaði að fara beint áfram“, segir Guðni.
Ekki rétt að hafna hamingjunni
Guðni segist fullur þakklætis í garð hjúkrunarfólks og lækna, sem sýndu honum ómetanlegan stuðning í veikindum Báru. „Ég á alltaf erfitt með að þola þetta illa umtal um heilbrigðiskerfið. Það eru ótrúleg kraftaverk sem þar eru gerð“, segir hann. Eftir lát Báru fór hann á núvitundarnámskeið hjá Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Hann segist hafa verið í hópi ekkna og ekkla sem þar hittust. En honum hafi ekki þótt gott að vera stöðugt að rifja þetta upp. „Auðvitað gleymist þetta aldrei og Bára verður alltaf í hjarta mínu, en það er ekki gott að vera að ræða þetta aftur og aftur“, segir hann. Hann segir að eitt sinn hafi verið spurt í hópnum, hvort menn væru tilbúnir til að finna nýjan maka. „Svörin voru misjöfn og við sem þekkjum það að vera ástfangin, vitum hvernig það gerist. Við tökum því fagnandi þegar það á sér stað. Það á ekki að hafna hamingjunni, heldur taka henni og njóta hennar þegar hún kemur“, segir hann.
Hitti sveitastelpu af Suðurlandi
Sjálfur hitti hann sveitastelpu af Suðurlandi fyrir tæpu ári. Hún heitir Ásta Sverrisdóttir. „ Við deilum sömu lífssýn og lifum fyrir daginn í dag. Ég er svo hamingjusamur og líður svo vel. Það er gaman í vinnunni og um helgar gerum við bara nákvæmlega það sem okkur langar til að gera. Erum heima eða skreppum út að dansa, til dæmis á Kringlukránni“, segir Guðni glaður. Ásta býr á Selfossi og hann segist vera þar meira og minna. „Við viljum vera saman“, segir hann og er búinn að selja íbúðina sína í Hafnarfirði því saman eru þau búin að festa sér hús á Selfossi. Hann hlakkar til að flytja þangað. „Hugsaðu þér hvað tvær manneskjur geta notið lífsins saman“, segir Guðni. „Það eru mikil forréttindi og lífið er dásamlegt“.