Mál Gráa hersins gegn íslenska ríkinu verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun og Grái herinn sendi eftirfarandi tilkynningu til fjölmiðla.
Þrír félagar úr Gráa hernum, baráttuhópi eldra fólks um lífeyrismál, hafa að beiðni og fyrir hönd samtakanna höfðað mál á hendur Tryggingastofnun f.h. íslenska ríkisins vegna skerðinga stofnunarinnar á ellilífeyri og heimilisuppbót á móti greiðslum frá lífeyrissjóðum. Málshöfðunin er reist á því sjónarmiði að með skerðingu opinberra lífeyrisgreiðslna í hlutfalli við réttindi, sem ellilífeyristakar hafa áunnið sér í lífeyrissjóðum með vinnuframlagi sínu og iðgjöldum, sé gengið gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti lífeyristaka.
Þessar skerðingar nemi allt að 56,9% af greiðslum úr lífeyrissjóði. Þegar einnig sé tekið tillit til tekjuskatta sé því um að ræða ígildi eignaupptöku á allt að 72,9% greiðslna frá lífeyrissjóðunum. Þetta sé brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi eignarréttarins, og ákvæðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans, sem leggja bann við mismunun.
Í stefnunni er það rakið að kerfi skyldulífeyrissparnaðar, sem komið var á fót með kjarasamningum á árinu 1969, hafi verið ætlað að koma til viðbótar en ekki í stað almannatrygginga. Með núverandi skerðingum sé verulegur hluti þess ávinnings sem rekja má til lífeyrissjóðakerfisins hins vegar færður frá sjóðfélögum til ríkisins. Í stað þess að sjóðfélagar fái sjálfir notið lífeyrissparnaðar síns séu réttindi þeirra í lífeyrissjóðunum notuð til að draga úr útgjöldum ríkisins til almannatrygginga.
Bent er á að gerðar séu ríkar kröfur um að inngrip í eignarréttindi uppfylli þau skilyrði um lögmæti, réttmæti og meðalhóf sem leiða af 72. gr. stjórnarskrárinnar. Íslenska ríkinu sé hinsvegar engin knýjandi nauðsyn á að skera niður útgjöld sín til lífeyris aldraðra með svo stórfelldum hætti, þar sem þau samsvari nú aðeins broti af því sem varið er til þessa málaflokks í nálægum löndum.
Hagsmunir einstaklinganna af því að fá að njóta ávaxtanna af lífeyrissparnaði sínum séu því mun ríkari en hagsmunir ríkissjóðs af því að skerða þessi réttindi. Þá bitni skerðingarnar á fámennum hópi ellífeyristaka auk þess sem lífeyristökum sé mismunað innbyrðis með ýmsum hætti.
Tryggingastofnun hefur verið birt stefna sem þingfest verður fyrir dómi 28. apríl nk. Gera má ráð fyrir því að rekstur málsins geti tekið um 2-3 ár.
Að baki málshöfðuninni stendur Málsóknarsjóður Gráa hersins sem sérstaklega hefur verið komið á fót til að fjármagna málareksturinn. MAGNA lögmenn munu flytja mál einstaklinganna þriggja fyrir dómi.
Sjá nánar á www.graiherinn.is
Allir þeir sem telja rétt að fá úr því skorið hvort skerðingarnar standist stjórnarskrá eru hvattir til að leggja málinu lið með því að leggja fé inn á reikning Málsóknarsjóðsins. Bankanr. 515-26-007337 kt. 691119-0840.