Lilja Skarphéðinsdóttir ljósmóðir á Húsavík er með alveg sérstaklega smart grátt hár. Klippingin er falleg og liturinn góður. Lifðu núna lék forvitni á að vita hvernig hún varð gráhærð og hvernig henni tókst að gera hárið svona flott. „Þetta er sennilega arfur úr föðurættinni, það er mikið grátt hár þar“, segir Lilja. „Það fer snemma að bera á gráum hárum hjá okkur, við misjafnlega mikla gleði hjá fólki til að byrja með“. Hún segir að hún hafi byrjað að finna grá hár í höfðinu, um þrítugt. „Ég lét það ekki viðgangast, tók völdin í mínar hendur og litaði það lengi vel. Var alls ekki sátt við að verða gráhærð . En á síðustu árum hefur grátt hár komist í tísku og jafnvel ungar konur reyna að lita hárið grátt“, segir hún.
Neyddist til að hætta að lita sig
Lilja segist hafa verið svolítið lengi að sættast við að verða gráhærð, en þegar hún var um sextugt gafst hún upp í baráttunni. „Þá varð þetta ekki umflúið lengur. Ég var varla komin út af hárgreiðslustofunni þegar það var komin rót. Það var ekki fallegt, þannig að ég neyddist til að hætta að lita mig. Hárið á mér var alls ekkert fallegt og vakti ekki sérstaka athygli á meðan ég litaði það dökkt, en nú fæ ég oft komment á háralitinn, eftir að það varð grátt. Einhverjum þykir þetta fallegt“, segir hún. Sjálf er hún að sættast við litinn. „Það tók langan tíma og mér finnst ennþá svolítið skrítið að líta í spegilinn. En það þýðir ekki annað en vera sáttur við þetta. Ég er farin að kunna aðeins betur við það“.
Sjampó með bláma
„Mér fannst ég þurfa að gera meira fyrir gráa hárið“, segir Lilja. Hún fór í að finna klippingu sem henni fannst henta betur fyrir grátt hár og segist fara oftar í klippingu en hún gerði áður. Eins og sjá má á myndinni sem fylgir hér með, er klippingin mjög flott. „Við eigum svo frábærar hárgreiðslukonur hér á Húsavík, þær sjá um þetta“, segir hún. Liturinn á hárinu vakti líka athygli blaðamanns, en Lilja notar stöku sinnum sjampó með svolitlum bláma, til að halda gráa litnum fallegum. Hún segir raunar að hennar hár sé grátt að verða hvítt. Undirhárin hafi verið dekkri og hún hafi endrum og sinnum ýkt dökka litinn með því að setja lit í nokkra lokka.
Blátt hár ekki fallegt
Hún segir að það séu til nokkrar tegundir af bláu sjampói, hún notar „silver shine“ sjampó. „Mér finnst ekki fallegt að vera alveg bláhærð, en ég held að það sé hægt að verða það, ef maður hefur bláa sjampóið lengi í. En ég rétt þvæ hárið með því og skola það strax úr, eins og annað sjampó. Ég nota það öðru hvoru til að skerpa á gráa litnum, það kemur fallegur blær á hárið finnst mér, en svo eru misjafnar skoðanir á því. Ætli ég noti það ekki svona einu sinni eða tvisvar í viku, en á milli nota ég venjulegt sjampó“, segir Lilja að lokum.