Það breytast ótal þættir í lífinu þegar líður á ævina. Börnin flytja að heiman, fólk hættir að vinna, sumir missa maka sinn eða nána vini og ættingja. Það er því ekkert óeðlilegt að margt fólk upplifi að það sé einmana þegar aldurinn færist yfir. Í grein á vefnum AginginPlace er fjallað um hvernig fólk geti brugðist við og það hvatt til að leggja ekki árar í bát. Þar segir að til að forðast félagslega einangrun ætti fólk að huga vel að heilsu sinni og velferð. Ekki loka sig af.
Farið út sama hversu erfitt það kann að vera. Skoðið nánasta umhverfi upp á nýtt og það sem þar er að finna. Þar geta verið falleg hús sem þið hafi ekki komið auga á eða listaverk. Farið í gönguferðir um nágrennið, næsta garð eða skoðið hverfi sem þið hafið ekki séð áður. Ef ekki viðrar til gönguferða má fara í næstu verslunarmiðstöð. Eru félagsmiðstöðvar eða staðir sem bjóða upp á félagsstarf í nágrenninu eða næsta hverfi? Það að hitta annað fólk þó ekki sé nema stutta stund getur bjargað döprum degi.
Eitt stærsta vandamálið við félagslega einangrun er að fólki hættir til að hætta að hugsa um líkamlega og andlega heilsu sína. Einmana fólk telur oft að öllum sé sama um það og það getur leitt til óheilsusamlegra lífshátta. Fólk borðar óhollan mat, drekkur of mikið og hættir að hreyfa sig. Til þess að vera virkur þarf fólk að huga vel að þessum þáttum. Finnið heilsuræktarstöðvar sem bjóða upp á tíma fyrir fólk á svipuðum aldri og þið eða farið í göngutúra. Ekki hika við að taka fólk tali sem á leið ykkur verður það er að öllum líkindum í svipuðum sporum og þið. Það hefur verið sýnt fram á það í mörgum rannsóknum að það viðheldur heilastarfsemi að hreyfa sig. Hreyfing losar líka um gleðihormón í líkamanum og við það verður fólk jákvæðara í eigin garð.
Margt fólk finnur sér skapandi verkefni þegar það eldist. Fólk fer á námskeið í skapandi skrifum, lærir að mála, semur tónlist og svo framvegis. Að skapa eitthvað er góð leið til að sigrast á einmanaleika. Og þegar kemur að því að búa til eitthvað þá eru engin takmörk. Fólk getur gert ótrúlegustu hluti ef það hefur sig af stað.
Hugsið um þá tíma þegar ykkur fundust þið vinamörg eða þann tíma sem þið voruð í skemmtilegri vinnu. Öll skemmtilegu áhugamálin. Einbeitið ykkur að því sem var jákvætt í lífi ykkar. Sumir eyða tímanum í að velta því fyrir sér hvað það hefði getað gert við líf sitt bara ef hlutirnir hefðu verið svolítið öðruvísi. Slíkar hugsanir auka enn á einmanaleikann. Öðrum finnst allt of seint að fara að huga að því að breyta lífi sínu. Reynið að sættast við líf ykkar eins og það var og einbeitið ykkur að því að hugsa um allt það góða sem hefur gerist í lífi ykkar og byggið framhaldið á því. Ef fólk hefur langað til að ferðast þá er kominn tími til að hyggja að því. Ef þið treystið ykkur ekki til að fara ein þá eru ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir út um allar trissur. Fyrir þann sem er einn kann það að vera góð leið þá hefur fólk ákveðið öryggi og kynnist nýju fólki.
Eitt af því sem hægt er að gera til að fá lit í lífið er að bjóðst til að vinna sjálfboðaliðastörf. Til að mynda þurfa stjórnmálaflokkar oft á fólki að halda fyrir kosningar, Rauði krossinn, ýmis hjálparsamtök vantar aðstoð. Kynnið ykkur málin og skoðið hvort þið getið ekki komið að liði. Það gleður flesta að aðstoða aðra. Sumt fólk elskar dýr og því ekki að fá sér gæludýr ef þið hafið heilsu til að hugsa um það. Það hjálpar ótrúlega mikið að hafa lifandi dýr á heimilinu. Lifandi veru sem þarfnast ástar og umhyggju.
Sjá ennfremur Einmanaleiki hefur áhrif á heilsuna