Gísli Sigurgreisson var lengi fréttamaður Ríkisútvarpsins á Akureyri og vann síðar á Sjónvarpsstöðinni N4. Lifðu núna lék forvitni á að heyra hvað hann hefði fyrir stafni í dag.
Hvað er ég að gera í ellinni? Þetta er erfið spurning, því satt best að segja finnst mér ég aldrei hafa haft eins mikið að að gera. Í það minnsta er verkefnalistinn langur, en það er svo allur gangur á hversu vel mér gengur að stytta þann lista!
Ég valdi mér fjölmiðlun fyrir ævistarf; byrjaði í blaðamennsku, fór síðan í fréttamennsku og loks í kvikmyndagerð. Þetta var skemmtilegur tími, enda mikilvægt að velja sér starf, sem er skemmtilegt. Vinnan er svo stór hluti af lífinu.
En vegna þess hvað kvikmyndagerðin er skemmtileg hefur mér gengið illa að hætta. Ég var búinn að koma mér upp tólum og tækjum til kvikmyndagerðar og er með lítið „stúdíó“ heima. Þar hef ég verið að dunda mér við heimildamyndir, að hluta til úr efni sem ég á í mínu safni. Ég var til dæmis að ganga frá mynd, þar sem fjallað er um veiðar Franskra sjómanna við Ísland, jafnframt því sem fylgst er með uppbyggingu á „Franska þorpinu“ á Fáskrúðsfirði.
Ég held að það eigi eftir að koma mörgum á óvart, hvað Frakkarnir voru umfangsmiklir við veiðar á Íslandsmiðum á sínum tíma.
Auk þess er ég að viða að mér efni í mynd um Jökuldal og Jökuldælinga. Þar ætla ég að reyna að draga upp mynd af mannlífi í Jökuldalshreppnum gamla, en hann náði allt frá Jökulsá á Fjöllum austur yfir Jökulsá á Dal. Þarna var fjölbreytt mannlíf og stórar barnmargar fjölskyldur á nánast hverjum bæ. Saga sveitarinnar er sérstök, ekki síst vegna einangrunarinnar og erfiðra samgangna langt fram eftir síðustu öld. En nú er öldin önnur. Sauðfjárbúskapur á í vök að verjast, fólki hefur fækkað og mörg býli komin í eyði. Þetta er raunar svolítið dæmigert fyrir margar sveitir landsins, þannig að þessi mynd verður einskonar íslenskur sveitaróman. Ég reikna með að þetta verði mín síðasta mynd, sem ég geri í ellinni til að launa dalnum fóstrið í æsku. Þar var ég í sveit krakkinn; hjá Ingunni Einarsdóttur og Páli Gíslasyni, móðurbróður mínum. Þetta voru mótunarár og þau áttu stóran hlut í að gera mig að manni, ef mann skyldi kalla!
Já, kvikmyndagerð er skemmtileg og það er erfitt að hætta. Það verður líka að viðurkennast, að það drýpur ekki smjör af hverju strái hjá þeim sem þurfa að lifa af eftirlaunum á Íslandi í dag. Ekki síst vegna þess að ég á ríflega aldargamalt hús, sem skapar mér endalaus verkefni. Við hjónin keyptum húsið þegar það var að niðurlotum komið og hófum endurbyggingu, sem hefur staðið linnulítið í þrjátíu ár. Þeirri enduryggingu lýkur aldrei!