Á tímamótum

Gísli Pálsson og Guðný Guðbjörnsdóttir þóttu glæsilegt par á lokavetrinum sínum í Menntaskólanum á Laugarvatni. Hávaxin og spengileg.  Það eru þau enn, 46 árum, tveimur börnum og þremur barnabörnum síðar. Hann kom frá Eyjum og hún úr Keflavík. Guðný fór vestur um haf til BA náms í Vassar College en Gísli lauk BA prófi við Háskóla Íslands. Þau fylgdust að í framhaldsnámi í Englandi og hafa fylgst að í starfi, en þau eiga bæði að baki langan og farsælan feril sem háskólakennarar. Guðný sat einnig á Alþingi um skeið.  Bæði tóku þau doktorspróf, hún í uppeldissálfræði og hann í mannfræði. Núna eru þau komin á 95 ára regluna og eru prófessorar í hlutastarfi í Háskólanum. Guðný þreifar fyrir sér í myndlist, saman fagna þau nýju barnabarni og eru á tangónámskeiði og Gísli er búinn að gefa út tvær bækur í haust.

Hvað vill fólk helst gera?

Guðný segir að þau séu að uppgötva að það sé líf fyrir utan háskólann. Þau eru sammála um að byggja sig upp áður en þau hætta í launuðu starfi. Það sé yndislegt að geta sinnt barnabörnunum sem mest, tveggja mánaða dótturdóttur og tveggja og fjögurra ára sonarsonum. Guðný skipti nýlega um skrifstofu og hélt þá til haga ýmsum gögnum, bæði úr rannsóknum sínum og póltíkinni, sem bíða yfirlegu og skrifta. Hún hafi alltaf séð í hillingum að lesa ákveðnar bækur seinna þegar hún hefði tíma. En svo verði það spurningin um forgangsröð. Guðný og Gísli hafa ferðast mikið og langar að gera það áfram. Kannski fari fólk að gera eitthvað allt annað þegar það hefur loks tíma, en það sem það sá fyrir sér. En auðvitað sé þetta spurning um heilsu og þau séu svo heppin að vera heilsuhraust.

Hægt að seinka öldruninni

Gísla finnst gott að hafa sveigjanleika og gera það sem hann langar til, þegar honum dettur það í hug. Hann segir að í nágrannalöndunum hafi menn nú nýja sýn á ellina. Menn geti byrjað nýtt líf eftir að þeir komast á eftirlaun og gert eitthvað örvandi fyrir líkama og sál. Það sé mikilvægt að rækta sjálfan sig og þannig sé hægt að hægja á öllu, jafnvel seinka því að menn fái alzheimer. En leggi menn hendur í skaut, sé það ávísun á veikindi. Þau fara reglulega í leikfimi eða sport og hafa stundað jóga. Þau hafa einnig gaman af gönguferðum og sundi, að ógleymdum ýmsum menningarviðburðum og góðum félagsskap. Gísli segir að það sé gott að geta minnkað við sig vinnu smám saman, og Guðný segir það í umræðunni hjá samstarfsfélögum sínum sem eru að nálgast eftirlaunaaldurinn að það sé ekki gott að breyta öllu í einu. Fara til dæmis á eftirlaun og flytja á sama tíma. En það komi að því að þau vilji skipta um húsnæði og fara í minna, en þau búa núna í einbýlishúsi í Vesturbænum og eiga sumarbústað í Grímsnesinu, þar sem þau eru mikið. Þegar tíminn er réttur vilja þau fara í nýtt húsnæði, helst nálægt barnabörnunum.

Fleiri hliðar á hruninu

Bækur Gísla eru mjög áhugaverðar

Bækur Gísla eru mjög áhugaverðar

Bækurnar tvær sem Gísli hefur nýlega sent frá sér eru Hans Jónatan, maðurinn sem stal sjálfum sér og greinasafn um hrunið sem heitir Gambling debt, sem hann ritstýrir ásamt E. Paul Durrenberger. “Okkur fannst umræðan um hrunið hér á Íslandi of einhliða“, segir Gísli. “Hún fjallaði fyrst og fremst um bankamál, hagræna hluti og alþjóðlegt umhverfi, en við vildum skoða þetta í heild og í víðara samhengi, svo sem menningarlegan aðdraganda hrunsins og áhrif þess á samfélagið vítt og breitt.” Gambling debt er greinasafn á ensku eftir marga höfunda þar sem horft er á hlutina útfrá mörgum greinum hug- og félagsvísinda, sérstaklega mannfræði.

Danskur þræll á Djúpavogi

Bókin um Hans Jónatan er allt annars eðlis, fjallar um danskan þræl sem flytur til Íslands í leit að frelsi og gerist verslunarþjónn á Djúpavogi. Gísli hafði afskaplega litlar heimildir um hann í upphafi, en síðan vatt málið uppá sig, eins og lest sem sífellt eykur hraðann, og hann fékk aðstoð bæði vina og starfsfélaga, auk lýsinga danskra og bandarískra fræðimanna á lífinu í Vestur Indíum. „Þegar á leið fór ég að líta á Hans Jónatan eins og frelsishetju, en hann var þræll sem reis upp og tók sér frelsi. Hann yfirgefur eyjuna St. Croix í Karabíska hafinu þegar hann er 7 ára gamall og fer til Kaupmannahafnar til móður sinnar og eiganda þeirra Schimmelmann-fjölskyldunnar. Þar kynntist hann svo hugmyndum Rousseaus um frelsi og jafnrétti”, segir Gísli.

Vildi ekki fara á þing núna

Guðný sat á Alþingi fyrir Kvennalistann á árunum 1995 – 1999 og var varaþingmaður frá 1991-1995.  Kvennabaráttan vaknaði strax í kvennaháskólanum í Bandaríkjunum, en Guðný tók þátt í störfum Kvennaframboðsins og Kvennalistans alveg frá upphafi. „Eftirá finnst mér mjög fróðlegt og gefandi að hafa fengið innsýn í þennan heim“, segir hún. „Maður skilur pólitíkina öðruvísi. Ég er þakklát fyrir þessa reynslu“. Guðný segist ekki myndu vilja fara á þing í dag. Hún telur að menningin á þinginu hafi versnað eftir hrun. „Það var alltaf ákveðin virðing milli manna, sem virðist ekki vera fyrir hendi núna“, segir hún.  Gísli var á kafi í pólitík sem námsmaður. „En svo fór mér að leiðast hún og þessir leynifundir og flokkadrættir. Ég valdi fræðin. Mannfræðin heillaði mig og ég var svo heppinn að fá strax starf eftir námið. Ég hef verið á réttum stað og það hefur aldrei hvarflað að mér að skipta um starf“, segir hann að lokum.

Hérna fyrir neðan eru svo skemmtilegar myndir úr lífi Guðnýjar og Gísla, allt frá því þau voru ungt par á Laugarvatni til útgáfuteitis sem haldið var nýlega vegna útkomu bókarinnar um Hans Jónatan.  Börn, tengdabörn og barnabörn skipa þarna að sjálfsögðu veglegan sess.

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 5, 2014 12:28