Sumt fólk eldist með reisn og hefur þá hæfileika að viðhalda hamingjusömu og gleðilegu lífi ævina á enda. En hvernig fer fólk að þessu, hér eru níu atriði sem geta skipt máli til að eiga hamingjusöm og gefandi efri ár.
Verið virk
Þegar við eldumst er nauðsynlegt að hreyfa sig, sérstaklega eftir að fólk hættir að vinna og fer á eftirlaun. Að stunda reglubundnar æfingar eykur lífsgæði fólks og það á síður á hættu að meiðast eða brotna. Þetta þurfa ekki að vera einhverjar þrekæfingar en góðir göngutúrar alla daga vikunnar gera okkur gott. Ferskt loft og að breyta um umhverfi gleður sálina svo verið eins mikið úti og hægt er.
Góð næring
Að borða góðan næringarríkan mat er liður í að viðhalda góðri heilsu. Gætið þess að borða úr öllum fæðuflokkum og reynið að hafa fæðuna sem hreinasta. Njótið þess að elda og borða. Gerið sérhverja máltíð að lítilli veislu.
Félagsleg virkni
Heilbrigðasta eldra fólkið tekur þátt í samfélaginu og skorar sjálft sig á hólm. Það er fátt sem flýtir jafn mikið fyrir öldrun og sitja heima fyrir framan sjónvarpið alla daga. Talið frekar við annað fólk, hvort sem það eru gamlir vinir, fjölskyldan eða bara þeir sem þið hittið á förnum vegi. Maður er manns gaman.
Finnið ykkur tilgang
Það þurfa allir að hafa tilgang í lífinu. Við viljum vakna og hafa einhverju að sinna. Takið þátt í góðgerðarstarfsemi, farið í félagsmiðstöðvar, finnið einhver verkefni þar sem þið getið gefið af ykkur. Fáið ykkur gæludýr, ræktið blóm eða grænmeti. Grúskið í ættfræði og segið yngri ættingjum ykkar frá því hver er skyldur hverjum og svo framvegis. Finnið ykkur eitthvað að gera sem hefur tilgang og þið hafið ánægju af.
Sinnið áhugamálum
Það er sama hvað það er bara að þið hafið gaman að því. Göngur, handavinna, tónlist, matargerð, að læra að mála eða læra á nýjustu tæknina. Listinn er óendanlegur af hlutum sem gæti verið gaman að sinna. Leitið uppi fólk sem hefur sömu áhugamál og þið. Það gerir lífið enn skemmtilegra.
Haldið áfram að læra
Það er mýta að fólk hætti að geta lært nýja hluti þegar það eldist. Því ekki að fara á námskeið, í háskóla eða mennta ykkur sjálf með því að leita á netinu eða lesa fræðibækur. Nú er tími til að læra það sem fólk langaði að læra þegar það var ungt. Því ekki að verða sagnfræðingur, íslenskufræðingur, landfræðingur eða hvað annað sem hugurinn stendur til. Nógur er tíminn.
Hlustið á annað fólk
Mörgum hættir til að finnast að allt hafi verið betra þegar þeir voru yngri og nútíminn sé uppfullur af heimsku. En hlustið á annað fólk virðið skoðanir þess og reynið að sjá hlutina í nýju ljósi. Talið við ungt fólk það getur kennt eldra fólki sitthvað um nútímann.
Ekki vera hrædd
Það vita allir að lífið endar á einhverjum tímapunkti. Sumum finnst það erfið tilhugsun og eyða miklum tíma í að óttast dauðann. Reynið þess í stað að njóta hvers dags og sinna hugðarefnum ykkar.
Aldur er tala
Sá sem eldist með reisn veit að aldur er bara tala. Það er hægt að vera ungur í anda og njóta þeirrar reynslu sem árin sem þið hafið lifað hafa fært ykkur. Njótið þess að eldast.