Verður „krónu á móti krónu“ skerðingin afnumin?

Halldóra Mogensen

Sex þingmenn Pírata með Halldóru Mogensen í broddi fylkingar hafa lagt fram frumvarp á Alþingi um um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Í greinargerð með frumvarpinu segir að með frumvarpinu sé sérstök uppbót til framfærslu samkvæmt lögum um félagslega aðstoð felld úr gildi og fjárhæð hennar færð undir almannatryggingarlögin.

„Með því að fella úr gildi sérstaka uppbót til framfærslu og færa hámarksfjárhæð hennar inn í ákvæði um tekjutryggingu er stuðlað að minni skerðingu fyrir lífeyrisþega þar sem sérstaka uppbótin skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð skerðist um 100% vegna allra tekna sem lífeyrisþegi kann að fá. Slík skerðing hefur í daglegu tali verið nefndar „krónu á móti krónu“ skerðing. Það gerir það að verkum að fyrir ákveðna upphæð tekna skerðast lífeyrisgreiðslur að sama marki og verða því tekjur lífeyrisþega óbreyttar þrátt fyrir atvinnuþátttöku hans. Það að ein gerð tekna eyði annarri gerð að öllu leyti hefur mjög letjandi áhrif á atvinnuþátttöku lífeyrisþega.
Margir lífeyrisþegar hafa kosið að taka ekki þátt á atvinnumarkaði vegna umfangs þeirra skerðinga sem þeir mundu þá verða fyrir. Ákvörðun um að taka ekki þátt í vinnumarkaði getur virst betri fyrir lífeyrisþega þar sem atvinnuþátttaka þeirra mundi ekki skila þeim auknum tekjum. Vegna þessa sjá margir lífeyrisþegar sér ekki hag í að vinna þrátt fyrir að þeir kunni að hafa starfsgetu. Hætta er á að upplifun þeirra verði sú að vinnuframlag þeirra sé lítils eða einskis virði. Með afnámi þessarar uppbótar myndast aukinn hvati til atvinnuþátttöku þeirra sem þessi uppbót á við um í dag,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.  Grái herinn segir á fésbókarsíðu sinni að verði frumvarpið að lögum sé gert ráð fyrir að allir lífeyrisþegar fái a.m.k. 300 þús. grunnlífeyri, eins og stjórnmálamenn lofuðu fyrir kosningar. Nú sé eingöngu um 25% lífeyrisþegar sem hljóta þá upphæð sem grunn framfærslu.

Hér er hægt að lesa frumvarpið í heild og greinargerðina sem fylgir.

 

Ritstjórn febrúar 7, 2018 12:56