Ómar Ragnarsson var með skemmtidagskrá í Landnámssetrinu í Borgarnesi í fyrra, en þar fjallaði hann um bernsku sína, einkum foreldra sína og þeirra átaka- og ástarsögu. Hann heldur áfram og tekur nú fyrir unglingsárin, annars vegar viðburði í menntaskólanum og svo samfélagið í sveitinni þar sem hann er upprunninn, í Langadal í Húnavatnssýslu. Þar að auki á hann stóran frændgarð víða um land sem hann sækir efni í. „Þetta var stórmerkilegt fólk“ segir hann, „sumt klikkað eða miklir nördar“.
Kirkjugestir hlógu allan tímann
Ómar segir að faðir sinn hafi verið mikill sagnamaður og sjálfur muni hann sögurnar hans ennþá. „Líkræðan yfir pabba var þannig að söfnuðurinn hló allan tímann“ segir hann. Ómar segist vera í björgunarpakka, til að bjarga sögum af fólki sem kom – og fór. Hann hefur safnað mörgum þessara sagna í 240 blaðsíðna bók sem heitir Manga með svartan vanga, en það er bara hluti af pakkanum.
Stöðvaði forsetann
Manga þessi, Margrét Sigurðardóttir var niðursetningur. Hún var heyrnarlaus og gekk eftir þjóðveginum í Húnavatnssýslunni og safnaði á eftir sér bílum, þar sem hún heyrði ekki í þeim. Fólk þurfti að hlaupa út úr bílunum til að fá hana til að víkja fyrir umferðinni. Eitt sinn stöðvaði hún Ásgeir Ásgeirsson forseta með þessum hætti. „En hún vék alltaf fyrir Norðurleiðarrútunni“ segir Ómar, „þannig að hún heyrði kannski meira en hún vildi vera láta“.
Kynntist þjóðlífinu snemma
Ómar segist hafa verið 18 ára þegar hann fór að ferðast og skemmta um allt land. Hann var á 33 héraðsmótum sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt sumarið 1959 og um veturinn skemmti hann á öllum helstu árshátíðum í Reykjavík, eða í 40 skipti. Hann skemmti líka hjá Framsóknarflokknum. „Þannig kynntist ég þjóðlífinu“, segir Ómar, „allt frá niðursetningum til forsætisráðherra“. Áhugi hans á landi og þjóð, hafi því kviknað snemma. „Þegar ég fór að vinna í Sjónvarpinu var ég búinn að lifa við þessar sögur árum saman“ segir hann.
Þarf að koma sögunum til skila
Ómar fékk fljúgandi start í skemmtanabransanum. Enda segist hann hafa verið með ný efnistök. „Menn höfðu verið að syngja lög eins og Komdu og skoðaðu í kistuna mína á skemmtunum, en ég gaf skít í það“, segir hann. Hann gaf út fyrstu plötuna 19 ára, með lögunum Mér er skemmt og Botníuvísum. „En það sem mér finnst merkilegast, eru öll þessi býsn af stórmerkilegu fólki sem ég hef kynnst“ segir hann. „Ég komst inní kviku þjóðlífsins þegar ég fór að ferðast um allt land í upphafi ferilsins og lít á mig sem miðil sem þarf að koma þessu til skila. Ég verð að halda áfram og næst verða það sjónvarpssögurnar“ segir Ómar að lokum.