Fjölskyldusaga þín á netinu

Stefán Halldórsson

Stefán Halldórsson

 

Áhugi fyrir því að vita meira um forfeður okkar vaknar gjarnan með aldrinum. Stefán Halldórsson leiðir vinsælt námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands sem nefnist “Fjölskyldusaga þín á netinu”. Flestir þátttakendanna eru komnir yfir miðjan aldur því eðlilega beinist áhugi þeirra yngri meira að verkefnum líðandi stundar.

Þetta námskeið var haldið í sjöunda sinn nú í vor en fyrsta námskeiðið var haldið vorið 2017. Síðan hefur það verið haldið vor og haust á hverju ári . Á fyrsta námskeiðinu voru 40 manns og Stefán segir að það hafi verið heldur of stór hópur. “Þetta er námskeið þar sem gott er að hafa fjölda þátttakenda á bilinu 12 til 20 manns. Í stærri hópi er fólk orðið feimið og hættir að vilja taka þátt í samræðum. Námskeiðið byggist á því að fólk geti talað og lagt til málanna. Það er hluti af skemmtuninni.,” segir Stefán.

Ættfræðitæknir!

Stefán er ekki ættfræðingur heldur hefur hann verið mikill  grúskari um ýmislegt allt frá því hann var barn. Hann lauk BA í félagsfræði frá HÍ og svo MBA prófi í rekstrarhagfræði frá Bandaríkjunum. Hann starfaði lengst af á fjármálamarkaði en er að mestu hættur þeim störfum nema verkefnavinnu. Stefán segir að bakgrunnur hans sé því á engan hátt á sviði ættfræði en segist búa að þeirri reynslu að finna upplýsingar, meðal annars frá því hann var blaðamaður og kennari á sínum tíma. Hann hefur þess vegna ákveðna reynslu í að kafa ofan í mál. Hann segist sjálfur vera “ættfræðitæknir” af því hann kunni orðið mjög vel á tæknina sem hægt er að nýta sér við að finna upplýsingar sem okkur vantar í ættfræðigrúskinu. Hann getur því leiðbeint fólki mjög vel og hefur gaman af því þar sem þeir sem sækja slíkt námskeið séu undantekningalítið mjög áhugasamt og frótt fólk. “Það eru til svo mikil ógrynni af upplýsingum sem gaman er að raða saman og þegar upp er staðið getum við verið komin með nokkuð heillega mynd af lífi forfeðra okkar,” segir Stefán. “Við getum dregið ályktanir af því sem var að gerast á þeirra tíma, til dæmis við hvaða lífskjör fólk bjó og hvað það þurfti að fást við til að draga fram lífið.”

Sönn saga

Myndir í ættfræðigrúskiStefán segist nota eigin ættarsögu og konu sinnar, Lilju Jónasdóttur, því saga þeirra sé mjög gott dæmi um ættarsögu Íslendinga almennt. “Ég gef fólki gott sýnishorn af því hvað hægt er að gera og hvernig best sé að bera sig að við að finna upplýsingar. Með því að nota eigin sögu þarf ég ekki að fá leyfi neins staðar,” segir Stefán og brosir en hvernig kviknaði áhugi hans á ættfræðinni? “Það er nú saga að segja frá því en við Lilja vorum á ferðalagi og vorum stödd á Hólmavík. Daginn eftir áttum við að fara út á Gjögur en þar eru æskuslóðir ömmu Lilju. Ég fór að grennslast fyrir um hvað ættingjar hennar hétu ef við skyldum rekast á leiði þeirra í kirkjugarðinum. Ég vissi í raun ekki meira um ættingja Lilju annað en að amma hennar hefði fæðst á Gjögri. Þegar ég fór að skoða þetta á Íslendingabók sá ég stóran barnahóp og líka barnadauða og dauða margra ungmenna. Ég varð svo undrandi og fór að velta fyrir mér hvort þessi mikli barnadauði hefði verið svona óvenjulega mikið ólán í þessari fjölskyldu en þegar ég fór að skoða málið betur kom í ljós að harmsaga þessarar fjölskyldu var frekar regla en undantekning. Við hjónin eigum samtals 16 langafa og langömmur og þegar ég hafði skoðað sögu allra þeirra kom í ljós að það var bara ein fjölskylda af öllum sextán þar sem hafði ekki verið barna- og ungmennadauði.”

Tölfræðin áhugaverð

„Langalangafi Lilju varð hreppstjóri og var Dannebrogsmaður sem er ígildi þess að  vera sæmdur Fálkaorðunni,“ segir Stefán. „Synir hans komust báðir til mennta og lífið virðist hafa farið mýkri höndum um þessa fjölskyldu en annarra. Langafi Lilju varð svo prestur og á sama hátt gekk hans fjölskyldu betur. Flest börnin á því heimili gengu menntaveginn og upplifðu allt aðra möguleika en aðrir. Tölfræðin um skiptingu þjóðarinnar eftir stöðu og eignum um miðja 19. öld gefur til kynna að af 16 langömmum og –öfum sé sú skipting líklegust að 12 hafi verið börn fátækra leiguliða, 3 verið börn sjálfseignarbænda og þess vegna betur stæð og það sextánda mögulega afkomandi kaupmanns eða embættismanns sem bjó við betri kjör. Þetta er nærri lagi hvað fjölskyldur okkar Lilju varðar og það er forvitnilegt fyrir aðra að stilla sinni eigin fjölskyldu upp og bera saman.”

Allar ættir á Íslandi merkilegar

Ættfræðigrúsk.Stefán tekur fram að hann hafi komist að því að allar ættir okkar séu merkilegar og ekki er síður merkilegt það sem börn þessara fátæku leiguliða hafi lagt á sig og lagt okkur afkomendum til ,en framlag hinna sem fengu meðbyr út í lífið. “Okkur hættir til að hampa þeim sem hafa orðið meira áberandi og gleymum afrekum þeirra sem höfðu vindinn í fangið en komust samt áfram. Þeirra saga var ekki fest á blað en var ef til vill merkilegri en þeirra sem bækurnar voru skrifaðar um. Þeir höfðu nefnilega meðbyr frá byrjun. Þá má síðan velta fyrir sér hvaða eiginleikar forfeðranna og formæðranna gerðu það að verkum að þau spjöruðu sig og svo má spyrja sig hvort þeir eiginleikar hafi síðan skilað sér til okkar.”

Börnin fæddust eitt á ári

“Það hefur t.d. lengi verið hlutskipti húsmæðra að sjá um heimilið og á þessum tíma fæddust börn stundum á hverju ári,” segir Stefán. “Barnadauðinn var mikill og konurnar báru harm sinn gjarnan í hljóði. En til eru sögur af þessum konum sem þóttu ekki mjög málgefnar og voru ekkert að blaðra um það sem á undan hafði gengið. Afarnir voru aftur á móti meira út á við og maður veltir því fyrir sér hvort þetta hafi ekki verið eðlileg viðbrögð við hlutskipti þessara kvenna. Að halda heimili við kröpp kjör og slæman húsakost hefur ekki verið auðvelt.

Þessa sögu getum við lesið úr úr gögnum sem nú eru aðgengileg um Íslendinga. Til dæmis sagan þar sem börnin fæddust eitt á ári og svo dóu konurnar frá öllu saman af því þær voru búnar á sál og líkama. Þá áttu karlarnir ekki annan kost en að finna sér aðra konu, sem var gjarnan yngri, og þá var haldið áfram að hlaða niður börnum. Þegar maður skoðar ættartöl og byggðalýsingar rekst maður oft á þessa sögu, þ.e. jafnaldra fólk hefur búskap, hleður niður börnum, konan deyr og karlinn kvænist yngri konu og heldur áfram að hlaða niður börnum, hann deyr og hvað gerir seinni konan þá? Maður rekst æði oft á þessa sögu,” segir Stefán.

Tjáning gena

Nýlegar rannsóknir á tjáningu gena eru mjög áhugaverð uppgötvun að sögn Stefáns. “Genin okkar eru eins og risastórt mælaborð þar sem er kveikt á sumum tökkum og slökkt á öðrum. Við fæðumst með kveikt eða slökkt en svo gerist eitthvað. Það geta verið sjúkdómar, andleg áföll eða líkamleg og svo framvegis. Þetta getur kveikt eða slökkt á genum og menn telja sig nú sjá að þessi tjáning genanna geti erfst í eina eða tvær kynslóðir. Svona nákvæmar genarannsóknir eru nýlegar en ég spurði Kára Stefánsson um þetta og hann sagði mér að nú vissum við að áföll gætu fylgt í eina eða tvær kynslóðir.

Ættfræðigrúsk

Ættfræðigrúsk.

Þannig getur mikill harmur og áföll forfeðra okkar verið í okkar eigin genum. Þetta er í raun tvenns konar erfanleiki. Annars vegar eru það geðsjúkdómar sem geðlæknar vita að erfast en ekki alltaf til allra barna einstaklings sem ber þann sjúkdóm. Svo eru það eiginleikar sem flytjast á milli kynslóða. Segjum sem svo að við ölumst upp hjá móður sem er alltaf með sorg í hjarta þá getur það mótað hugsanir okkar.”

Hjátrú og menntun

“Fólk sem hefur upplifað mikla sorg, til dæmis í tengslum við slys, leggur oft mikla áherslu á það við börn sín að halda venjur í heiðri sem urðu til fyrir löngu síðan,” segir Stefán. “Kynslóðirnar hafa farið eftir þeim venjum hver fram af annarri. Forlagatrú hefur þannig verið mjög rík í mörgum ættum. Þá er hægt að velta fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur haft á okkur sjálf. En líka er hægt að spyrja sig af hverju við höfum gengið gegn hefðunum ef við höfum gert það.” Stefán segist leggja herslu á að fólk skoði hvenær menntun kom til sögunnar í ættunum sem að okkur standa því þá séu oft straumhvörf í ættarsögum. Allt sé þetta óendanlega spennandi og skemmtilegt að kafa ofan í.

 

Ritstjórn apríl 17, 2020 08:11