Það er ákaflega gaman að plana brúðkaup og foreldrar þekkja spennuna þegar börnin þeirra ganga í það heilaga. En hvert er hlutverk foreldranna í þessu öllu saman? Foreldrum sem borga brúsann, getur dottið í hug að þeir eigi að ráða ýmsu varðandi fyrirkomulagið. En parið sem er að gifta sig, er kannski ekkert á því, enda eru reglur um það hver borgar hvað þegar börnin gifta sig, löngu úteltar. Í grein á AARP vefsíðunni bandarísku, segir að kostnaðurinn við brúðkaupin hafi snarhækkað. Það sem eitt sinn var eingöngu giftingarathöfn og brúðkaupsveisla, hefur kannski snúist upp í hátíðahöld heila helgi. Þar sem gestir eru boðnir velkomnir í sérstöku kokteil partýi, síðan er undirbúningsmáltíð, eftir-brúðkaupsveisla og kveðjumálsverður. Þetta höfum við lesið um, þegar unga og ríka fólkið heldur brúðkaup. En langflestir hafa þetta smærra í sniðum.
10% greiða brúðkaupið sjálf
Kostnaður við brúðkaupið getur verið á bilinu 20.000 til 80.000 dollarar segir á vefsíðu AARP og þar er náttúrulega verið að horfa á kostnaðinn í bandarísku samfélagi. Ef þessum kostnaði er snúið yfir í íslenskar krónur er hann frá 2.4 milljónum uppí 9.6 milljónir króna. Samkvæmt könnun þar í landi, greiða 10% brúðhjóna brúðkaupið sjálf, en það er algengt að parið greiði 42% kostnaðarins, foreldrar brúðarinnar 45% og foreldrar brúðgumans 13%.
Eins og harmonika
Sr. Pálmi Matthíasson segir að kostnaðurinn við brúðkaup hér á landi sé mjög mismunandi. „Þetta er eins og harmónika“, segir hann. Það sé hægt að halda kostnaði mjög í skefjum sjái fjölskylda brúðhjónanna meira og minna um allt, en það sé líka hægt að eyða miklum peningum ef fólk kaupi allt að sem til þarf. Það sé hægt að hugsa sér að meðalkostnaður við brúðkaup geti verið milli 3 og 4 milljónir króna, en það sé allt til í því.
Fyrsta skrefið að ræða saman
En hvernig eiga fjölskyldur að finna út úr því hver á að borga hvað og hver á að ákveða þetta allt? Fyrsta skrefið er að foreldrarnir og brúðhjónin ræði þetta sín á milli, segir Ivy Jacobson ristrjóri bandaríska brúðkaupstímaritsins Knot og bætir við að það sé ekki lengur feimnismál að ræða það hvað er raunhæft og hverju fólk hefur efni á. Hún bætir við, að það sé gott að brúðurin og brúðguminn ræði málið hvort við sína foreldra, nema tengslin í fjölskyldunni séu þeim mun nánari. Hún segir líka að allir þurfi að hafa í huga að brúðkaupið snúist fyrst og fremst um unga parið og hvernig það vill hafa hlutina, en ef foreldrarnir borgi stóran hluta kostnaðarins, þurfi að sýna þeim virðingu.
Gerið fjárhagsáætlun
Í Bandaríkjunum eru starfandi svokallaðir Wedding planners, sem skipuleggja brauðkaup fyrir fólk og tveir þeirra gefa eftirfarandi ráð í greininni.
Verið heiðarleg. Það getur verið óþægilegt að ræða væntingar varðandi fjármálin, en það er mun verra að þurfa að taka þau mál upp, þegar áætlanir varðandi brúðkaupið eru langt á veg komnar.
Gerið fjárhagsáætlun. Setjist niður með öllum sem ætla að taka þátt í kostnaðinum og gefið þeim upp þá fjárhæð sem þeir eiga að greiða. Farið yfir það sem brúðhjónin vilja og forgangsraðið því sem þarf að gera til að kostnaðurinn verði raunhæfur.