Getum við orðið gráhærð á einni nóttu

Hefurðu tekið eftir því að hár þitt er þynnra en það var fyrir 30 árum? Ef svarið er já er nokkur huggun í að þú ert ekki ein/einn um það.

Þegar miðjum aldri er náð fer að bera á þynningu hársins og vöxtur þess hægist. Á sama tíma endurnýjar hárið sig ekki eins hratt og áður.

En hárin sem endurnýja sig eiga sér ekki eins langra lífdaga og áður svo erfiðara verður að viðhalda klippingum sem við erum vön að hafa, sér í lagi í síðu hári.

Svo að þegar þetta hártímabil hefst er klæðilegra að hafa hárið styttra en síðara og auðveldara að eiga við það.

Góðu fréttirnar eru að sumar fæðutegundir og breyting á lífsstíl getur hjálpað hárinu að vaxa hraðar. Og ef það dugar alls ekki hefur hárgreiðslufólk oftast einhver ráð sem hjálpa.

Af hverju gránar hárið?

Hár okkar vex upp frá hársrótum og í þeim eru frumur sem framleiða litarefni sem kallast melanín. Þegar við eldumst byrja þessar frumur að hrörna og framleiðsla þeirra á þessu litarefni minnkar. Gera má ráð fyrir að þessi hrörnun hefjist um 30 ára aldur hjá körlum en 35 ára hjá konum en er auðvitað breytileg  frá einum einstaklingi til annars. Athyglisvert er þó að fólk gránar fyrr nú á dögum en áður. En þótt orsakirnar séu ekki þekktar er talið líklegt að breytingar á mataræði og lífsstíl og umhverfismengun hafi þar sitt að segja. (upplýsingar af vísindavefnum)

Getur hárið gránað á einni nóttu?

Streita getur stytt líftíma hársekkjanna og orsakað það að mörg hár losni á saman tíma. Þar með þynnist hárið snögglega. Hárin sem eftir verða eru þá þau sem eru á þau sem eru með minna litarefni og gerir það að verkum að öðrum finnst sem þeir,  sem þetta hendir, gráni “á einni nóttu”.

Nokkur ráð til að efla þunnt og grátt hár

Jafnvel þótt hárið sé ekki lifandi vefur eru frumurnar sem framleiða það í hópi þeirra virkustu í öllum líkamanum. Þar sem hárið er ekki nauðsynlegt til að við höldum lífi flytur líkaminn næringarefni, sem skortur er á í líkamanum, á þann stað sem meiri þörf eru fyrir þau þá stundina. Þetta gerist þegar æðarnar sem flytja blóð til hársekkjanna þrengjast og þá verður skortur á súrefni og næringarefnum sem hárið þarf til vaxtar. Þetta gerist gjarnan þegar fólk veður fyrir einhvers konar áföllum. Við þessar aðstæður verður hárið líflaust.

C vítamínskortur getur valdið því að hárið brotni og flækist óeðlilega mikið á meðan E vítamínskortur orsakar þurrk í hári og að ljómann skorti. Járnskortur getur líka orsakað hárlos. Gott er að láta mæla járnmagn í blóði til að útiloka það.

Ef bera fer á þynningu augabrúna eða augnhára getur orsakanna verið að leita í vanvirkum skjaldkirtli. Það getur líka tengst joðskorti. En athuga ber að líkamsstarfsemi okkar er ólík frá manni til manns og best er að fara reglulega í skoðun á heilsugæslustöðvum og láta lækni mæla blóðgildi ef grunur um einhvers konar skort er til staðar.

Gættu þess að hárið fái þá næringu sem það þarf til að þrífast vel.

Hugsa ætti alltaf fyrst um góða næringu áður en inntaka vítamína hefst. Heil korn, ávextir, grænmeti, hnetur, fræ, kjöt og fiskur er allt mjög góð uppspretta vítamína, steinefna og nauðsynlegra fitusýra til að næra og hvetja hárvöxt. Áður en inntaka vítamína er hafin er viturlegt að tala við lækni sinn til að útiloka næringar- og hormónaójanvægi og blóðleysi, sykursýki 2 og skjaldkirtilsójafnvægi. Ef svo væri er frekari rannsókn nauðsynleg.

Hægt er að auka blóðflæði til höfuðleðursins með því að nudda það reglulega með fingurgómunum. Þetta ætti að gera einu sinni á dag. Einbeitið ykkur að stöðum þar sem höfuðleðrið virðist fastara við höfuðkúpuna og reynið að losa um.

Verið viss um að þið hafið  nægilega mikið prótein í fæðunni. Hárið samanstendur fyrst og fremst af keratín próteini sem fæst úr fæðunni.

Ekki sleppa máltíð þar sem ástandið sem þá skapast setur líkamann í viðbragðsstöðuna sem skapast þegar næringarefni vantar og þá færir hann næringu frá einum stað til annars. Þá verður hárið gjarnan fyrst fyrir þar sem það er ekki nauðsynlegt til að viðhalda lífi.

Drekkið nóg af vatni

Vatn er nauðsynlegt til að húð og hár viðhaldi nægum raka. Vatnið hjálpar næringarefnum líka til að leysast upp í líkamanum. Ráðleggingar fagmanna hljóða upp á 6-8 glös af vökva á dag sem getur verið vatn, te eða annar ósætur drykkur til viðbótar við aðra vökvaríka fæðu eins og súpur, agúrkur, vatnsmelónur o.s.frv.

Hárlos eykst með aldrinum bæði hjá konum og körlum

Hárlos eykst eftir tíðahvörf hjá konum og hormónabúskapur karla breytist líka eftir miðjan aldur en erfðir koma þar líka til. Þeir sem vilja og geta tekið inn hormón til að efla kerfið geta haft samband við lækni og fengið ráð því hormónainntöku fylgja kostir og gallar.

Vitað er að hægt er að finna hormónahvata í jurtaríkinu kallaðir ísóflavónar. Þeir eru allt að þúsund sinnum minna virkir en oestrogen en geta samt sem áður örvað hormónabúskapinn. Ísóflavóna er t.d. að finna í baunum, tofu, misobaunum og öðrum sojavörum, sætum kartöflum, linsubaunum, hnetum og fræjum.

Forðist vissar fæðutegundir til að halda heilbrigðu hári

Salt í of miklu magni hefur skaðleg áhrif á líkamann og nú er vitað að minnkuð saltneysla getur dregið verulega úr hárlosi. Forðast skyldi alveg næringarsnauða og sæta millibita.

Gott að hafa í huga

Streita hefur áhrif á hárlos.

Örvið blóðflæði í hársverðinum með því að nudda hann daglega. Takið handfylli af hári og hreyfið höfuðleðrið til fram og til baka.

(Upplýsingar af vefriti Sixty and me  og af Vísindavefnum)

 

 

Ritstjórn febrúar 18, 2020 09:26