Tengdar greinar

Spenna ást og stríð um hvítasunnuna

Hér eru nokkrar myndir sem við hjá Lifðu núna mælum með, en þeir sem eru iðnir við að horfa á bíómyndir heima, eru hugsanlega búnir að sjá þær flestar, því þær hafa verið nokkuð lengi á VOD-inu hjá Símanum. En þær eru kynntar til sögunna hér, fyrir þá sem hafa ekki séð þær, ásamt einni nýrri mynd.

Spennumyndin The Commuter með Liam Neeson í aðalhlutverki. Hann leikur Michael, fyrrverandi lögreglumann, sem er sölumaður í tryggingafyrirtæki. Myndin hefst á því að honum er sagt upp störfum hjá fyrirtækinu og í lestinni á leið heim kemur að máli við hann dularfull kona Joanne, sem biður hann um að inna af hendi ákveðið verkefni, sem er að finna farþega í lestinni sem heitir Prynne og setja á hann GPS staðsetningartæki.  Fyrir það á hann að fá fúlgur fjár.  Hann fer að skyggnast um eftir farþeganum og leikurinn í lestinni æsist, eftir því sem á líður myndina, sem er nokkuð góð, þó það sé heldur óljóst framan af, um hvað málið snýst. Leikstjóri myndarinnar, sem var frumsýnd í upphafi þessa árs, heitir Jaume Collet-Serra. Myndin hlaut misjafna dóma kvikmyndagagnrýnenda.

Anna hrífst af Adrien

Frantz, er svarthvít mynd sem gerist í litlum bæ í Þýskalandi skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina. Anna syrgir unnusta sinn sem féll í stríðinu og það gera líka foreldrar hans, sem hún býr hjá. Dag einn kemur ungur franskur maður Adrien í bæinn og leitar fjölskylduna uppi, en hann hafði barist í stríðinu eins og Frantz. Hann segist hafa verið vinur hans í París. Þetta kemur miklu tilfinningaróti af stað í huga fjölskyldunnar sem tekur ástfóstri við fransmanninn. Lágstemmd mynd en áhrifarík og vel gerð. Leikstjóri er Francois Ozon.

Njósnarinn og lífvörðurinn

The Exception. Þetta er aftur á móti mynd sem gerist í síðari heimsstyrjöldinni.  Hún fjallar í stuttu máli um Stefan Brandt höfuðsmann í þýska hernum sem er falið það verkefni að vera yfir lífverði Wilhelms II Þýskalandskeisara sem er í útlegð í Hollandi.  Hann fellur fyrir ungri konu í þjónustuliði keisarans, Mieke de Jong, sem reynist vera gyðingur og njósnari. Það er að sjálfsögðu býsna flókið og spennandi að sjá hvað úr sambandinu verður og hvað verður um keisarann, yfirmann lífvarðarins og njósnarann. Myndin er vel leikinn og vel gerð. Það er enginn annar en Christopher Plummer sem leikur keisarann, Jai Courtney leikur höfðusmanninn og Lily James gyðingakonuna.  Leikstjóri myndarinnar sem var frumsýnd árið 2016 er David Leveaux.

Ástríðukokkar. Marguerite og Hassan

The Hundred Foot Journey. Afar falleg mynd um matargerð og ástríðu fyrir henni. Indverskur faðir, flytur með börnin sín til Frakklands eftir að móðir þeirra fellur frá. Þau opna veitingastað í litlum bæ, en hinum megin við götuna er gamalgróinn Michelin stjörnu staður sem þau fara í samkeppni við. Þar ræður ríkjum Madame Mallory sem er leikin af Helen Mirren.  Næstelsti sonurinn í fjölskyldunni Hassan, sem er kokkur af Guðs náð fer að vinna hjá henni og samstarfskona hans þar er hin franska Marguerite. Þau fella hugi saman, en sega má að eftirsóknin eftir Michelin stjörnunum villi þeim sýn á tímabili. Vel leikin, vel gerð mynd í fallegu umhverfi og leikstjórinn er enginn annar, en Lasse Hallström.

Línudans

Fúsi. Fyrir þá sem ekki sáu íslensku myndina Fúsa í bíó, er upplagt að horfa á hana á VOD-inu.  Þar segir frá Fúsa sem er orðinn rúmlega fertugur, en býr enn hjá móður sinni og leikur sér í stríðsleikjum. Hann vinnur einhæf störf og líf hans er í föstum skorðum, en það breytist þegar hann bregður sér á námskeið í Línudansi og kynnist ungri konu sem heitir Sjöfn. Hann á líka samskipti við litla stúlku sem býr í sama stigagangi.  Þetta verður til þess að hann þarf að horfast í augu við ýmislegt sem hann hefur ekki upplifað áður. Myndin er vel gerð, mjög vel leikin, en það eru þau Gunnar Jónsson og Ilmur Kristjánsdóttir sem fara með hlutverk Fúsa og Sjafnar. Margrét Helga Jóhannsdóttir fer með hlutverk móður hans. Leikstjóri er Dagur Kári.

 

 

Ritstjórn maí 19, 2018 09:20