Dálkahöfundurinn Ann Brenoff skrifaði nýlega pistil um aldursfordóma á vef Huffington Post. Lifðu núna stytti og endursagði hluta pistilsins. Ann segir það heyrist oft að eldra fólk á vinnumarkaði sé að taka störf frá þeim sem yngri eru. Í Bandaríkjunum voru 19 prósent fólks á aldrinum 70 til 74 ára í einhverri vinnu á síðasta ári, samkvæmt upplýsingum bandarísku Vinnumálastofnunarinnar. Margt eldra fólk getur ekki eða vill ekki af einhverjum ástæðum hætta að vinna. Sumir geta það ekki af fjárhagslegum ástæðum aðrir vilja ekki hætta að vinna af persónulegum ástæðum eða þeir vilja halda áfram að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Spurningin er hins vegar sú hvers vegna margt ungt fólk telur að eldra fólk eigi að hverfa af vinnumarkaði. Ann segist telja að það eigi sér menningarlegar rætur og spyr hvort það skorti ekki virðingu fyrir eldra fólk í Bandaríkjunum og öðrum vestrænum samfélögum. Annars staðar í heiminum sé eldra fólk í hávegum haft og mikil virðing borin fyrir því. Þar saki enginn eldra fólk um að leggja stein í götu yngra fólks. Í nýlegri skýrslu Efnahags og samvinnustofnunar komi fram að hæst hlutfall eldra fólks á vinnumarkaði sé í Asíu þar sem menn bera mikla virðingu fyrir eldra fólki, reynslu þess og visku. Í Indónesíu eru 51 prósent fólks á aldrinum 65 til 69 ára á vinnumarkaði, 45 prósent í Suður-Kóreu og 43 prósent í Japan. Í Bandaríkjunum er hlutfallið 31 prósent. Ann segir að fólk á eigi að hafa val um hvort það hverfur af vinnumarkaði. Það eigi ekki að mismuna fólki á grundvelli aldurs og senda það heim ef það vilji halda áfram að vinna.
Ann gerir líka eldra fólk og tækni að umtalsefni. Svo það sé sagt hreint út: Eldra fólk var ekki fætt með farsíma í hendinni en það er hægt að kenna því að senda viðhengi með póstunum sínum, segir hún og spyr af hverju fólk haldi að það sé ekki hægt að kenna fólki nýja hluti þegar það kemst á sextugsaldurinn. Flest fólk sem komið er yfir miðjan aldur sé fullfært um að bjarga sér. Nýleg rannsókn leiði í ljós að nærri þriðji hver á aldrinum 75 til 79 ára eigi snjallsíma, 67 prósent þeirra sem eru eldri en 65 ára fari á netið á hverjum degi til að afla sér frétta eða skoða samfélagsmiðla. Margt yngra fólk telji hins vegar að eldra fólk geti alls ekki notfært sér þá tækni sem tölvur og snjallsímar bjóði upp á, það sé hins vegar regin firra.
Þegar brandarar eru særandi, eru þeir þá fyndnir, spyr Ann. Það að segjast bara vera að „djóka“ sé engin afsökun fyrir bröndurum sem feli í sér aldursfordóma, kynjamismunun, kynþáttafordóma eða kynferðislega áreitni. Ann segir að menn noti ýmislegt til að gera lítið úr eldra fólki. Hún nefnir til að mynda afmæliskort með mynd af eldra fólki með bleyju eða alla brandarana um fólk sem er farið að tapa minninu. Í auglýsingum sé öldrun talin óæskileg og það sé sífellt verið að auglýsa eitthvað sem eigi að koma í veg fyrir hana. Þetta sé hvorki fyndið né skemmtilegt og enn einn angi af aldursfordómum. Munum að orð geta verið særandi segir Ann.
Það er búið að viðurkenna allrahanda fordóma en aldursfordómar eru ekki á meðal þeirra, segir Ann. En þeir eru alveg jafn raunverulegir fyrir þá sem upplifa þá og kynþáttafordómar og kynjafordómar svo dæmi séu tekin. Meira en hálfri öld eftir að lög gegn aldursmismunun voru sett, kemur fram í könnun sem gerð var á vegum AARP að nærri tveir þriðju á aldrinum 55 til 64 ára telja að aldur sé hindrun þegar kemur að því að skipta um störf eða fá nýja vinnu, hafi fólk af einhverjum orsökum misst vinnuna. Í rannsókn sem gerð var í Tulane Háskólanum kom fram að aldursmismunun er svo sannarlega til staðar þegar verið er að ráða í ný störf. Rannsóknarmenn sendu út 40 þúsund gervi starfsumsóknir þar sem umsækjandinn átti ýmist að vera ungur, miðaldra eða kominn á efri ár. Allir umsækjendurnir sama á hvaða aldri þeir voru áttu að búa yfir álíka hæfni. Á daginn kom að mun færri svör bárust við umsóknunum þar sem umsækjendurnir voru sagðir miðaldra eða þaðan af eldri. Þetta er ekkert annað en aldursmismunun segir, Ann.