Jón Björgvinsson hefur verið búsettur í Sviss í 35 ár en hann komst að því að loknu kvikmyndanámi í Bretlandi að hann þyrfti ekki endilega að setjast að í sama landi og hann fæddist í. Hann valdi sér því stað þar sem landslagið var fallegt, stutt á skíði, skattarnir lágir, launin há og væri miðsvæðis vinnunnar vegna. “Fljótlega eftir nám var ég kominn með verkefni sem sendu mig vítt um jarðir með stuttum fyrirvara og þá þótti mér heppilegra að vera nálægt alþjóðlegum flugvelli,” segir Jón sem hefði þurft að bæta við heilum degi í ferðalög í hvorn endann ef hann hefði sest að á Íslandi. “Svo má ekki gleyma því að ég elska raclette og fondue svo Sviss er tilvalinn staður að búa á,” segir Jón og brosir. Hann tekur samt fram að þessi ákvörðun hans að setjast að í Sviss hafi líka að hluta til verið þörf fyrir svolítið stöðugra umhverfi en það ógnandi umhverfi sem hann hefur oft verið að mynda í verkefnum
fyrir svissneska ríkissjónvarpið og alþjóðlega hjálparstofnanir eins og Rauða krossinn, Lækna án landamæra og Sameinuðu þjóðirnar.
“Það er þægilegra að vita að sjúkrabíllinn sé á næsta leiti ef hringt er á hann, öfugt við þær aðstæður sem þeir lifa við sem ég er oft að mynda í fóttamannabúðum, á hamfarasvæðum og í stríðsátökum.”
“Hér í Sviss hins vegar er lífið næstum því of sterílt. Ég sakna svolítið íslenska “þetta reddast” hugarfarsins en ég bæti það upp með því að búa í franska hlutanum,” segir hann. “Menningin hér er því franskari og svolítið flippaðri. Hér horfa menn í þessu tilliti frekar til Parísar en Bernar þótt það sé hin raunverulega höfuðborg.”
Jón er búsettur í litlum rómverskum bæ stutt frá Genf og alþjóðaflugvellinum þar. Hann segir að þar sem Sviss sé landlukt þyki sér góð tilfinning að vera við Genfarvatn, annað stærsta vatnið á meginlandi Evrópu. Það bæti upp hafleysið og að sjá ekki út á sjó. Þar komi Íslendingurinn í sér aftur í ljós.
Jón starfaði í blaðamennsku áður en hann fór í kvikmyndanámið. Hann skipti pennanum út fyrir myndavélina á sínum tíma og segir ástæðuna vera einkum þá að blaðamenn séu svolítið bundnir sínu málsvæði. “Því draumurinn var vitanlega að geta ferðast um og skoðað heiminn en svo varð draumurinn eins og hjá lærisveini galdrameistarans. Hann rættist eiginlega of vel og allar þær flugferðir verða seint kolefnisjafnaðar. Ég segi stundum að öfugt við aðra sem eru að nálgast eftirlaunin og dreymir loks um að geta farið að ferðast, þá dreymi mig þvert á móti um að hætta að ferðast.”
Jón segist því hafa upplifað dásamlegan tíma þegar allt flug lagðist af vegna covid faraldursins því þá þurftu hann og allir aðrir að halda sig heima í heilan mánuð. “Ég naut þessa tíma ríkulega en nú er allt komið á fullt aftur og ég líka, ” segir kvikmyndatökumaðurinn, sem hefur þvælst víðar um ævina en flestir aðrir.
Jón á tvo syni og sá eldri er búsettur á Íslandi. Hinn er hjá móður sinni en þau eru búsett í námunda við Jón. “Ég verð seint sakaður um að vera mikill fjölskyldumaður en þar sem öllum var það ljóst frá upphafi og allir eru sáttir við það og hafa ekki þekkt annað þá gengur það prýðilega. Að minnsta kosti virðast drengirnir ekki hafa liðið fyrir það, þeir eru betur heppnaðir en pabbinn, en það er meira mömmunni að þakka.”
Þegar Jón lauk námi fyrir meira en 40 árum fékk hann strax vinnu hjá Ríkissjónvarpinu og starfaði þar í 3 ár. Síðan þá hefur hann borið taugar til RÚV sem hann segir að hafi alið sig upp að hluta og þess vegna hefur hann látið Ísland njóta þess þegar hann hefur verið á framandi slóðum og sent efni heim.
“Ætli ég sé ekki orðinn sá sem lengst hefur óslitið “ekki starfað” fyrir RÚV, ef svo má að orði komast”.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.