Þórhallur Heimisson er búsettur í Uppsölum í Svíþjóð þar sem hann starfar sem prestur en þar hefur hann verið búsettur undanfarin fimm ár. Hann fór í framhaldsnám til Svíþjóðar á sínum tíma og eiginkona hans, Ingileif Malmberg, líka. Þau störfuðu síðan um árabil á Íslandi, en eftir margra ára þjónustu hér dreymdi þau um að fara aftur til Svíþjóðar þar sem þau höfðu bæði starfsréttindi sem prestar. Þórhallur og Ingileif eru nú komin á miðjan aldur og á þetta skemmtilega tímabil ævinnar þar sem þau geta notið þess að haga lífinu eftir eigin höfði með fólkið sitt með sér þegar við á. Þau ætla þannig að dvelja á Íslandi um áramótin en sinna prestsstörfum í Svíþjóð jóladagana. Þau eiga fjögur börn og nú er aðeins eitt þeirra, 16 ára drengur, eftir heima, kominn í menntaskóla í Svíþjóð. Elsta dóttir þeirra er læknir í Svíþjóð, önnur kennari á Íslandi og sú þriðja læknir, einnig búsett á Íslandi.
Forsendan að heilsan haldi
„Forsenda þess að geta notið frelsisins sem maður endurheimtir þegar barnastússinu lýkur er auðvitað að heilsan haldi,“ segir Þórhallur. Hann fékk að finna rækilega fyrir því þegar hann féll á gönguskíðum fyrir tæplega ári síðan, fótbrotnaði illa og þurfti að vera rúmliggjandi í langan tíma eftir það. Hann er vanur skíðamaður bæði á svigskíðum og gönguskíðum.
Miskunnsami samherjinn
„Við Ingileif fórum í stutta gönguskíðaferð sem var svo lítið mál að við tókum ekki einu sinni símana með okkur. En ég lenti í hálku og datt svona líka illa. Konan mín gat ekki hringt á hjálp, símalaus en ég var svo heppinn að það kom þarna „miskunnsamur samherji“, ung kona með bleikt hár, nagla í gegnum nefið og finnskan hreim, sem var með síma. Hún gat hringt á sjúkrabíl sem kom í skyndi Ég er ágætlega fær skíðamaður en í þessari ferð missti ég einbeitinguna eitt augnablik og datt þannig að fóturinn kubbaðist í sundur. Ég lá alveg flatur í tvo mánuði eftir fallið, gekkst undir aðgerð og kynnist sænska heilbrigðiskerfinu mjög vel,“ segir Þórhallur og brosir.
Þeir borga hærri skatta en þjónustan er meiri
,,Ég var fluttur á sjúkrahús, fékk þar fullkomna þjónustu, fór í aðgerð og þegar ég vaknaði eftir fyrstu nóttina var mér réttur matseðill og mér boðið að velja og leið eins og ég væri á hóteli. Eftir sjúkrahúsvistina var ég fluttur heim með sjúkraleigubíl og þegar ég kom heim var spítalinn búinn að útvega hjólastól, gera baðherbergið hæft fyrir sjúkling og heimilið hjólastólahæft, án þess að ég bæði um það. Allt var þetta ókeypis. Þannig er nú sænska velferðarkerfið, 100%. Á móti eru skattar þar auðvitað töluvert hærri en hér“. Svo bætir hann því við að kona hans hafi séð um hann algerlega í rúmlegunni og án hennar hefði þetta ekki gengið eins vel og þó varð raunin.
Jákvæðnin mikilvæg
Þórhallur er nú orðinn góður af brotinu og eins og nýr. Hann segist annars reyna að hugsa vel um heilsuna. Í ætt hans er hjartakvilli en faðir hans, Heimir Steinsson, lést fyrir aldur fram úr þeim kvilla. „Ég reyni því eins og ég get að huga að hreyfingu og mataræði og umfram allt að hugsa jákvætt,“ segir Þórhallur og brosir. „Ég tók til dæmis meðvitaða ákvörðun þegar ég fótbrotnaði, að nýta tímann í eitthvað jákvætt og uppbyggilegt. Þetta var markviss ákvarðanataka“ segir hann og hlær. „Hættan á að falla í svartsýni og neikvæðni í slíkum aðstæðum er töluverð og ég vissi það. Ég skrifaði því heila bók í rúminu, en hún heitir „Allt sem þú vilt vita um Biblíuna“. Mig hafði lengi langað til að skrifa þessa bók, hafði sankað að mér heimildum, en hafði ekki haft tíma til að klára verkið. Nú notaði ég tækifærið þegar ég þurfti hvort sem er að halda kyrru fyrir. Um leið og ég vaknaði úr vímunni eftir aðgerðina og kom heim í faðm fjölskyldunnar, tók ég til við þessi skemmtilegu skrif.“
Þessi bók sem Þórhallur nýtti rúmleguna í að skrifa kemur út á Íslandi haustið 2022 og er 550 blaðsíður. Þar er að finna ýmssar forvitnilegar staðreyndir um Biblíuna.
Saknar íslensks gamlárskvöldsins meira en íslensku jólanna
Þórhallur segir að íslenska gamlárskvöldið sé einstakt. Stemmningin sé ljúf þar sem allir sameinist yfir góðum mat og áramótaskaupshefðinni sem fyrirfinnist ekki annars staðar. „Sprengjurnar búa líka til sérstakt andrúmsloft og nú ætlum við að njóta alls þessa með börnunum okkar sem búa hér á landi,“ segir Þórhallur.
Nýtir fjölbreytta þekkingu í fararstjórnina
Fyrir utan að vera prestur er Þórhallur trúarbragðafræðingur, sagnfræðingur og rithöfundur og undanfarin ár hefur hann nýtt reynslu sína og þekkingu sem fararstjóri í eftirsóttum ferðum. Sem slíkur hefur hann meðal annars farið um fornar rústaborgir Tyrklands, Grikklands og Ítalíu, til Ísraels, Jórdaníu, Indlands og Bútan. Þá má nefna ferðir sem standa fyrir dyrum árið 2022 eins og Vor í Egyptalandi, Ævintýri í Himalayafjöllum og sigling um Miðjarðarhafið. Þessum ferðum og fleiri hefur ítrekað verið frestað vegna Covid ástands en nú hillir undir að hægt verði að halda áfram að ferðast. Þórhallur hefur þess vegna verið á Íslandi með reglulegu millibili en líka vegna námskeiðahalds. Hann er nú eftir áramót að byrja með hjónanámskeið 26. árið í röð.
Streitan meiri á Íslandi en skilnaðartíðni meiri í Svíþjóð
Þórhallur segir að skilnaðartíðni sé hærri í Svíþjóð en á Íslandi og segir eina af ástæðunum vera þá að þar sé einfaldlega auðveldara að skilja en hér. „Tölur sýna að helmingur allra fjölskyldna í Svíþjóð samanstanda af einstæðu foreldri með börn.“ Hann segir að heldur meiri streita sé samt áberandi á Íslandi en í stórborginni Uppsala. ,,Ég upplifi mig í milljónaborg þegar ég kem til Reykjavíkur frá Uppsala því hraðinn hér er svo mikill.“
Tilboðsdagarnir
Gagnrýni á neysluna á tilboðsdögunum segir Þórhallur að sé töluverð í Svíþjóð, meiri en á Íslandi. Hann segir að kaupstreitan sem fylgi nýjum siðum eins og „Cyber Monday“ og „Black Friday“ geti oft verið yfirþyrmandi fyrir utan hversu slæm hún sé fyrir jörðina. Þetta endurspeglist síðan í undirbúningi jóla. „Allt á að vera svo fullkomið um jólin en staðreyndin er sú að það er ekki hægt að kaupa hamingju fyrir peninga og neyslu“. Hæsta skilnaðartíðnin er í janúar og september, fólk hangir saman yfir jólin og sumarfríið og keyrir allt í botn og svo brestur stíflan og sambandið leysist upp. Svo bætist ofan á vandamálið þegar fólk ætlar að slaka á eða flýja raunveruleikann með áfengisneyslu. „Það versta sem við gerum börnunum okkar er drykkja sem fylgir oft hátíðisdögum,“ segir Þórhallur. „Jólin eru hátíð barnanna svo dæmi sé tekið. Besta jólagjöfin þeirra er ekki tölva eða nýtt sjónvarp heldur foreldrar sem gefa neyslunni frí og láta alveg vera að veita áfengi í öllu hátíðarborðhaldinu. Drykkja foreldra sem fer úr böndum um jól er eitt það versta sem börnin upplifa,“ eru skilaboð Sr. Þórhalls Heimissonar til íslensku þjóðarinnar um þessi jól.
Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.