Fyrirmynd fellur frá

Sigrún Stefánsdóttir

Dr. Sigrún Stefánsdóttir fjölmiðlaráðgjafi skrifar

Einu sinni trúði eitt af barnabörnunum mér fyrir því að ég væri fyrirmyndin hennar og bað mig um að fá að taka viðtal við mig fyrir skólann. Mér fannst þetta mikil upphefð og veitti viðtalið með stolti og gleði. Síðan hef ég reynt að falla ekki niður af þessum stalli í samskiptum við hana.

Þessi hugsun kom upp í hugann þegar sambýlismaður minn segir stundarhátt í morgunsárið. Elín Pálmadóttir er látin. Hann var að rúlla yfir helstu fréttir á símanum sínum. Ella eins og hún var alltaf kölluð var mín fyrirmynd. Ég kynntist henni á Morgunblaðinu þegar ég byrjaði sem blaðamaður þar árið 1969. Þá var hún búin að vera á Mogganum síðan 1958 og var meðal reynslubolta blaðsins. Hún tók mér nýliðanum opnum örmum og var alltaf til í að leiðsegja, þegar hún var spurð. Ella var jafnréttissinni og sagði okkur oft frá því hvernig hún þurfti að berjast fyrir því að fá að skrifa um eldgos og slark á sama hátt á strákarnir. Hún ætlaði ekki að enda með krossgátuna og tísku á sínu borði. Þennan boðskap ítrekaði hún aftur og aftur við okkur stelpurnar. Farið í stígvélin og farið á vettvang!

Elín var með blaðamannaskírteini Blaðamannafélags Ísland númer 1. Ég hef oft hugsað um það hversu mikilvægt það var að eiga fyrirmynd eins og hana. Ekki bara fyrir mig heldur allar konur sem voru að stíga sín fyrstu skref í blaðamennsku. Hún var frumkvöðull og endalaust tilbúin að miðla og kenna. Ella var ekki nema fimm árum yngri en mamma mín og varð stúdent sama ár og ég fæddist, en mér fannst hún alltaf vera jafnaldra mín í hugsun en jafnaldra með reynslu.

Skömmu áður en hún hætti í blaðamennsku hafði hún samband og bað mig um viðtal og bauð mér jafnframt í hádegisverð í háhýsinu þar sem hún bjó. Hlaðið borð beið mín og við áttum ánægjulega samverustund yfir spjalli og kræsingum. Hún var hvorki með upptökutæki né blað og blýant. Áður en ég kvaddi segist hún senda mér viðtalið til yfirlestrar. Ég hugsaði með mér – hvaða viðtal? Nokkrum dögum seinna fékk ég kveðju frá henni og viðtalið. Þetta var heilsíðuviðtal og það þurfti ekki að breyta einu orði. Þetta er ekki öllum gefið, en Ella gat þetta.

Í gegnum mitt starf á fjölmiðlum þá hefur baraáttan verið endalaus fyrir að fá að vera kona og njóta sannmælis á ritstjórninni. Ég hef oft vitnað í Ellu þegar ég hef verið að kenna ungu fólki í háskóla fjölmiðlafræði. Ég vona að eitthvað af því hafi skilað sér. Þessi kvennskörungur í sögu íslenskrar blaðamennsku er fallin frá en sporin hennar mást ekki. Hún er ókrýnd móðir íslenskrar blaðamennsku.

 

 

 

 

 

 

 

Sigrún Stefánsdóttir apríl 6, 2022 07:00