Bandaríkjamenn 55 ára og eldri eru rúmlega fjórðungur þjóðarinnar. Fólk í þessum aldurshópi var hins vegar ráðið í 49 prósent þeirra 2,9 milljón nýrra starfa þar í landi á síðasta ári. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá bandarísku Vinnumálastofnuninni og greint er fá á vefnum aarp.org. Fólk á aldrinum 25 til 54 ára var ráðið í 45 prósent nýrra starfa á síðasta ári, heldur færri en í eldri hópnum. Haft er eftir Philippu Dunne talnagreini hjá bandarísku Vinnumálastofnuninni að þó sumir eldri starfsmenn séu ráðnir vegna skorts á vinnuafli, þá skipti miklu að fólk komið á miðjan aldur sé við góða heilsu í dag og betur menntað en það var fyrir nokkrum áratugum. Hún segir að eldri starfsmenn séu verðmætir fyrir fyrirtæki, þeir hafi reynslu og þekkingu sem þeir geti miðlað til þeirra sem yngri eru. Dunne telur að atvinnuþátttaka eldra fólks í Bandaríkjunum eigi eftir að aukast á þessu ári. Samkvæmt skýrslu stofnunarinnar voru 39,2 prósent fólks 55 ára og eldra í vinnu í desember á síðasta ári og er það mesta atvinnuþátttaka í þessum hópi frá 1961.
Eldra fólki fjölgar á vinnumarkaði.