Kjötbollur er uppáhaldsmatur margra en kjötbollurnar, sem mjög margir muna eftir úr æsku, voru búnar til úr kjötfarsi. Nú kjósa flestir annars konar kjöt í bollurnar og það fer eftir því hvers konar hakk er notað hvernig áferð bollanna verður. Í suma rétti er notað lambahakk eingöngu og þá verða bollurnar þéttari en ef nautahakk er notað. En blanda má grísahakki saman við nautahakk til að gera bollurnar þéttar og góðar.
600 g nautahakk eða 400 nautahakk og 200 grísahakk
100 g brauðmylsna
3 msk. mjólk
1 egg
3 hvítlauksrif, marin
2 msk. ferskt rósmarín, saxað
1 dós litlar mozzarellakúlur
2 msk. ólífuolía
500 g pastasósa
steinselja til skreytinga
niðurrifinn parmesanostur
hvítlauksbrauð
pasta til að hafa með bollunum
Blandið saman nautahakki, brauðmylsnu, mjólk, eggi, hvítlauk, rósmaríni, salti og pipar. Takið sem nemur 2 msk. af hakki og búið til bollu utan um mozzarella kúlu. Endurtakið þar til kjötblandan er búin. Sumum þykir betra og fallegra að hafa bollurnar minni og fleiri. Þá má skera mozzarellakúlurnar í tvennt og búa til bollu úr minna magni af kjöti. Steikið bollurnar í olíunni á pönnu þar til þær eru orðnar fallega brúnar allan hringinn.
Bætið sósunni saman við, lækkið hitann og látið malla í 20 mínútur. Skreytið með steinslelju og parmesan og berið fram með brauði og pasta. Getur ekki klikkað!