Því er iðulega haldið á lofti hvað gönguferðir séu góðar fyrir líkamlega og andlega heilsu og líka vegna félagsskapar við aðra. Dami Roelse er höfundur bókar sem heitir Walking Gone Wilde og hefur þjálfað konur sem eru fimmtugar og eldri í göngum. Hún bendir á fimm aðra kosti við gönguferðir en nefndir voru hér að ofan, á vefnum sixty and me, sem birtast hér í lauslegri þýðingu.
Sterk upplifun
Þú yngist ekki þó þú stundir gönguferðir, en upplifunin er þannig að þú gleymir hversu gamall eða gömul þú ert. Á meðan þú gengur notar þú öll skynfærin sem gerir það að verkum að heilinn sendir út skilaboð um að þú sért ólgandi af lífskrafti og þú fyllist gleði og þakklæti.
Upplifir þú að þú sért sprell lifandi þegar þú situr í stól og horfir á kvikmynd? Það held ég ekki. Hreyfingarlaus afþreying fær þig til að gleyma amstri dagsins um stund, sem getur verið ánægjulegt, en það gerir þig ekki sneggri í snúningum.
Hægari öldrun
Gönguferðir og fjallgöngur hægja á öldrun. Ég hef komist að því að beinþéttni hjá mér hefur aukist síðustu fjögur árin, eftir að ég fór að fara í langar fjallgöngur. Það hefur hægt á öldruninni.
Göngur úti í náttúrunni örva heilasellurnar og brenna stress hormónum. Þannig veðrurðu snarpari í hugsun og liðugri. Það hefur verið sannað að göngur, einkum langar fjallgöngur setja í gang aukna virkni gegn öldrun í frumum líkamans.
Minnka kolefnisfótsporið
Gönguferðir eru gjöf bæði til umhverfisins og þín. Hvert skref sem þú tekur mýkir allar hreyfingar líkamans, örvar frumurnar til að byggja sig upp, bætir nýjum frumum við og eyðir þeim gömlu.
Á meðan þú gengur og byggir upp líkamann, ertu að minnka kolefnisfótspor þitt, af því þú sleppir því að aka bíl eða nota annan orkufrekan samgöngumáta. Þegar þú andar á göngunni eykur það virkni gróðursins í kringum þig. Þvílíkt kraftaverk.
Nýjar hliðar sem voru gleymdar
Þegar þú byrjar að stunda í gönguferðir, líður þér betur, þú sefur betur og verður betri í skapinu. Þú uppgötvar hliðar á sjálfri þér sem þú varst búin að gleyma. Það þarf að ganga reglulega til að upplifa þetta. Þannig að þú skalt gera gönguferðir að lífsstíl.
Fækkaðu þeim klukkustundum sem þú situr á rassinum og fjölgaðu þeim stundum sem þú gengur með því að ganga ýmissa erinda. Farðu í göngu- og spalltúr með vini eða vinkonu. Farðu gangandi í kvöldverðinn sem þér var boðið í. Vertu á gönguskónum á meðan þú gengur í leikhúsið en taktu spariskóna með í poka.
Farðu í gönguferð í sumarfríinu
Gönguferðir eru ávanabindandi. Þegar þú ferð að ganga lengri vegalengdir, verðurðu ánægðari með sjálfa þig og það hversu góðu formi þú ert að ná. Þá færðu kannski þá hugmynd að fara í dagsferð eða jafnvel í nokkurra daga göngu með bakpoka. Ef þú treystir þér ekki til að bera þungar byrðar dögum saman, er hægt að komast í trússferðir, þar sem farangurinn þinn er fluttur á hestum eða með bílum.
Það er hægt að fara í gönguferðir, þar sem gengið er milli skála og víða í Evrópu er boðið uppá slíkar ferðir á sanngjörnu verði, segir í þessari grein og tekið er fram að það geti verið erfiðara að finna slíkar ferðir í Bandaríkjunum. Það sé hægt, það þurfi bara að leita. Hér á Íslandi eru það einkum Ferðafélag Íslands, Útivist og Fjallaleiðsögumenn sem skipuleggja lengri gönguferðir um landið. Þessi félög kynna sumaráætlun sína oftast snemma árs og fyrir þá sem hafa áhuga er rétt að fylgjast vel með því þegar þær koma.